Mikilvægt að halda umræðunni um einelti opinni

„Samskiptavandamálin hafa breyst undanfarin ár vegna tilkomu allra samfélagsmiðlana,“ segir …
„Samskiptavandamálin hafa breyst undanfarin ár vegna tilkomu allra samfélagsmiðlana,“ segir Björg Jónsdóttir hjá félagasamtökunum Erindi. Getty images

„Frá því við opnuðum hafa foreldrar leitað talsvert til okkar. Hvert mál er einstakt og tekið á þeim þannig að henti hverju tilfelli fyrir sig,“ segir Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri Erindis sem eru samtök um samskipti og skólamál. Erindi verður með ráðstefnu um einelti, bættan skólabrag og betri samskipti í Salnum í Kópavogi föstudaginn 30. september en ráðgjafar Erindis sérhæfa sig í úrræðum gegn einelti unglinga og barna. „Í samskiptasetri Erindis bjóðast börnum og foreldrum þeirra ókeypis ráðgjöf auk þess sem skólar og frístundastofnanir geta líka nýtt ráðgjafarþjónustu Erindis,“ segir Björg.

Aðspurð út í ráðstefnuna næsta föstudag lofar Björg fróðlegum degi.   „Skólastjórnandi eins grunnskólans á höfuðborgarsvæðinu mun koma og segja frá reynslu skólans af verkefni sem unnið var í samstarfi við ráðgjafarþjónustu Erindis. Aðalfyrirlesararnir eru svo tveir af helstu sérfræðingum Dana í skólamálum og velferðarmálum barna í dönskum skólum, þau Søren Kjær Jensen og Helle Rabøl Hansen. Søren er stofnandi samtakanna  Center for Rummelighed sem vinnur að bættum samskiptum í skólamálum og Helle hefur skrifað fjölda bóka um velferð barna og eineltismál á undanförnum árum.“ Sömuleiðis munu ráðgjafar Erindis kynna þjónustu samtakanna að sögn Bjargar. „Þá munu þeir gera sérstaklega grein fyrir þeirri ráðgjöf sem boðið er upp á fyrir starfsfólk skóla í átaksverkefnum sem varða samskipti og bættan skólabrag.“

En hvaða hlutverki þjóna ráðgjafar Erindis þegar taka þarf á eineltismálum? „Best er að svara þessu þannig að starfsfólk Erindis beitir aðferðum sem trúa á og virða lausnarfærni barna í eigin málum. Þannig eru þau virkir þátttakendur í öllum aðgerðaráætlunum sem varða þau. Um leið er lögð áhersla á að virkja styrkleikana í nærumhverfi barnanna  og treysta stuðningsnet foreldra og skólasamfélagsins. Eins og áður sagði þá hafa líka skólar haft samband og óskað eftir ráðgjöf við að brjóta upp samskiptamynstur sem hefur myndast í nemendahópum. Í þeim tilfellum hafa starfsmenn Erindis unnið með skólunum að sérsniðnum átaksverkefnum þar sem nemendur, starfsmenn skólans og foreldrar leggjast á eitt við að bæta skólabraginn. Þessi átaksverkefni hafa reynst afar vel og eru bæði árangursrík og skemmtilegt uppbrot á skólastarfi fyrir alla aðila,“ útskýrir Björg sem telur góð samskipti vera þann þátt sem skiptir hvað mestu um líðan nemenda. „Þrátt fyrir að við vitum sitthvað um einelti og gildi góðra samskipta er mikilvægt að halda umræðunni sífellt opinni.“

Vandamálin breyttust með tilkomu samfélagsmiðla

„Samskiptavandamálin hafa breyst undanfarin ár vegna tilkomu allra samfélagsmiðlana. Upplýsingaflæðið er sem betur fer orðið meira, en á sama tíma er aðgangur að fólki orðin mjög auðveldur og oft falinn. Foreldrar virðast ekki alltaf vera meðvitaðir um hvað börnin eru að gera á samfélagsmiðlum.“ Björg segir erfitt að mæla hvort eineltismálum sé að fjölga eða fækka með tilkomu internetsins og samfélgasmiðla. „Það er erfitt að mæla það. Upplifun einstaklinga getur verið svo ólík en þegar einum einstakling líður illa út af slæmum samskiptum, þá er einum of mikið.“

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá ráðstefnunnar á vefsíðu Erindis. Þess má geta að ráðstefnan hefst klukkan 14:00 og ráðstefnustjóri er Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingiskona.

Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Erindi.
Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Erindi. erindi.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál