Hvernig er kynlífið á brúðkaupsnóttinni?

Áslaug Kristjánsdóttir.
Áslaug Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Oddvar

Brúðkaupsnóttin er vanalega eitthvað sem fólk sér í hillingum. Spurningin er hins vegar sú – hvernig er þetta vanalega hjá fólki á stóra daginn? Áslaug Kristjánsdóttir sérfræðingur situr fyrir svörum. 

Áslaug hjúkrunar- og kynfræðingur segir að kynlíf brúðhjóna á brúðkaupsnóttunni sé mjög misjafnt og kannski ekki svo líklegt að það verði alltaf eins gott og þegar fólk gefur sér góðan tíma til þess og er afslappað og minna þreytt.

„Ég tel samt góða hugmynd að skipuleggja kynlífið á brúðkaupsnóttina eins og annað sem skiptir máli á stóra daginn. Það gerir væntingar um kynlífið á brúðkaupsnóttina raunhæfar. Það er svo gott ráð að ræða kynlíf í hjónabandinu, hvernig maður vill hafa það, eins og allt annað í samböndum.“

Gott kynlíf ekki sjálfgefið

Er gott kynlíf á brúðkaupsnóttina vísbending um gott hjónaband? „Ekki endilega. Ég held að kynlíf á brúðkaupsdaginn segi voðalega lítið til um kynlíf í hjónabandinu þegar lengra er liðið í sambandinu. Ég tel hins vegar það að bíða með kynlíf lengi eftir athöfn ekki góða byrjun. En ég tel úrelta hugsun að leggja of mikla áherslu á kynlífið á brúðkaupsnóttina, enda er fólk flest ekki að sofa hjá í fyrsta skiptið og að mörgu að huga fyrir brúðkaupið. En í brúðkaupsundirbúningi þarf líka að huga að kynlífinu, hvort sem það gerist svo á brúðkaupsnóttina eða morguninn eftir brúðkaup. Það þarf að sinna öllu því sem við viljum að dafni vel í hjónaböndum. Ég velti því stundum fyrir mér hvort það geti verið að um helmingur hjónabanda endi með skilnaði, vegna þess að við vanrækjum sambandið og kynlífið í samböndum?“

Hún segir að fólk þurfi að taka ábyrgð á eigin kynlífi. „Þú ættir aldrei að láta það vera á ábyrgð maka þíns að koma þér til. Eins ætti maki þinn ekki að vera með það á sínum herðum. Til að upplifa gott kynlíf þarftu að taka ábyrgð, vita hvað þú vilt og biðja um hlutina. Þora að ræða, vera opin og prófa nýja hluti.“

Við erum nakin og berskjölduð

Af hverju er kynlíf áskorun? „Ég held að það sé vegna óraunhæfra væntinga okkar m kynlíf. Fjölmiðlar, bíómyndir og aðrir miðlar sem við sjáum og heyrum gefa oftar en ekki skakka mynd af kynlífi í samböndum. Svo er líklegt að kynlíf vefjist fyrir okkur vegna þess að þá erum við líklega hvað mest berskjölduð. Við erum jú oft allsber í kynlífi.“

Ætti fólk að gera samning um kynlíf í hjónaböndum? „Já, hvort sem það lítur á það sem samning eða ekki skiptir kannski ekki öllu máli en að ræða um kynlífið sem part af hjúskaparsáttmálanum er góð hugmynd. En eins og alla samninga þarf svo að endurskoða og endursemja um kynlífið. Það er ágætt að ræða hvar fólk er statt, hversu ánægt það er og hvað má gera til að bæta kynlífið, ef þörf er, á árs fresti. Þá er brúðkaupsafmælið ágætis dagur til þess.“

Hvernig gæti sá samningur litið út? „Fólk gæti skráð hjá sér markmið fyrir kynlífið fyrir hvert ár í hjónabandinu, hversu oft ætlar það að fara á stefnumót, hversu oft á ári ætlar það að prófa eitthvað nýtt í kynlífinu, hvenær hægt er að eiga barnlausa helgi þetta árið o.s.frv. Þegar við setjum okkur markmið og höfum þau skýr er líklegra að við náum þeim.“

Hversu ofarlega á lista ætti kynlíf að vera? „Það er auðvitað persónubundið hversu mikið fólk leggur upp úr kynlífi. En flest fullorðið fólk hefur áhuga á að stunda kynlíf og finnur að það gerir sambandinu gott. Snertingar og nánd eru manneskjunni nauðsynlegar svo hún dafni. Kynlíf snýst um snertingar og ætti því ekki að vera vanrækt.“

Áslaug mælir með að

Gera raunhæfar væntingar

Setja mörk

Vita hvað maður vill

Taka ábyrgð á eigin kynlöngun

Skipuleggja kynlífið

Leyfa óvæntum hlutum að gerast

Áslaug mælir ekki með að

Trúa því að kynlífið reddist eða gerist fyrir töfra ástarinnar

Halda að maki þinn lesi hugsanir

Halda aftur af því að ræða það sem þig langar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál