Sigga Lund á krossgötum

Sigga Lund.
Sigga Lund. mbl.is/Aðalsteinn Sigurðarson

Fjölmiðlakonan Sigga Lund stendur á krossgötum og hefur ákveðið að hefja leit að sjálfri sér. Til þess að leitin munu skila einhverjum árangri ætlar fjölmiðlakonan að fara til Balí og hefur nú stofnað síðu inni á Karolina Fund. 

„Ég heiti Sigga Lund og hef starfað sem fjölmiðlakona um langt skeið. Ég hóf útvarpsferil minn fyrir alvöru á Létt 96,7 árið 2003 þar sem ég starfaði í þrjú ár. Þaðan lá leiðin yfir á FM957 þar sem ég hóf störf í morgunþættinum Zúúber ásamt félögum mínum Svala og Gassa. Zúúber varð fljótlega einn vinsælasti morgunþáttur landsins og hélt þeim velli í heil sex ár. Síðan þá hef ég meðal annars starfað á Bylgjunni, Léttbylgjunni, K100, Austurfrétt og á sjónvarpsstöðinni N4 þar sem ég meðal annars sinnti þáttagerð í þættinum Að austan. Árið 2014 vendaði ég mínu kvæði í kross. Ég flutti á sveitabæinn Vaðbrekku í Hrafnkelsdal og gerðist fjárbóndi ásamt kærasta mínum, sem er fæddur þar og uppalinn. Í þessum afdal byrjaði borgarstelpan að snappa frá lífinu og tilverunni í sveitinni,“ segir Sigga Lund inni á Karolina Fund-síðunni. 

Hún segir að sveitalífið hafi verið ljúfsárt. Þar hafi verið margt gott en líka margt sem ekki gekk upp.

„Eftir rúm tvö ár flutti ég frá Vaðbrekku á Akureyri og hóf störf hjá N4. Við skötuhjú létum reyna á fjarbúð en í lok október síðastliðinn skildi leiðir eftir 7 ára samband.“

Snapchat.
Snapchat.

Leitin að Siggu Lund

„Þetta hófst allt á Snapchat skömmu eftir sambandsslitin. Þegar ég sagði fylgjendum mínum frá skilnaðinum, spurði ég hvort þeir hefðu áhuga á að fylgja mér á þeirri nýju vegferð að leita að sjálfri mér, því augljóslega er maður pínu týndur á svona tímamótum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ég er fjölmiðlakona og opinber snappari. Ég hef verið að snappa um leitina að sjálfri mér eftir sambandsslit við sambýlismann minn til 7 ára. Ferðlagið kalla ég „Leitin að Siggu Lund“. Nú langar mig að gera heimildarmynd um þessa mögnuðu vegferð sem nú leiðir mig til Balí. Getur þú lagt mér lið?“

Nú eru tæpir þrír mánuðir síðan ég skildi. Þetta er búið að vera sannkölluð rússíbanareið og mikið ferðalag og hafa fylgjendur mínir á Snapchat sem eru nokkur þúsund fylgt mér í gegnum súrt og sætt.“

Heimildarmynd

„Þegar ég lít til baka yfir síðastliðna mánuði geri ég mér grein fyrir því að þetta er mögnuð vegferð sem á erindi við marga. Því langar mig að taka þetta skrefinu lengra og segja söguna í formi heimildarmyndar. Þetta yrði ekki skilnaðarsaga heldur saga konu sem vaknar upp af löngum dvala og leggur í leit að sjálfri sér. Án efa eru margir sem geta fundið sig í þessari frásögn, það talar bara enginn um það. Tilgangurinn yrði að vekja áhorfandann til umhugsunar um líf sitt. Verklok eru áætluð haustið/veturinn 2017 ef allt fer eftir áætlun. Ferðalagið er bara rétt að byrja. Nú er stefnan tekin til Indónesíu því ég hef heyrt að Balí sé sennilega einn af bestu stöðunum í heiminum til að finna sjálfan sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál