„Það er áfall að veikjast á geði“

Elísabet Jökulsdóttir komst að því að veikindin sem höfðu verið …
Elísabet Jökulsdóttir komst að því að veikindin sem höfðu verið að hrjá hana stöfuðu af kvíða. Ljósmyndari / Árni Sæberg

Eftir að börn Elísabetar Jökulsdóttur fluttu að heiman, og lífið tók að kyrrast, tók hún upp á því að veikjast síendurtekið. Við tók nokkurra ára tímabil þar sem Elísabet var margoft flutt upp á slysadeild, án þess að læknar kæmust að því hvað væri að hrjá hana. Seinna komst Elísabet þó að því að veikindin tengdust áföllum sem hún hafði orðið fyrir, en hafði aldrei unnið úr.

„Þetta lýsti sér þannig að ég hringdi á allt að fjóra sjúkrabíla á ári því mér fannst ég vera að deyja. Allur líkaminn var undirlagður, ég var með meltingartruflanir, hræðsluköst og ónot og vissi ekki hvað var að mér. Og þeir fóru alltaf með mig upp á slysadeild, þar var ég í einhverjum rannsóknum en það fannst aldrei hvað var að.

Svo uppgötvaði ég að þetta var kvíði sem var að koma upp á yfirborðið og ég tengdi það gömlum áföllum sem ég hafði orðið fyrir. Ég var í ofbeldissambandi í gamla daga, þá var ég alkóhólisti,“ segir Elísabet, og bætir við að fleiri áföll líkt og dauði föður hennar, sem og barátta hennar við andleg veikindi hafi líka sett strik í reikninginn.

 „Það er áfall að veikjast á geði, en ég hef tvisvar sinnum veikst mjög alvarlega á geði. Maður fær enga áfallahjálp, heldur er bara settur inn á geðdeild. Það er auðvitað það eina rétta, en það þarf að bæta við áfallahjálp,“ segir Elísabet, sem með hjálp vinkvenna sinna komst að því að hin óútskýrðu veikindi sem hún hafði þjáðst af stöfuðu af kvíða.

„Ég á vinkonur sem þjást af miklum kvíða og ég fattaði í gegnum þær að hluti af þessu var kvíði sem braust út líkamlega. Ég hafði alltaf haldið að kvíði væri hugsun í höfðinu, að kvíði gæti ekki lamað á mér taugakerfið eða komið af stað hjartsláttatruflunum. Ég fattaði það síðan að kvíðinn gat kallað fram svona ofboðslega mikil líkamleg einkenni sem ollu því að ég hringdi á sjúkrabíl.“

Þegar maður hefur tíma fyrir sjálfan sig koma kvíðaköstin

Elísabet segir að veikindin hafi fyrst farið að gera vart við sig þegar börnin voru flogin úr hreiðrinu og skyldunum fækkaði, enda sat hún þá upp með sjálfa sig.

„Þegar maður er hættur að gera allt þetta venjulega, þegar maður er hættur að þvo þvottinn og elda matinn og hefur allan þennan tíma fyrir sjálfan sig þá koma mikil kvíðaköst. Ég vissi ekki að þetta væri kvíði, ég hélt að þetta væri þráhyggja. Ég hélt að þetta væru geðhvörfin mín, en það var ekki fyrr en vinkonur fóru að segja mér frá sínum kvíða að ég áttaði mig á því að ég var eins og þær. Og kvíðinn var ekki endilega meðfæddur, heldur kom hann til af áföllum sem ekki hafði verið hlustað á.“

Elísabet, sem í dag hefur náð tökum á kvíðanum, segir nauðsynlegt að vinna úr þeim áföllum sem upp koma. Enda geti afleiðingarnar annars sett strik í reikninginn.

„Ég er ekki að segja að það þurfi að hlusta á eitt áfall í 10 ár, það er nóg að taka aðeins utan um þetta áfall og segja „takk fyrir að ég bjargaðist, ég veit af þér“. Eitt lítið faðmlag getur verið nóg, annars lendir maður í 10 ára áfallaröskun,“ játar Elísabet og segist líklega myndu bregðast öðruvísi við áföllum í dag, en þar spili þakklætið stóra rullu.

 „Ég má ráða hvernig ég bregst við og ég held að þakklæti sé sterkasta leiðin. Sonur minn var eitt sinn næstum drukknaður, hann var 14 ára og fannst á botni sundlaugar. Bróðir hans fann hann og bjargaði honum. Þá var ég í geðhvörfum heima hjá mér en þegar ég var látin vita varð ég svakalega örvæntingarfull. Það dó allt inni í mér og ég var alveg svakalega hrædd um að þetta væri mér að kenna og að hann myndi aldrei jafna sig. En þá var eins og einhver engill hvíslaði að mér að vera þakklát fyrir að hann hefði bjargast. Og svo hékk ég í þakklætinu. Ég má velja þakklæti, en þá er ég líka orðin fullorðin. Í dag myndi ég reyna að muna eftir þakklætinu og reyna að muna eftir því þegar mér var hreinlega sendur engill,“ segir Elísabet að lokum.

Elísabet segir áföll ekki endilega vera af hinu slæma, enda megi margt af þeim læra. Þá segir hún þau einnig fínasta efnivið til listsköpunar, en á sunnudag mun hún standa fyrir svokölluðum áfallagjörningi í Bæjarbíói. Þar ætlar Elísabet að fara yfir 30 áföll sem hún hefur orðið fyrir á lífsleiðinni, og lofar hún mikilli upplifun.

„Þetta verður mjög einstakt, áföllin verða komin í bíó,“ bætir Elísabet glettilega við að endingu.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á Facebook.

Elísabet segir mikilvægt að vinna úr þeim áföllum sem maður …
Elísabet segir mikilvægt að vinna úr þeim áföllum sem maður verður fyrir. Ljósmyndari / Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál