Í þagnarbindindi í dag

Halldór Armand Ásgeirsson
Halldór Armand Ásgeirsson Morgunblaðið/RAX

Halldór Armand Ásgeirsson höfundur bókarinnar, Vince Vaughn í skýjunum, strengdi einu sinni áramótaheit um að drekka meira kaffi. Hann langaði að verða týpan sem drakk of mikið kaffi og svitnaði á hnakkanum og hann stóð alveg við það. Það endaði svo að hann þurfa að hætta að drekka það.

Hvað ætlar þú að gera um áramótin? Ég mun halda til á ótilgreindum stað á höfuðborgarsvæðinu og verð í þagnarbindindi allan gamlaársdag þar sem ég mun kveikja á kertum og reykelsum, vera berfættur og loka gæludýr heimilisins inni hjá mér og gera upp árið með þeim í huganum. Þagnarbindindið stendur alltaf yfir frá dagrenningu og fram að lokum ávarps útvarpsstjóra. Verði ekki búið að ráða nýjan útvarpsstjóra fyrir áramót mun ég þegja fram að ávarpi útvarpsstjóra árið 2014. Reglur eru reglur.

Hvernig er dæmigert gamlárskvöld hjá þér? Strax eftir áramótaskaupið tekur við fastmótaður helgisiður þar sem ég afsaka mig með látbragði frá fjölskyldu minni, bregð mér út á pall og sting stjörnuljósum í snjóinn. Svo tendra ég þau og sest í lótusstellingu í miðju þeirra. Hvert stjörnuljós er tákn fyrir mistök sem ég hef gert á árinu, óefnd loforð, óuppfylltar skuldbindingar, áskoranir sem ég hef hlaupist undan. Árleg afglöp mín skipta hundruðum. Þetta er merkingarþrungið ferli og í krafti þess geng ég með hreinan skjöld inn í nýtt ár.

Borðar þú alltaf það sama á gamlárskvöld? Við fjölskyldan borðum unna kjötvöru, gómsætan ferfætling sem lifði og dó í verksmiðju.

Hvað fannst þér standa upp úr árið 2013? Í fljótu bragði fannst mér uppljóstranir Edward Snowden algjörlega magnaðar. Þær staðfestu það sem alla grunaði svo sem. En það merkilega er að það er eiginlega öllum alveg sama þótt leyniþjónustur taki afrit af einkalífum þeirra daglega. Ég þekki engan sem nennti að setja sig inn í þetta. Við höldum áfram að snúa veggjum heimila okkar út á við - sjálfviljug.

Hvað er þú ánægðastur með? Ég gaf út mína fyrstu bók, Vince Vaughn í skýjunum. Það var mjög ánægjulegt og spennandi að fara í gegnum það ferli í fyrsta skipti. Að sama skapi var það líka mjög taugatrekkjandi. En ég var afskaplega ánægður með þau tíðindi að bókin væri að koma út og fannst útgáfan öll heppnast mjög vel. Annars er ég bara þakklátur fyrir góða heilsu og fólkið í kringum mig.

Hefur þú strengt áramótaheit og staðið við það? Ég hef meira nýtt áramótin í einhvers konar óræða stefnumótun frekar en að negla niður einhver grjóthörð markmið. En já, ég hef yfirleitt fylgt þeirri stefnumótun held ég. Ég man reyndar einu sinni eftir því að hafa ákveðið að byrja að drekka meira kaffi, mig langaði að verða týpan sem drakk of mikið kaffi og svitnaði á hnakkanum og stóð alveg við það. Endaði á því að þurfa að hætta að drekka það. Spurning um að heita því núna að byrja aftur að drekka kaffi.

Árið 2013 í þremur orðum… Friður, ást, koffeinlaust kaffi.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi á árinu? Lágkolvetnakúrinn 6. Hætti alveg að borða flauel þegar ég las hana og líður miklu betur. Prumpið mitt er lyktarlaust og ferskt eins og hafgustur. Annars las ég helling af bókum á árinu og ég man ekki eftir því að ein þeirra hafi staðið sérstaklega upp úr. Það liggur við að maður gleymi þessu jafnóðum. Ég var samt að klára ágæta bók í dag sem heitir The Circle. Það er hins vegar kominn út hellingur af nýjum bókum eftir íslenska höfunda og ég reikna með að einhverjar þeirra verði í uppáhaldi þegar klukkan slær 12 á gamlaársdag.

Ertu byrjaður að skipuleggja árið 2014? Ekki nema bara mjög lauslega. Maður þarf að vita hvert maður stefnir en ekki reyna að skipuleggja líf sitt um of. En ég ætla að reyna að skrifa og spila fótbolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál