Árið 2016 var ég minn sigurvegari!

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

Ár endurhæfingar

„Árið 2016 hefur verið ár endurhæfingar. Oft verið erfitt að koma auga á árangur. Í veraldlegum þáttum er hann enginn. Í persónulegum og andlegum þáttum verið mikill. Ég settist niður fyrir jól og fór yfir árið í huganum og reyndar frá september 2015. Niðurstöðuna má setja í eitt orð. Þakklæti. Það er auðvelt að detta í að vera óánægður og vilja meira. Þá er hollt að horfa á ávinninginn. Hitt kemur. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en eignast hefur! Já það á vel við um mína batagöngu,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ár innri baráttu

Árið 2016 hefur verið mjög erfitt að útskýra fyrir fólki hvernig það er að berjast við röskun sem á frummálinu nefnist Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD) frá því ég „triggeraðist“ sumarið 2013. Algengt að fólk sem þekkir ekki til trúi mér varla. Horfir á mig og rífur jafnvel upp frasann hver er sinnar gæfu smiður. Þá er stutt í klisjaðar setningar eins og; Ert ekki nógu harður af þér! Stendur þig ekki! Hætta þessu væli! Margir hafa það miklu verra! Sumir segir þetta dæmandi en aðrir í trú að þetta hljómi hvetjandi. Í minni líðan og stöðu var þetta eins og að fá hnífsstungu í magann. Fóðraði aumingjakomplexinn og minnkaði allar líkur á að ég trúði sjálfur að það væri eitthvað að. Hvað þá ég þyrfti á hjálp að halda! Auðvitað brugðust ekki allir svona við en var og er því miður of algengt. Ég var viðkvæmastur þegar ég vissi ekki sjálfur hvort eða hvað væri að. Það sést ekkert utan á mér. Ekkert blóð. Enginn plástur. Engar hækjur. Stundum hef ég spáð í að vefja sáraumbúðum um hausinn. Kannski fólk skilji þá betur?!

Ár nýrra uppgötvana

Árið 2016 hefur verið uppgötvun staðreynda. Ekkert sem ég hefði getað gert eða ekki gert, til að verðskulda að veikjast af CPTSD. Vildi að svo væri. Ég hafði mikið fyrir að öðlast og lifa ágætu lífi í mörg ár. Ég ákvað ekki að rústa því si svona. Frekar með ólíkindum hve góðum árangri ég hef náð í lífinu með þetta kraumandi undir niðri. Sé í dag hvað ræturnar af röskuninni hafa háð mér og/eða gert mér lífsins verkefni erfiðari. Ég lagði í staðinn einfaldlega meira á mig. Það tók mig bara 2 ár að átta mig á að eitthvað gæti verið að. Þó ekki fyrr en ég hafði tapað öllu veraldlegu. Og tapað heilsunni. Andlega og líkamlega útbrunninn. Dautt á vélinni og hver sem er gat valtað yfir mig. Þannig var mitt ástand eftir að hafa barist og reynt að standa mína plikt í lífinu í vinnu og á heimili. Já barist af hörku. Var enginn skortur á því! Einkennilegt að enginn virtist taka eftir breytingum á mér á meðan veikindin stigversnuðu. Nema þá helst börnin mín. Þau gerðu það og voru hrædd um mig. Vissi það síðar. Hef greinilega „leikið“ hlutverkið vel í vinnunni. Líklega einnig gagnvart fyrrverandi sambýlingi sem í mars 2015 sleit sambúð. Í mars 2015 var ég búinn á því. Tilefnið var reyndar ákvörðun tengd fjármálum. Leyndi gjörningi sem var óheiðarlegt og algjörlega út úr karakter! Orsakaði engan stórskaða en afsakar ekkert. Ég vissi ekki þá en fékk skýringu síðar, að ofsakvíða- og óttakast ásamt sjúklegum ótta við höfnun orsakaði að ég þorði ekki að segja henni frá. Já veit, þetta hljómar eins aumingjalegt og það er skrifað. En staðreynd. Í kjölfar sambúðarslita var eins og varnarstífla hefði brostið því veikindin þróuðust hratt til sumarloka þegar ég náði að fá hjálp á ögurstundu.

Ár batans!

Árið 2016 hefur verið ströng vinna að öðlast bata. Mér líður stundum líkt og slösuðum hermanni sem lifði af stríð og er í endurhæfingu. Sk. survivor úr stríðinu. Ég er survivor úr mínu sársaukafulla stríði. Get í lok árs 2016 spurt, ætla ég árið 2017 að halda áfram að vera survivor eða breytast í victim. Má kannski þýða á íslensku að vera sigurvegari en ekki fórnarlamb. Að líta mig sem fórnarlamb við upphaf endurhæfingar hefði verið ávísun á hugarfar sjálfsvorkunnar. Sigurvegarinn tekst á við verkefnin og er tilbúinn að leggja á sig sem til þarf. Þó ég hafi ekkert geta komið í veg fyrir veikindin og verið dæmdur til að veikjast, hafði ég fullt af ástæðum til að upplifa mig sem fórnarlamb og hvað lífið væri ósanngjarnt. Hver vill upplifa það að lenda í fjárhagsvandræðum, vera húsnæðislaus, atvinnulaus, bíllaus, orkulaus og komast ekki út úr húsi því ofsakvíða- og óttaköstin koma orðið út af engu? Öll lífslöngun farin. Vonleysi. Hafa skömmu áður verið í góðum málum í öllu sem ég taldi upp? Gat ekki einu sinni kennt því um að hafa dottið í það! Það leikur sér varla neinn að lenda í svona stöðu í lífinu! Staðreynd engu að síður.

Ár lærdóms

Árið 2016 hefur verið lærdómur í að finna mitt sjálf og standa með mér. Ég er keppnismaður í eðli mínu og sigurvegari. Hinn sanni karakter kemur í ljós á ögurstundum og gerði það. Ég viðurkenndi og er enn að viðurkenna vanmátt minn og þiggja alla hjálp sem ég get fengið. Það var stóri sigurinn minn. Ég kaus að takast á við veikindin og lífið eins erfitt og það var. Ég hef í 14 mánuði gert mitt besta að ná heilsu og byggja mér nýja brú. Hefur gengið hægt en gengið! Að vinna mig upp úr burnt out (kulnun) tekur þann tíma sem mér var sagt. Allt að 2 árum. Kominn langt en á nokkra mánuði í land en samkvæmt áætlun. Hef gert mistök á leiðinni. Ætlað mér um of. Fjárhagsleg áföll. Lent upp á kant við fólk og fengið yfir mig skítkast og yfirhalningar. Allt verið kjaftshögg en lærdómur. Stærsta breytingin á mér í dag er að ég reyni ekki að leysa mistök og/eða mótlæti sjálfur. Legg allt undir þá aðila sem eru að hjálpa mér og þigg ráðleggingar, og fer eftir þeim.

Ár breytinga

Árið 2016 hefur verið lærdómur í mannlegum samskiptum. Aldrei hafa eins margir horfið úr mínu lífi á árinu. Á móti aldrei eins margir komið í staðinn. Að vera ég sjálfur og standa með mér hefur ekki verið átakalaust. Í dag umgengst ég ekki fólk sem hefur slæm áhrif á mig og/eða ég leyfi að særa mig. Mitt val og ekki persónuleg dómharka gagnvart viðkomandi. Ég umgengst fólk sem vill umgangast mig eins og ég er og af virðingu. Mikil breyting því meðvirknin mín hefur alltaf komið í veg fyrir þetta og reynt að gera öllum til hæfis nema sjálfum mér. Ég efast ekki að fólk sem hefur talað illa um mig og hreytt yfir mig skít munnlega og skriflega, réttlæti það og finnist það í lagi. Ég breyti því ekki og reyni ekki. Ég veit hvað er rétt og hvernig manneskja ég er. Sem og vinir mínir og aðilarnir sem eru að hjálpa mér. Að vera í útistöðum við fólk, eru stríð sem sem ég vill ekki heyja í mínum bata enda til einskis að vinna.

Ég á eina ósk

Í árslok 2016 á ég á eina ósk. Að fenginni reynslu er erfiðast þegar fólk dæmir mig og mína röskun og gerist sjálfskipaðir sérfræðingar. Mér finnst erfitt að réttlæta veikindin enda á ég ekki að þurfa þess. Finn að því lengur sem líður á batagönguna þeim mun erfiðara er að útskýra af hverju mér sé ekki batnað. Ef ég má ráðleggja að lokum, þá væri indælt að fá meiri skilning. Hvernig? Ef fordómar stafa af þekkingarleysi þá gefur auga leið að auka þarf fræðslu. Því læt ég fylgja með tengil í eftirfarandi grein og hvet fólk að lesa. http://outofthefog.website/toolbox-1/2015/11/17/complex-post-traumatic-stress-disorder-c-ptsd

Árið 2016 hefur verið sigurganga. Ég lít á mig sem sigurvegara en ekki fórnarlamb. Árið 2017 mun ég halda því áfram.

Óska þér og þínum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir að lesa pistlana mína á árinu. Ekki síst fyrir gefandi og gagnlegar endurgjafir. Met mikils. Með áramótakveðju, Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál