Þetta lærði hann af útrýmingarbúðunum

Heimurinn bíður eftir þínum hæfileikum. Um leið og þú finnur …
Heimurinn bíður eftir þínum hæfileikum. Um leið og þú finnur þinn tilgang í lífinu veistu hvað þú ert skapaður til að gera. Svo ekki bíða eftir að heimurinn gefi þér, það er þitt að gefa heiminum. mbl.is/Thinkstockphotos

Viktor Frankl var einn af virtustu fræðimönnum síðustu aldar. Frankl sem var sálgreinir skrifaði bókina um leiðina að tilgangi lífsins (Man´s Search for Meaning), eftir að hann hafði dvalið í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hjálpaði í lifanda lífi mörgum að finna tilgang í lífinu og halda áfram eftir miklar áskoranir. En reynsla hans úr stríðinu gerði hann einkum hæfan til að vinna með mjög veikum einstaklingum sem höfðu misst lífsvonina.

Í gegnum árin hafa fleiri tileinkað sér aðferðir Frankl, meðal annars sálfræðingar, geðlæknar, ráðgjafar og markþjálfar. Það er verðugt verkefni að endurskoða tilgang lífsins reglulega og finna það sem heimurinn bíður eftir að fá frá okkur í staðinn fyrir að bíða eftir því sem heimurinn á að gefa okkur.

Það sem er einstakt við Frankl er sú staðreynd að bæði trúaðir sem og þeir sem aðhyllast húmanískar kenningar finna hljómgrunn í sterkum kenningum Frankl. Við skoðum 7 lífsreglur í hans anda og vonum að þeir sem standa á krossgötum með sitt líf finni skýran tilgang til að gefa áfram það sem þeir eru skapaði til að gera.

Hvert og eitt okkar er einstakt, með hæfileika og þekkingu …
Hvert og eitt okkar er einstakt, með hæfileika og þekkingu sem eru gerð til þess að hafa áhrif. Öll eigum við okkur tilgang, sem við eigum ekki að bera saman samvæmt Frankl. mbl.is/Thinkstockphotos

1. Skýr tilgangur finnur sér leiðir

Frankl upplifði sterkt í útrýmingarbúðunum, að þeir fangar sem höfðu tapað tilgangi sínum í lífinu, týndu fljótt lífi sínu.

Þeir sem höfðu farið í gegnum þetta samtal: „Hvers ætlast heimurinn til af mér? Hvaða hæfileika þarf ég að varðveita í gegnum þennan tíma og byrja að vinna að þegar ég verð frjáls maður?“ höfðu miklu meiri lífsvilja og lífslíkur en aðrir samkvæmt Frankl.

Frankl og vinir hans í útrýmingarbúðunum áttu þetta samtal við marga samfanga sína og hélt þetta lífinu í mörgum þeirra. En það sem Frankl lagði áherslu á í þessari aðferð var að ekki er æskilegt að bera saman tilgang ólíkra aðila. Það hafa allir sinn tilgang sem er ólíkur manna á milli.

2. Ástin er mikilvæg

Það sem kom Frankl í gegnum viðveru hans í útrýmingarbúðunum var ást hans á eiginkonu sinni sem hafði verið send í sams konar útrýmingarbúðir fyrir konur. Hann ímyndaði sér hana, heyrði í henni tala og hélt fast í þá ást sem hann bar í hjarta sér til hennar.

Fyrir Frankl komst hugsun hans, um hvort kona hans væri á lífi eða ekki, ekki nálægt þeirri tilfinningu sem ástin gaf honum til hennar. Hann ímyndaði sér að hann væri að tala við hana og ræktaði allt það fallega sem ástin hans til hennar hafði upp á að bjóða. 

3. Þú getur vanist öllu

Þegar Frankl var settur í útrýmingarbúðirnar var hann sviptur öllu í lífinu. Hár hans var rakað af honum, nafn hans tekið af honum, handrit að bókinni sem hann ætlaði að gefa út var tekið. Í staðinn fékk hann númer sem var flúrað á húð hans. 

Langflestir sem höfðu verið í sömu sporum og Frankl voru þá þegar látnir, og til að lifa af í þessum búðum þurftir þú að sýnast sterkur því annars varstu tekinn af lífi.

Frankl kynntist sársauka og hungri sem hann hafði áður ekki talið eðlilegt að manneskjan þyldi og skildi á þeirri stundu að líkami og hugur mannsins þolir meira en við höldum, ef einungis maðurinn finnur tilgang í aðstæðunum og finnur þannig leið til að lifa af.

4. Þú hefur alltaf val 

Margar sálfræðilegar tilraunir hafa leitt í ljós að umhverfið hefur áhrif á manneskjuna. Ef einstaklingur upplifir mikið illt í umhverfinu, þá verður sá hinn sami að lokum fyrir áhrifum þess. Þetta er stundum kallað lúsíferáhrifin.

Þessu var Frankl ósammála. En samkvæmt upplifun hans í seinni heimsstyrjöldinni var hann á því að umhverfið getur haft áhrif á okkur, en það skapar ekki örlögin okkar, við höfum alltaf val. 

Frankl upplifði að eigin sögn hversu lágt mannskepnan getur lagst ef hún fær tækifæri til þess. Sem dæmi voru fangar, sem unnu sig upp í að vera verðir og beittu samfanga sína ofbeldi til að forðast þjáningu sjálfir.

Eins voru verðir, sem lögðu sig í hættu, til að bjarga föngum. Því þeir vildu ekki illt gera og fundu tilgang sinn í að aðstoða þá sem þurftu á að halda, þvert á það sem þeir höfðu verið beðnir um af yfirmönnum sínum.

Frankl sá einnig menn rísa upp úr engu, fanga sem gáfu samföngum sínum hluta af þeim litla brauðbita sem þeir fengu á degi hverjum. Þeir fundu tilgang sinn í að hjálpa öðrum sem voru verr staddir en þeir sjálfir.

Að mati Frankl er hægt að taka allt af manninum, nema val hans hvernig hann bregst við umhverfinu sínu. Tilgangur hans í lífinu ákvarðar viðbrögðin hans.

5. Það er tilgangur í sársauka

Ólíkt Buddah sem taldi ánægju koma í kjölfar sársauka taldi Frankl tilgang með sársaukanum. Ef sársauki og dauðinn er hluti af lífinu okkar, þá er tilgangur með því og við verðum að fara í gegnum sársauka og það eigum við að hafa að leiðarljósi.

Ef til dæmis líf þitt er fullt af sársauka, hvað gerir þú þá? Tekur upp kross þinn og heldur áfram? Eða verður eins og dýr? Þú hefur valið að mati Frankl.

Lífið í útrýmingarbúðunum var óbærilegt ef þú fannst ekki tilgang til að lifa af í þessum búðum. Frankl var með bókina sem hafði verið tekin af honum í huga allan tíma. Hann ætlaði að finna tilgang með öllum sársaukanum og nýta hann til að hjálpa samföngum sínum og heiminum eftir að hann yrði frjáls.

6. Án vonar, tilgangs og framtíðar er ekkert líf fram undan

Frankl sagðist sjá ítrekað í lífinu, hvernig fólk sem var sokkið í sjálfsvorkunn hafði lítinn lífsvilja og lítið sem ekkert til að lifa fyrir. Þess vegna gerði hann að ævistarfi sínu að hjálpa fólki í þessum aðstæðum að finna tilganginn og halda áfram lífinu. 

Frankl talaði um samfanga sinn sem sagðist hafa dreymt að þann 30. mars yrði þeim sleppt úr útrýmingarbúðunum. Þann 29. mars varð samfangi hans veikur og hann lést þann 31. mars. Draumurinn sem hafði haldið honum á lífi, varð að engu. Hann hafði ekkert til að lifa fyrir lengur. Þess vegna verðum við öll að mati Frankl að eiga okkur drauma og vonir sem taka engan endi heldur vaxa og eflast með árunum.

7. Með því að finna tilgang og sjá fyrir sér framtíðina skapast ný von inn í lífið

Að mati margra sem aðhyllast logotheraphy þá er hún ein leið til að finna tilgang fyrir þá sem hafa misst lífsvonina og viljann. Með því að finna tilgang í lífinu og horfa fram á við, muna að heimurinn er að bíða eftir þínu framlagi en ekki öfugt, þannig öðlastu hlutverk í lífinu sem enginn getur tekið frá þér að mati Frankl.

Gangi þér vel!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál