Svona má rækta nándina í desember

Sigga Dögg segir að aðventan sé tilvalin til þess að …
Sigga Dögg segir að aðventan sé tilvalin til þess að rækta sambandið. Ljósmynd / Aldís

Kynfræðingurinn Sigga Dögg segir að mikilvægt sé fyrir pör að rækta sambandið og að desembermánuður sé tilvalinn til þess. Hún leggur því til að fólk gefi sér tíma til að skemmta sér með maka sínum á aðventunni, í stað þess að missa sig í jólastressi.

„Stundum fara jólin að snúast um hver kaupir dýrustu gjöfina, en ég vil frekar að fólk einblíni á hvort annað og nýti desember í að sýna þakklæti,“ segir Sigga Dögg og bætir við að oft þurfi ekki mikið til að treysta böndin.

„Oft eru þetta litlir hlutir, eins og að sofa nakin. Fyrir mörgum er það stórt skref, enda tengja margir það við kynferðislegar athafnir. Ég segi þó að þetta snúist um nándina sem fylgir því að vera nakinn með maka sínum. Það þarf ekkert meira að gerast. Svo má líka fara saman á kaffihús, fá sér eitthvað gott í gogginn og spjalla saman,“ segir Sigga Dögg, en að hennar mati þurfa þessir hlutir hvorki að kosta mikla peninga, né fyrirhöfn.

 „Fólk gæti til dæmis farið í vettvangsferð á bókasafnið sitt og náð sér í bók um kynlíf, bara til að skoða og lesa. Ég gaf til dæmis sjálf út bók sem nefnist Á rúmstokknum, en hún hefur að geyma pistla sem fólk getur lesið upp fyrir hvort annað. Það er hentug leið til að brjóta ísinn og vekja máls á hlutum sem fólki finnst kannski svolítið erfitt að ræða. Síðan má skiptast á að gefa morgunmat í rúmið, eða kaupa uppáhaldsnammi makans og gefa honum.“

„Fólk getur líka farið í bað eða sturtu saman. Þetta eru bara svona litlir, blíðir og fallegir hlutir sem miða að því að njóta hvort annars,“ segir Sigga Dögg að endingu.

Sigga Dögg situr sjálf ekki auðum höndum á aðventunni, því hún gaf nýverið út bók og tekur því fullan þátt í jólabókaflóðinu. Þá heldur hún reglulega uppistand fyrir stóra sem smáa hópa, en hægt er að fylgjast með Siggu Dögg á Facebook-síðu hennar.

Aðventan er prýðilegur tími til þess að rækta sambandið.
Aðventan er prýðilegur tími til þess að rækta sambandið. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál