Mér er misboðið!

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

Veikindin hafa haft afdrífarík áhrif á mig og mitt líf. Mér varð misboðið áður en ég vissi hvort eða hvað gæti verið að hjá mér! Í hræðilegri vanlíðan ákvað ég í örvæntingu að vera opinn á Facebook. Í örvæntingu að hrópa á hjálp án þess að nefna það! Að vera opinskár skilaði sér síðar en var ábyggilega stimplað sem væl hjá einhverjum. Ég gaf um leið færi á mér og var þá of viðkvæmur að geta tekið við mótlæti sem vissulega kom. Þegar ég vissi hvað væri að mér sveið mér mikið gagnvart þeim sem sáu ástæðu að fordæma mína líðan. Þetta var eldskírn fyrir það sem síðar kom,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ég er að læra að gangast heiðarlega við eigin tilfinningum. Ekki byrgja inni og þykjast. Ég ber virðingu fyrir líðan fólks. Mér verður á en meiði ekki fólk með ljótum orðum af ásettu ráði. Ég reyni að tileinka mér það viðhorf að dæma ekki líðan fólks hver sem ástæða vanlíðaninnar er. Þó að mér finnist eitthvað léttvægt mótlæti getur öðrum fundist það óyfirstíganlegt. Það veitir mér engan rétt að dæma né gera lítið úr viðkomandi. Allra síst ef ég þekki hvorki né skil hvað viðkomandi er að glíma við. Að sama skapi hefur enginn rétt á að dæma mig og mína líðan. Hvort sem mér líður vel eða illa þá er það mín raunverulega líðan. Það er ógeðslega sárt að upplifa dómhörku annarra á líðan sinni. Ég get ekki útskýrt hvernig það er að ganga í gegnum ofsakvíða- og panikkast sem stendur yfir í 1-4 klst! Né hvernig er að vera haldinn ofsakvíða og þurfa allan morguninn að ná kjarki til að horfast í augu við daginn. Eða vera orku- og varnarlaus þannig að fólk komist auðveldlega að minni viðkvæmustu kviku. Þetta var mín líðan og tilvera í marga mánuði. Heldur þú að ég geri meira úr þessu til að leita eftir meðaumkun? Eða sé ekki nógu harður af mér? Ég spyr því áður en ég fékk hjálp glumdu svona skilaboð í hausnum á mér. Ég reif mig niður og setti enn ómanneskjulegri kröfur á mig. Það sást ekkert utan á mér. Ég var minn harðasti dómari og hef alltaf verið.

Í gegnum aðallega pistlaskrif og viðtöl hef ég kynnst viðhorfum í samfélaginu gagnvart andlegum veikindum. Það geri ég í gegnum fjölmörg viðbrögð sem ég hef fengið frá fólki sem glímir við andleg veikindi og einnig aðstandendum. Mér er misboðið að í byrjun árs 2017 skuli fólk með andleg veikindi ekki treysta sér að viðurkenna veikindi sín! Af hverju? Nei það er ekki aumingjaskapur. Það er ótti við að öðrum finnist maður minna virði sem manneskja. Ótti við að upplifa sársaukann að verða hafnað. Því miður er sumt fólk upptekið að bera sig saman við aðra, líkt og það byggi sjálfsvirðinguna að telja sig betri en aðrir! Mig grunar að þetta sé sterk undirrót dómhörkunnar. Ég þekki dæmi um að fólk feli veikindin af ótta við að missa vinnuna. Eru stjórnendur fyrirtækja skilningsríkir á andleg veikindi sem og líkamleg? Er þessi ótti fólks ástæðulaus? Getur þú ímyndað þér að vera í sporum fólks í ótta við dómhörku og/eða ótta við atvinnumissi? Eins og það sé ekki nógu erfitt að glíma við veikindin ein og sér. Fólk er mölbrotið á sálinni og þýðir ekki að segja því að vera harðara af sér! Af fenginni reynslu spyr ég líka. Búum við virkilega í samfélagi þar sem almennt viðhorf er að andleg veikindi eru annars flokks miðað við líkamleg? Mér er verulega misboðið!

Rétt fyrir alþingiskosningar í haust skrifaði ég pistil og sendi persónulega á valinkunna frambjóðendur í flestum flokkum. Eðlilega voru þeir uppteknir en bjó mér til væntingar um að ég yrði að lágmarki látinn vita að pistillinn væri móttekinn. Mig minnir að 2 frekar en 3 létu mig vita og þökkuðu fyrir. Einn gaf sér tíma að skrifa mér til baka. Það þótti mér verulega vænt um. Af hverju sendi ég pistilinn á frambjóðendur? Ef frambjóðendur til Alþingis eru þverskurður af þjóðfélaginu, er þá ekki líklegt að einhverjir séu með fordómablandað viðhorf gagnvart andlegum veikindum sem er byggt á ranghugmyndum og vanþekkingu? Er þá hætta á að skorið verður niður fjárframlag til geðheilbrigðismála vegna þekkingarleysis og/eða fordóma? Það yrði meiri háttar tabú. Þá yrði mér endanlega misboðið!

Þrátt fyrir að samtök og félög andlegra veikra vinni gott starf og séu sífellt að reyna að halda umræðunni gangandi er enn erfitt að gera það fordómalaust. Af hverju? Hef mikið spáð í það og finnst lausnin ekki flókin. Forvarnarstarf með fræðslu fyrir yngstu kynslóðirnar. Þar er tækifærið að móta rétt viðhorf þannig að komandi kynslóðir líti ekki á andleg veikindi sem tabú! Frábært framtak þeirra sem hafa haft frumkvæði að segja frá sinni reynslu í grunnskólum og framhaldsskólum. Ef þetta tekst ekki breytist ekkert til batnaðar til framtíðar.

Frá september 2015 hef ég lagt mikið á mig að ná bata frá veikindum, eins og ég nefndi, sem ég hvorki bað um né gat spornað við. Er að vinna á ofsakvíða- og ótta, þunglyndi, meðvirkni og ofvirkni (ADHD). Að vera með þessa stimpla gerir mig ekki að verri né lægra settri manneskju. Né betri. Það fer að líða að því að ég komist á vinnumarkaðinn. Verður fróðlegt að vita hvaða viðbrögð ég fæ við að sækja um störf! Ekkert við því að segja ef ég fæ ekki starf vegna þess að aðrir eru hæfari en ég. Já mér verður verulega misboðið ef ég fæ pata af því að umsókn minn sé hafnað vegna yfirstandandi veikinda. Er það óeðlilegt?

Trúi að öll séum við gott fólk. Gengur misvel að sýna það. Ég bið þig að dæma ekki það sem þú þekkir ekki. Ég sýni þér virðingu. Sýndu mér virðingu. Þarft ekki að líka vel við mig. Né mér við þig. Ég sætti mig ekki við ósanngjarna dómhörku. Ef það gerist læt ég heyra í mér.

Ef þú vilt vita og/eða er annt um mína heilsu veit ég um leið. Tala við mig. Spyrja hvernig ég hef það. Ég lofa að svara af hreinskilni. En eyðilegg vissulega möguleikann á „feitri“ kjaftasögu í leiðinni...

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál