Amman tekin með á tónleikaferðalög

Hafdís Huld Þrastardóttir segir móðurhlutverkið hafa mikil áhrif á hvernig …
Hafdís Huld Þrastardóttir segir móðurhlutverkið hafa mikil áhrif á hvernig hún semur tónlist. Ljósmyndari / Eggert Jóhannesson

Hafdís Huld var lengi vel búsett erlendis, þar sem hún fékkst við tónlist. Fyrir nokkrum árum flutti hún þó aftur til Íslands og stofnaði fjölskyldu, en hélt þó áfram á sömu braut. Hún segir móðurhlutverkið hafa haft töluverð áhrif á hvernig hún semur tónlist, enda verði til fleiri lög sem einkennast af ást og kærleika þegar móðurástin er komin í spilið.

„Ég samdi og tók upp plötuna Home eftir að ég flutti heim og hún hefur óneitanlega rólegra og mýkra yfirbragð en mínar fyrri plötur, en ég held að það sé nú aðallega vegna þess að ég var með ungabarn þegar ég gerði plötuna. Það hefur þó örugglega líka haft áhrif að platan var samin hér í sveitinni á Íslandi.“

Hafdís Huld hefur alltaf haft mikinn áhuga á leiklist, og var því tvístígandi á sínum tíma um hvort hún ætti að fara í leiklistar- eða tónlistarnám. Einnig segist hún hafa áhuga á fjölmiðlum, sem hún gæti hugsað sér að vinna við ef tónlistarinnar nyti ekki við. En hvaðan fær Hafdís innblástur að lögum sínum?

„Hugmyndir að lögunum mínum fæðast venjulega út frá því sem er að gerast í kringum mig. Ég nálgast textana mína eins og sögur og oftast verður lagið til þegar textinn er kominn. Ég hef alltaf mest gaman að tónlist sem segir sögur og hlusta því helst á folk-tónlist og söngvaskáld,“ segir Hafdís, og játar að hennar „guilty pleasure“ sé þó kántrýtónlist.

Nýverið lauk tónleikaferðalagi Hafdísar Huldar, en hún spilaði víðs vegar um Bretland. Hún segir það allt öðruvísi að túra eftir að barn hefur bæst í hópinn, enda þurfi að huga að mörgu.

„Já það þarf miklu meira skipulag núna þegar dóttir okkar kemur með okkur. Það er ekki hægt að bóka tónleika eins þétt og við þurfum að passa að ferðalögin á milli staða séu ekki of löng. Og svo þarf að hafa ömmu með til að passa. Ég hef svolítið þurft að velja og hafna eftir því hvað hentar fjölskyldunni og þar af leiðandi spilað færri tónleika en áður,“ bætir Hafdís Huld við.

Hafdís Huld og unnusti hennar Alisdair Wright á tónleikum.
Hafdís Huld og unnusti hennar Alisdair Wright á tónleikum. Ljósmyndari /

Líður best í Mosfellsdalnum

Vinir Hafdísar Huldar gera gjarnan grín að því hversu heimakær hún sé, enda kann hún best við sig í Mosfellsdalnum.

„Vinir mínir grínast stundum með það hvað ég er rosalega heimakær, kannski er það vegna þess að ég ferðaðist svo mikið vegna vinnunnar í mörg ár. En ef ég á að svara því alveg heiðarlega hver uppáhaldsstaðurinn minn er þá er það hérna heima í Mosfellsdalnum.“

Þó að Hafdísi líði sérlega vel í rólegheitunum í Mosfellsdal þýðir það ekki að hún slái slöku við. Þvert á móti er hún með ýmis verkefni á prjónunum.

„Ég er með tvær plötur í vinnslu núna og ég veit að það er verið að bóka tónleika erlendis út árið 2017 Þannig að það er fullt af skemmtilegum hlutum fram undan. En ég er löngu búin að læra að það þýðir ekki að vera með niðurneglt plan, lífið er alltaf að koma manni á óvart,“ segir Hafdís Huld að endingu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál