„Hössler“ í yfirþyngd leitar að konu

Maðurinn þráir að eignast maka en vill komast í betra …
Maðurinn þráir að eignast maka en vill komast í betra form. mbl.is/Thinkstockphotos

Sæll vertu.

Ég hef árum saman verið að leita mér að maka. Ég er svolítill hössler ef svo má segja. Ert þú með ráð fyrir mig sem karl í yfirþyngd til að næla mér í heita kvensu? Ég vil vera svona eins og þú Valdimar. Kannski getur þú sent mér lista yfir þína vegu og mælingar á líkama þínum þar sem þú ert í toppformi. Hver er einkaþjálfarinn og hvað borðar þú (og hvað tekur þú í bekk)? Ég vil vera svona úthverfismaður með nokkur börn, en með sömu móður.

Btw. ég er hreinn sveinn

Góðan daginn og takk fyrir þessa skemmtilegu fyrirspurn.

Ég vil byrja á að hrósa þér fyrir hressilega framsetningu, það er nóg af neikvæðni í lífinu og því mikilvægt að hafa gaman af hlutunum líka. Margir líta eflaust svo á að þessi spurning sé send í gamni, það geri ég líka. Engu að síður er stundum sagt að öllu gríni fylgi alvara og hvort sem svarið nýtist þér, „hössler“ eða ekki, þá gæti það líka nýst einhverjum öðrum. Ég mun því leggja mig fram sem endranær við að svara af kostgæfni.

Ég greini örlitla kaldhæðni í framsetningunni þinni, en gæti haft rangt fyrir mér. Ég vil alla vega nefna ákveðna hluti varðandi kaldhæðni sem gætu verið gagnlegir. Í sumum tilvikum hefur kaldhæðni verið hátt skrifuð sem æðri list í röksemdafærslum þar sem verið er að segja eitt en í raun meina jafnvel þveröfugt. Flestir eru þó sammála um að kaldhæðni getur verið mjög alvöruþrungin og valdið leiðindum. Þegar enska orðið „sarcasm“ (kaldhæðni) er skoðað kemur í ljós að uppruni þess er úr forngrísku og hafði upprunalega þá merkingu að særa eða meiða aðra með því að gera lítið úr þeim með tvíræðu orðalagi. Þetta vil ég nefna af því mér sýnist að það sé stutt í húmorinn hjá þér en hvet þig til að forðast kaldhæðni eins og heitan eldinn, ekki síst í parasambandi. Á endanum kemur oftast í ljós að bak við kaldhæðni er skortur á sjálfsöryggi sem birtist þannig að við höfum þörf til að vera „fyndin“ á kostnað annarra. Fyrir suma er mjög erfitt að verjast slíku framferði á meðan aðrir hreinlega njóta þess og eru afar hæfir í rökfærslum sem hafa það að leiðarljósi að gera grín á kostnað annarra. Það er sjaldnast gott veganesti í langtímasambandi að beita kaldhæðni og er í raun vanvirðing gagnvart þeim sem fyrir kaldhæðninni verða, eitthvað sem við viljum ekki að maki okkar upplifi.

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég þakka fallega lýsingu í minn garð en hvet þig engu að síður til að forðast að reyna að líkjast öðrum. Þú yrðir til dæmis hissa ef þú vissir hvað ég tek litla þyngd í bekk. Það að vera ósáttur við sjálfan sig og að vilja líkjast öðrum getur verið, rétt eins og kaldhæðnin, vísbending um lágt sjálfsmat eða óheilbrigða sjálfsmynd. Þú ert einstakur, enginn er akkúrat eins og þú og algjör óþarfi að hafa fleiri en einn af nákvæmlega sama einstaklingnum. Enginn veit hvað er að gerast innra með öðru fólki, sama hver birtingamyndin út á við er. Þetta hefur margsannast þegar fólk sem virðist hafa allt sem hugsast getur, hefur jafnvel tekið sitt eigið líf. Við ættum því ekki að vera að bera okkur saman við aðra heldur treysta því að við séum nóg og ættum frekar að einbeita okkur að því að gera það besta með það sem við höfum fengið. Það er lítið mál að vinna að sterkari sjálfsmynd og um að gera að bóka viðtalstíma ef þú vilt vinna með það. Það getur þú gert með því að smella „HÉR“

Hvað varðar holdafarið þá vil ég nefna tvennt. Það fyrra er að þrátt fyrir að hafa starfað á árum áður sem einkaþjálfari og við boot camp-þjálfun þá eru aðrir mun betri í að leiðbeina fólki hvað heilsurækt varðar. Ég hvet þig til að leita til fagfólks á þessu sviði, til dæmis hjá líkamsræktarstöðvunum. Hitt sem ég vil nefna er að reynsla mín og margra annarra hefur sýnt að árangri varðandi holdafar er ekki síst náð með heilbrigðu líferni og þá aðallega góðu mataræði. Þar get ég gefið þér einföld ráð sem hafa virkað fyrir alla sem ég hef séð prófa það af einhverri alvöru. Ráðin eru þau að borða hollan mat og sleppa óhollum mat. Flóknara er það nú ekki. Til að útskýra aðeins betur hvað er talið vinna með okkur þá er hvatt til þess að forðast sykur, hveiti og skyndibita. Svo er mælt með því að drekka reglulega vatn yfir daginn og sofa vel á nóttunni. Þetta er ekki flókið en reynist mörgum erfitt af ýmsum ástæðum. Ef þú svo stundar hreyfingu sem hentar þér í 20-30 mínútur á dag, þá er það góð viðbót.

Ég hef fulla trú á þér, haltu áfram að vera jákvæður og gangi þér vel að finna þér lífsförunautinn sem þér er ætlaður.

Með bestu kveðju – Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál