Þóttust vera kaþólsk til að endurnýja heitin

Hálfdán, Erla og synir þeirra fjórir eftir athöfnina í Flórens …
Hálfdán, Erla og synir þeirra fjórir eftir athöfnina í Flórens í sumar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hálfdan Steinþórsson, fyrrverandi sjónvarpsmaður og núverandi framkvæmdastjóri GOmobile, segir fjölskylduna skipta mestu máli í lífinu, en auk þess þyki honum ofboðslega gaman í vinnunni. Hálfdan er þekktur fyrir að vera uppátækjasamur og undirstrikaðist það í sumar þegar hann þóttist vera kaþólskur til að fá að endurnýja heitin við konuna sína í Flórens.

„Þar sem ég eyði miklum tíma í vinnunni finnst mikilvægt að vinna með skemmtilegu fólki í skemmtilegu umhverfi og leysa krefjandi, en á sama tíma skapandi verkefni,“ segir Hálfdan, en GOmobile, sem er ný lausn og gerir fólki kleift að safna peningum með farsímanum sínum, fór í loftið 1. apríl sl. og eru notendurnir nú þegar orðnir 15 þúsund.

Smartland Mörtu Maríu ræddi við Hálfdan um hvað það væri sem gerði lífið gott á hverjum degi fyrir honum. „Á hverjum degi labba ég með drengjunum mínum í skólann og á hverjum degi sofna ég með konunni minni. Það gerir lífið gott,“ segir hann. Eiginkona Hálfdans er Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og stofnandi fyrirtækisins Betri svefn. Saman eiga þau fjóra syni.

Endurnýjuðu heitin í kaþólskri kirkju

Hálfdan og Erla hafa verið gift í 10 ár, en í sumar endurnýjuðu þau heitin í Flórens. „Við fórum í stærstu kirkju sem hægt var að finna og sögðumst vilja endurnýja heitin. Ég varð að ljúga því að ég væri kaþólskur svo þetta gengi upp, og í kjölfarið fengum við boð um að mæta nokkrum dögum seinna.“

Þegar hjónin mættu í kirkjuna með fjóra syni sína var búið loka kirkjunni og dekka salinn fyrir hundruð manna. Hálfdan segir prestunum tveimur hafa fundist það furðulegt að engir gestir væru með í för, en athöfnin var þó haldin með viðeigandi hátíðleik. 

„Prestarnir uppgötvuðu það snemma í athöfninni að við værum ekki kaþólsk en þeir leyfðu okkur þó að klára athöfnina. Svo hefði svaramaður átt að lesa upp ritningalestur en í staðinn pikkaði ég í Erlu og hún gerði það. Hún gat ekki horft á mig á meðan hún las upp trúarjátningarnar því ég gat ekki hætt að hlæja.“

Eftir athöfnina biðu fleiri hundruð manna fyrir utan kirkjuna, sem er eitt af helstu kennileitum borgarinnar.

Hálfdan segir það mikilvægt að rækta sambandið og halda þau hjón svokallað Argentínukvöld einu sinni í mánuði þar sem þau klæða sig upp og elda þriggja rétta máltíð. „Við kaupum gjöf handa hvort öðru í Kolaportinu fyrir 1.000 krónur og höfum það svo huggulegt heima. Strákarnir fá þá að leigja mynd á meðan og virða það alveg að við séum með Argentínukvöld niðri,“ segir hann að lokum.

Athöfnin var mjög hátíðleg.
Athöfnin var mjög hátíðleg. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál