Sameinuð aftur eftir 44 ár

Steinunn Helga Hákonardóttir og Sigurður Stefánsson þegar þau voru yngri.
Steinunn Helga Hákonardóttir og Sigurður Stefánsson þegar þau voru yngri.

Ástarsagan sem Steinunn Helgu Hákonardóttir sendi inn í ástarsögukeppnina sem Brúðkaupsblað Morgunblaðsins efndi til er vinningssagan. Sagan er dagsönn og fjallar um ást þeirra Steinunnar og Sigurðar Stefánssonar. Fyrir þessa dásamlegu sögu hljóta þau í vinning næturgistingu á svítu Stracta hótelsins á Hellu.

Það var vor í lofti þegar ég fór að ganga rúntinn um miðbæ Reykjavíkur með vinkonu minni. Ég var 17 ára, byrjuð að læra á bíl og búin að fá sumarvinnu sem Dista frænka hafði reddað mér í versluninni Vogue á Skólavörðustíg. Það var í Austurstrætinu sem við Siggi mættumst í fyrsta sinn. Þetta var ást við fyrstu sýn. Hann var í Iðnskólanum og ég verðandi búðardama. Við urðum svo bálskotin í hvort öðru að við gátum ekki sleppt því að hittast eitt kvöld. Við stunduðum Glaumbæ og þar dönsuðum við á hverju laugardagskvöldi frá klukkan 21.00 til kl. 01.00.

Þegar við vorum búin að vera saman í nokkurn tíma varð ég barnshafandi, barnið sjálft. Við Siggi komum okkur saman um að hann myndi fara heim til foreldra sinna á sama tíma og ég færi til minna foreldra og segðum tíðindin.

Mamma tók þessu bara vel, en hún ráðlagði mér að nefna við Sigga að við yrðum að fara að búa því ekki væri pláss fyrir okkur og barn í mínum foreldrahúsum. Sama sögðu hans foreldrar. Þarna stóðum við sem sagt frammi fyrir því, 18 ára gömul, að við yrðum að fara að búa.

Við tókum á leigu yndislega íbúð í 101. Við hreiðruðum um okkur í íbúðinni með gamlan sófa til að sofa á og með samtíning af eldhúsdóti frá foreldrum okkar.

28. september 1968 giftum við okkur í Garðastrætinu heima í stofu hjá séra Jóni Auðuns þar sem eiginkona sérans settist við orgelið og byrjaði að spila. Okkur var stillt upp á miðju stofugólfinu, ég bambandi ólétt í víðum „chiffon“-kjól og Siggi í teinóttum jakkafötum.

Viðstaddir athöfnina voru foreldrar okkar beggja. Þarna vorum við átta manns og sungum hvern sálminn á fætur öðrum og sú gamla spilaði ákveðið undir á orgelið. Þetta var svolítið pínlegt fyrir okkur unga fólkið því ekki kunnum við textann á öllum þessum sálmum og hreyfðum bara munninn með.

Við eignuðumst dásamlega stúlku í desember. Það var svo mikill sjarmi yfir þessu öllu, við vorum mjög hamingjusöm, sjóðandi bleyjur í stóra pottinum, sem amma hafði átt, á Rafhaeldavélinni og annan þvott í höndunum á bretti sem mamma gaf okkur.

Þegar við vorum búin að vera gift í 2 ár var þetta allt farið að verða ansi erfitt, Siggi í skólanum á engum launum og ég í vinnu með elsku dóttur okkar hjá dagmömmu, því á þeim tíma fékk fólk ekki pláss fyrir börnin sín á leikskóla ef það var gift. Einhverra hluta vegna skildust leiðir hjá okkur þegar við vorum 20 ára. Við vorum bara of ung til að ráða við þetta allt. Árin liðu, ég hitti annan mann sem ég var gift í 34 ár og eignuðumst við tvö yndisleg börn og sama gerðist hjá Sigga. Ég hugsaði alltaf vel til hans og talaði fallega um hann við dóttur okkar.

Svo gerðist það að ég fór á dansstað með vinkonu minni fyrir þremur árum síðan, þá búin að vera fráskilin seinni manni mínum í 11 ár, að ég hitti Sigga minn aftur, þá var hann búinn að vera ekkjumaður í fjögur ár.

Við elskum hvort annað afar heitt, erum farin að búa saman og ætlum að gifta okkur aftur fljótlega. Dásamlega dóttir okkar er alsæl með foreldra sína svo ég tali nú ekki um barnabörnin tvö sem við eigum saman og barnabarnabarnið.

Höf.: Steinunn Helgu Hákonardóttir.

Steinunn Helgu Hákonardóttir og Sigurður Stefánsson.
Steinunn Helgu Hákonardóttir og Sigurður Stefánsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál