Getur misst sig í búðum erlendis

Vera Hilmarsdóttir á tískupallinum.
Vera Hilmarsdóttir á tískupallinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vera Hilmarsdóttir, er 21 árs gömul og starfar sem fyrirsæta í Mílanó. Hún var áberandi á Reykjavík Fashion Festival á dögunum en þar sýndi hún meðal annars föt úr nýjustu línu JÖR. Hún segist vera algjör nískupúki þegar kemur að því að eyða peningum í sjálfa sig, en hún reynir að kaupa sem minnst af fötum hér á landi. 

Hefur þú einhvern sérstakan fatastíl? Ég myndi lýsa honum sem afslöppuðum og óformlegum. Um langt skeið var ég mjög hrifin af blómamynstrum, blúndu og dúllerí en með tímanum byrjaði ég að leita meira í einfaldar og dökkar flíkur. Nú til dags er stíllinn minn blanda af hvoru tveggja; smá grunge blandað rómantík.

Ert þú ein af þeim sem eru með fullan skáp af fötum en fara alltaf í það sama? Já, algjörlega. Ég þarf að hreinsa út úr fataskápnum reglulega og setja í geymslu svo ég hafi betri sýn yfir hvað ég á og fer mest í. Ætli ég noti ekki tuttugu prósent af fötunum mínum áttatíu prósent af tímanum.

Ferð þú með meira af fötum með þér í ferðalög en þú síðan notar? Mér finnst ég alltaf setja mjög lítið af fötum í ferðatöskuna en síðan þegar ég er komin á áfangastað er eins og að ég hafi pakkað í tösku fyrir tíu manns. Síðan kaupi ég vanalega föt á ferðalögum, þannig ég sit uppi með miklu, miklu meira en nóg þegar fer að líða á ferðina.

Ferð þú í sítískubúðir? Ég hef mjög gaman af því að róta í sítískubúðum. Er einmitt fastagestur í Kolaportinu og elska markaði, sérstaklega erlendis. Ég get týnt mér í að skoða allskonar skartgripi, föt og antikmuni.

Átt þú þér einhverja uppáhaldsbúð hér eða í útlöndum? Ég er algjör nískupúki þegar kemur að því að eyða peningum í sjálfa mig og reyni að versla sem minnst hérna heima, en ef ég geri það þá er það aðallega í Spúútnik og Dr. Denim. Ég get hins vegar misst mig í búðum erlendis og ber allra hellst að nefna Urban Outfitters og TopShop - svo er H&M alltaf basic.

Ert þú hvatvís í innkaupum og færð síðan móral á eftir? Ég veit yfirleitt hvað ég vil svo það kemur sjaldan fyrir að ég fái móral yfir því að kaupa mér flík. Ef ég geri hvatvís kaup er ég yfirleitt það ánægð með flíkina að mér er alveg sama um að kaupin hafi ekki endilega verið á áætlun.

Kaupir þú flík sem þú ætlar að nota einhvern tíma seinna, en ferð svo aldrei í? Það kemur alveg fyrir og þá eru þær flíkur oftast það ljótar að eftir á að hyggja skil ég ekki hvað ég var að hugsa þegar ég keypti þær. Stöku sinnum kaupi ég mér pils eða kjól, sem mér finnst góð hugmynd svona í augnablikinu en svo fæ ég sjálfa mig aldrei til þess að ganga í þeim, nema kannski á jólunum.

Er röð og regla í fataskápnum eða þarft þú að kafa, róta og gramsa til að finna það sem þú ætlar að ná í? Þó að það sé ekkert allt í rústi eru sumar skúffurnar snyrtilegri en aðrar. Þrátt fyrir það veit ég alveg hvar í óreiðunni ákveðinn bolur eða peysa á heima þegar ég þarf að ná í viðkomandi flík.

Vera Hilmarsdóttir er með afslappaðan stíl.
Vera Hilmarsdóttir er með afslappaðan stíl. mbl.is/Árni Sæberg
Vera hefur mjög gaman af því að gramsa í sítískubúðum.
Vera hefur mjög gaman af því að gramsa í sítískubúðum. mbl.is/Árni Sæberg
Vera segist nota tuttugu prósent af fötunum sínum, áttatíu prósent …
Vera segist nota tuttugu prósent af fötunum sínum, áttatíu prósent af tímanum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál