Alltaf stressaður áður en hann hefst handa

Sölvi Dúnn, húðflúrari og myndlistamaður.
Sölvi Dúnn, húðflúrari og myndlistamaður. mbl.is/Ófeigur

„Ég hef alltaf teiknað mikið af myndum sem henta vel í flúr. Ég fékk áhuga á húðflúrum þegar ég var krakki og fannst þetta mjög merkilegt fyrirbæri, en ég laumaðist oft inn á húðflúrstofur til að skoða möppurnar sem þar voru. Það var þó ekki fyrr en síðasta haust, þegar ég kynntist vinkonu minni Auði Ýri, sem þá var að stíga fyrstu skref sín sem húðflúrari, sem ég fór að pæla í þessu sem möguleika fyrir sjálfan mig. Þetta er ágætis leið til þess að geta starfað við myndlist,“ segir Sölvi Dúnn, sem sjálfur skartar níu húðflúrum.

„Ég var kominn með þrjú áður en ég byrjaði og síðan hafa sex bæst við. Ég gerði þrjú af þeim sjálfur, en það er hefð að fyrsta flúrið sem maður setur á mannslíkama fari á mann sjálfan. Áður en maður fær að flúra aðra verður maður að sýna að maður kunni þetta. Fyrsta flúrið sem ég gerði er á lærinu á mér, rétt fyrir ofan hné. Þetta er einfaldur texti og tilvitnun í uppistandarann Bill Hicks, þar sem stendur „just a ride“. Hicks er líklega ófyndnasti, en jafnframt fyndnasti, uppistandari allra tíma. Hann var alltaf mjög reiður og alvarlegur, sem er samt mjög fyndið,“ segir Sölvi og hvetur blaðamann eindregið til að kynna sér kappann, áður en hann heldur máli sínu áfram.

„Það er auðvitað mjög ónáttúrulegt að meiða sjálfan sig viljandi, og þurfa að halda áfram þó að það sé sárt. Aftur á móti held ég að ég fari líka verr með sjálfan mig en kúnnana mína því ég veit hvað ég þoli, en ég veit ekki hvað ég er að láta kúnnana ganga í gegnum,“ bætir hann við.

Sér heiminn í svart-hvítu

Sölvi er lítt hrifinn af því að ræða tískustrauma í húðflúrum, enda nýbyrjaður í bransanum. Hann nefnir þó nokkra stíla, með svolitlum semingi.

„Í dag eru margir að fá sér svart-hvítar, raunsæjar portrettmyndir og myndir af dýrum. Rúmfræðilegar myndir, mandölur og flúr í svokölluðum „dotwork“-stíl hafa einnig verið mjög vinsæl undanfarið. Venjulega eru nokkrir mismunandi stílar inni, ef svo má segja, og svo auðvitað klassíkin eins og „old school“-flúrin sem fólk mun alltaf fá sér.“

Sölvi, sem sjálfur eltist lítið við tískustraumana, viðurkennir að hann sæki innblástur í klassíkina enda eru hauskúpur, hákarlar og snákar vinsæl þemu hjá honum.

„Ætli fólk myndi ekki kalla þetta „illustrative blackwork“ á ensku. Ég nota eiginlega enga liti, og enga grátóna, heldur bara svartan. Sem er svolítið eins og ég sé heiminn, það er í svart-hvítu. Annaðhvort elska ég hluti eða gjörsamlega þoli þá ekki,“ segir Sölvi léttur í bragði.

„Teikningarnar eru klárlega mjög hráar. Ég sæki til að mynda innblástur í teiknimyndasögur sem ég hef lesið alla tíð, til dæmis Robert Crumb, Charles Burns og Mad Magazine. Ég sæki einnig mikinn innblástur í efnið sem ég nota, sem sagt kolsvart blek. Ég hugsa mikið um hvernig ég get náð gráum tónum úr kolsvörtum lit, sem gerir það að verkum að myndirnar mínar líta út eins og þær gera.“

Eins og áður sagði er Sölvi enn tiltölulega nýr í faginu en hann hefur verið að flúra í fimm mánuði. Sölvi viðurkennir fúslega að hann verði enn afar stressaður áður en hann mundar nálina, enda sé pressan mikil.

Wu-Tang_clan lógó sem Sölvi útfærði.
Wu-Tang_clan lógó sem Sölvi útfærði. Mynd aðsend

„Þetta er náttúrlega alveg að ganga frá mér,“ segir Sölvi og flissar. „Nei, ég er farinn að vera aðeins rólegri núna en ég var þegar ég var nýbyrjaður. Ég er þó alltaf stressaður áður en ég hefst handa, daginn áður og jafnvel nokkrum dögum fyrir. En svo gerist eitthvað þegar maður byrjar að flúra, maður er svo fókuseraður. Ég er því aldrei stressaður á meðan ég er að vinna. Svo líður manni fáránlega vel þegar verkinu er lokið, að því gefnu að maður hafi ekki klúðrað neinu,“ segir Sölvi og kímir.

„Þetta er klárlega skárra núna en þegar ég byrjaði. Ég held að ég muni þó alltaf finna fyrir einhverju stressi, enda vara flúrin að eilífu. Ég tel þó að það sé ákveðinn kostur að vera svolítið stressaður, og vil meina að það sé merki um metnað.“

Þegar Sölvi er spurður hvort hann hafi einhvern tímann klúðrað flúri eða gert mistök sem erfiðlega hafi gengið að leiðrétta segir hann að flúrin gangi auðvitað misvel.

„Ég hef þó aldrei skilað neinu af mér sem ég hef verið ósáttur við. Ég hef aldrei skemmt neitt og alltaf getað reddað mér. Sérstaklega þegar ég flúra mínar eigin teikningar, sem ég þekki mjög vel, en þá hef ég alltaf einhverjar útgönguleiðir ef ég kem mér í klandur. Það er erfiðara með raunsæið, ef þú ert að gera portrett af einhverjum má ekki mikið út af bregða,“ segir Sölvi, sem á erfitt með að gera upp á milli flúranna sem hann hefur gert.

„Þau eru öll fremur eftirminnileg. Sum hafa gengið sérlega hratt og vel, önnur eru kannski myndir sem ég hef verið sérstaklega ánægður að fá að flúra. Ég fékk til dæmis að flúra Wu-Tang Clan lógó, sem ég breytti í einhvers konar hauskúpufyrirbæri, á strák um daginn. Það var mjög gaman,“ segir Sölvi.

„Er ekki komið nóg?“

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvað Sölvi myndi taka sér fyrir hendur ef hann fengi að leika lausum hala og gæti flúrað hvern sem er. Það stendur ekki á svörum, en Sölvi segist myndu flúra máf á pabba sinn.

„Ég hef enga sérstaka ástæðu fyrir því, hann er ekkert sérstaklega hrifinn af húðflúrum yfir höfuð og ég held að það væri gaman að opna augu hans fyrir þessu. Það er þó ekki séns að ég fái að gera það, en það er allt í lagi,“ segir Sölvi.

„Honum finnst þetta alveg flott, en hann segir samt alltaf: „stopp, stopp, stopp, er ekki komið nóg?“ eftir hvert einasta flúr sem ég fæ mér,“ bætir hann við og skellir upp úr. Sölvi þvertekur þó fyrir að hann sjái eftir flúrunum, þrátt fyrir efasemdir föður síns.

„Ég held að það sé ekki mikið um að fólk sjái eftir flúrunum sínum. Þetta verður hluti af manni og maður hættir að pæla í þessu. Í það minnsta er það þannig fyrir mitt leyti.“

Teikningar Sölva eru auðþekkjanlegar.
Teikningar Sölva eru auðþekkjanlegar. Mynd aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál