Þeir deyja sem þegja!

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Alla ævi hef ég átt erfitt með að viðurkenna að „ég get ekki“.  Biðja um hjálp. Verið mótaður af því að „vera ekki með þetta væl“. Standa mig. Sumarið 2015 var ég fárveikur eftir að hafa þróað veikindin í tvö ár. Vissi ekki hvað væri að annað en að mér leið andstyggilega og stöðugt að fá ofsakvíða- og panikköst,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ég var kominn í örvæntingu og í rælni „blés ég út“ á facebook. Fékk lygileg viðbrögð. Fólk meinti eflaust vel með að segja mér „hrista þetta úr mér“, „rífa sig upp“, „hafa margir það miklu verra“. Sumir skömmuðu mig! Ég var þá búinn að fara í gegnum „burn out“ og gegnsær af viðkvæmni. Eins og að fá salt í sár að heyra þetta! Það var svo grunnt á skömminni og aumingjakomplexnum í mér. Ég hrökk til að baka og ætlaði að hætta. En ég fékk miklu fleiri jákvæð viðbrögð. Ég ákvað, hversu illa sem mér leið, að vera opinn á facebook og vera „fokking vælandi“ ef einhverjum fannst það. Það reyndist mín lífsbjörg að lokum!

Í lok ágúst 2015 gat ég ekki meira. Ofsakvíða- og panikköstin voru 2–4 á dag og stóðu yfir í allt að 3 tíma og ég fór í „black out“ af sársauka. Þegar þau náðu saman gat ég ekki meir. Ég þorði ekki að fara út í búð eða vera á meðal fólks af ótta við að fá kast. Ég tók stóra ákvörðun um að kveðja í svartnætti hugans og hef sagt frá því áður. Það var guðs mildi að ákvörðunin snérist í höndunum á mér! Það varð upphafið að batagöngunni minni. Ég trúi ekki á tilviljanir. Hér var verið að vísa mér veg... eftir að ég „sleppti tökunum“.

Því er ég enn og aftur að rifja þetta upp? Ég var sískrifandi um mína líðan sem hjálpaði mér í gegnum erfiðar dýfur, ásamt að semja ljóð og lög. Í desember 2015 ákvað ég að stíga í óttann og birta pistil sem byggði á minni reynslu. Það var stórt skref í mínum bata. Viðbrögðin voru framar vonum og þá áttaði ég mig á hversu stór hópur af fólki þjáist hvern dag! Sumir þora ekki að opinbera veikindi sín út að skömm og ótta við álit samfélagsins. Berjast samt áfram í gegnum vinnudaginn.

Ég er ekki sérfræðingur í andlegum veikindum eða hvað öllum er fyrir bestu. Ég er bara venjuleg manneskja með lífsreynslu. Síðan í desember hef ég ritað marga pistla. Flesta í svipuðum dúr. Fór auk þess í stórt helgarviðtal hjá DV. Ég veit að sumum fannst Einar vera orðinn of athyglissjúkur. Að skrifa og birta mína reynslu hefur ekkert með mitt egó að gera. Að skrifa er mín sjálfshjálp. Að birta er ég að gefa af mér. Ég birti ekkert sem ég hef ekki öðlast frelsi gagnvart, vitandi ég gæti átt von á neikvæðum viðbrögðum. Að eiga reynslu af þefa af dauðanum þá er ekki til þörf í mér fyrir athygli á sjúkan hátt. Tilgangurinn er að miðla reynslu til þeirra sem vilja og geta nýtt sér hana. Mig langar líka að stuðla að opnari umræðu í samfélaginu um andleg veikindi. Sporna við fordómum. Ég hafði tekið eftir að ekki eru til margar reynslusögur á íslensku um mín veikindi eða andleg veikindi almennt. Er fróðleiksfús og leitaði að upplýsingum erlendis. Ég varð að vita nákvæmlega hvað væri að mér! Ég hef síðan lesið urmul af sögum í gegnum erlenda sjálfshjálparhópa á facebook. Það hjálpar mér mest að geta samsvarað mig við reynslu annarra og fengið viðurkenningu á að mín veikindi voru engin ímyndum. Að ég væri ekki ekki bara „fokking“ vælandi út í horni! Og "hrist'etta úr mér"!

Út pistlunum mínum hef ég fengið mýmörg skeyti, símtöl og komment frá fólki. Venjulegu fólki sem er elskulegt að láta mig vita að ég hafi gefið því eitthvað. Sumum von og trú. Ég hef deilt pistlunum inn í flesta sjálfshjálparhópa á facebook ásamt öðrum hugðarefnum. Áhrifamesta skeytið var frá manneskju sem hætti við að taka eigið líf og þakkaði mér fyrir pistlana. Ég ætlast ekki til að fá viðbrögð en ekkert gleður mig meira en vita af fólki sem er og getur þegið mína reynslu.  Að geta speglað sig í reynslu annarra er heilandi. Mér finnst eðlileg manngæska að hjálpa öðrum ef ég get. Ég er heppinn að hafa kynnst fólki sem glímir við andleg veikindi. Fólk sem fær mig til að vera ég sjálfur. Fólk sem dæmir ekki. Fólk sem skilur mig. Fólk með ósvikna manngæsku og hjartahlýju. Fyrir það er ég þakklátur. Ég hélt ég væri einstakur með mín vandamál. Ég leitaði mér seint hjálpar. Fljótlega áttaði ég mig á þeim fjölda fólks sem er að glíma við ýmis konar andleg veikindi! Ég kynntist þessu fólki í gegnum fyrrnefnda sjálfshjálparhópa á Facebook. „Geðsjúk“ var sá fyrsti og #égerekkitabú átakið var að hefjast í byrjun batans hjá mér. Eftir að hafa fylgst með umræðunni  og viðbrögðum við efninu sem ég deildi, skynjaði ég ákveðinn samnefnara. Fólk með geðhvarfasýki, þunglyndi, áfallastreituröskun, kvíðaröskun o.s.frv. var að tengja við mína reynslu! Ég tengdi á móti. Við eigum samleið. Enginn er eyland!

Andlega veikir er þverskurður þjóðfélagsins, venjulegt fólk úr öllum stéttum og stöðum. Sumir á vinnumarkaði, aðrir öryrkjar. Eigum það sameiginlegt að glíma við andleg veikindi sem hefur slæm áhrif á okkar líðan og lífsgæði. Þurfum öll á einhvers konar hjálp að halda. Það eru allt of margir þarna úti sem eru í litlum tengslum við fólk. Fólki sem líður það illa að það hefur ekki kjark og þor að leita sér hjálpar. Þetta fólk er það þakklátasta sem ég hef upplifað á ævinni. Þetta er fólk sem þekkir vanlíðan, skömm og sársauka betur en flestir. Því miður eru of margir sem lifa í þögninni. Það er átakanlegt. Það biður ekki um neitt en er þakklát allri hjálp. Það hef ég fundið í gegnum mín skrif. Þetta fólk vælir ekki.

„Hættu þessu væli drengur!“ Að segja þetta, ertu um leið að segja „ekki tala um tilfinningar“ „hvernig þér líður er aukaatriði“, „stattu þig!“. Þetta er ástæðan fyrir því að mér fannst, fyrst ekkert sást utan á mér, ég vera „fokking“ vælandi daginn út og inn. Frá því ég fann fyrir fyrstu einkennum veikindanna sumarið 2013 þar til batinn minn hófst í september 2015. Þá lifði ég í skömm að vera eins og ég er og reif mig niður. Ég hafði enga ástæðu til þess. ENGA! Það er ekki í lagi að þurfa að skammast sín fyrir að vera fárveikur. Það varð mér lífsbjörg að skrifa í örvæntingu á facebook. Hefði ég ekki gert það væri ég ekki hér. Ég var kominn á lokastig minnar röskunnar og sjúkdóms. Ég vil ekki að allir þurfi að ganga svo langt því það getur verið of seint. Kredduviðhorfin eins og „bara kellingar sem væla„, „sýndu nú af þér hörku drengur“ o.s.frv., glumdu í huganum svo ég þorði ekki opna. Alveg eins og ég þorði ekki að opna sem barn. Var sagt við mig, sem ég veit að hljómar kaldhæðnislegt en ekki illa meint, „þeir deyja sem þegja“. Í fyrsta skiptið á ævinni tókst mér að opna mig. Og þá var ekki aftur snúið!

Það vill svo til að andlega veikir eru að kljást við lífshættulega sjúkdóma. Sjúkdóma sem enginn bað ekki um og hafði ekki val um að fá! Hver stefndi að því að þjást af geðhvörfum þegar hann yrði stór? Eða lifa lífinu í þunglyndi? Ekki ég. Ég þekki því miður of margar manneskjur sem hafa fallið frá fyrir aldur fram í blóma lífsins. Manneskjur sem hugsuðu kannski eins og ég „að vera ekki að þessu fokking væli“ af ótta við viðbrögð annarra! Sorglegra en hægt er að koma í orð. Guð blessi minningu þeirra allra og verndi aðstandendur þeirra.

Elskulegi þú sem ert að lesa og ert í vanlíðan en færð þig ekki til að leita þér hjálpar. Ég skora á þig að stíga skrefið. Að viðurkenna vanmátt sinn er stórsigur. Það er loforð. Það er engin skömm í því og alls ekki tabú. Við erum svo mörg sem skiljum þig. Þú verður aldrei ein eða einn. .Það er til von, trú og lausn. Trúðu mér.

„Hættu þessu væli drengur!“.  Á meðan ég lifi held ég áfram að tjá mig. Já á meðan ég man. Ég hef aldrei „vælt“ um ævina. En þú?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál