Slakar á í Hafnarfirði

Símon Birgisson.
Símon Birgisson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Símon Birgisson hefur verið ráðinn sem sýningar- og handritsdramatúrg við Þjóðleikhúsið. Símonn varð frægur þegar hann hóf störf hjá DV fyrir meira en áratug en þá var hann um tvítugt og þótti sýna ótrúlega blaðamannahæfileika.

Svo venti hann kvæði sínu í kross, hætti á DV og fór í Listaháskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hann 2009 af sviðshöfundabraut. Síðan þá hefur hann leikstýrt verkum, skrifað eigin leikrit auk þess að vinna að meira en tug uppsetninga í Þýskalandi og Sviss með leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarsyni. Um tíma vann hann sem fréttamaður á Stöð 2, á Fréttablaðinu, hefur verið gagnrýnandi í Djöflaeyjunni og var menningarritstjóri DV 2013. 

Símon mun taka við starfinu í febrúar. Hann mun vinna jöfnum höndum við handritsvinnu og sem sýningardramatúrg. Á þessu leikári hefur hann komið að skrifum þriggja leikgerða sem nú eru á fjölunum, Konunni við 1000°, Karítas og Sjálfstæðu fólki. Hann fékk Grímuverðlaunin fyrir leikgerð sína upp úr Englum alheimsins og hefur starfað sem dramatúrg við fjölda sýninga í hinum þýskumælandi leikhúsheimi.

„Ég er fyrst og fremst ótrúlega þakklátur fyrir að fá að vinna í Þjóðleikhúsi Íslendinga. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki endilega við þessu þegar ég fór úr blaðamennskunni yfir í leikhúsið á sínum tíma. En maður uppsker eins og maður sáir,“ segir Símon. 

Hvað er það við leikhúsið sem heillar þig?

„Fyrst og fremst samvinnan. Það er alltaf spennandi að mæta til vinnu í leikhúsi. Kröfurnar eru miklar. Maður þarf að leggja sín störf í dóm almennings og gagnrýnanda og því mikil pressa. En það er líka slegið á létta strengi og það er gefandi að vinna með hópi fólks sem setur listina í fyrsta sæti.“

Hvernig er starf blaðamannsins frábrugðið starfi handritshöfundarins?

„Nálgunin á verkefnin hjá mér er allavega mjög lík. Þegar maður er með nýtt verk í höndunum kvikna alltaf upp spurningar um erindi og samfélagið. Hver er fréttin í þessu? Í blaðamennskunn lærir maður líka að vinna hratt, undir deadline, og maður kynnist líka pressunni sem fylgir því að öll þjóðin fylgist með manni. Maður þarf að þroskast hratt sem blaðamaður og það sama gildir um leikhúsið.“

Hvernig færðu hugmyndir og hvernig slakar þú á eftir annasaman dag?

„Bestu hugmyndirnar fæ ég alltaf í samtali við fólk – á kaffihúsinu eða við eldhúsborðið hjá pabba. Ég er Hafnfirðingur og finnst gott að slaka á með því að keyra í fjörðinn og fara í sund eða hitta félagana.“

Hverjar eru vonir þínar og væntingar fyrir 2015?

„Ég held að 2015 verði frábært ár. Ég fékk tækifæri til að vinna að stórum og metnaðarfullum verkefnum á árinu sem var að líða. Konunni við þúsund gráður, Karítas og Sjálfstæðu fólki. Ég er spenntur að starfa með nýjum þjóðleikhússtjóra og þeim frábæra hópi listamanna sem starfa í íslensku leikhúsi.“
Hallfríða Þóra Tryggvadóttir, Símon Birgisson og Brynja Þorgeirsdóttir.
Hallfríða Þóra Tryggvadóttir, Símon Birgisson og Brynja Þorgeirsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál