„Það er eins og við séum eina búðin á landinu

Sigrún Erla Svansdóttir
Sigrún Erla Svansdóttir Skjáskot Coral Verslun

Sigrún Erla Svansdóttir, viðskiptafræðingur, reiknaði ekki með því að enda í 200% vinnu sem framkvæmdastjóri vefverslunar Coral Verslun þegar hún byrjaði að panta sér föt á netinu fyrir þremur árum. 

Sigrún Erla byrjaði hægt. Pantaði nokkrar auka flíkur umfram það sem hún valdi á sjálfa sig og seldi á Facebooksíðu. Ekki leið á löngu þar til Facebook varð óheppilegur vettvangur fyrir söluna og Sigrún opnaði vefverslun. 

„Það er eins og við séum eina búðin á landinu,“ segir hún önnum kafinn þegar blaðamaður Smartlands slær á þráðinn og biður um að fá að hringja aftur eftir augnablik því allt sé fullt af viðskiptavinum og hinn starfsmaður fyrirtækisins ókominn. 

„Það var alltaf draumur okkar mömmu að reka fyrirtæki saman en við áttum í raun ekki von á að þetta myndi allt gerast svona hratt eða með þessum hætti,“ segir Sigrún og bætir því við til gamans að litla systir hennar hafi verið fyrirsæta Coral frá fjórtán ára. Sannkallað fjölskyldufyrirtæki! 

„Við finnum aukningu bara á milli mánaða,“ segir hún. „Nú er til dæmis allt brjálað að gera fyrir fermingarnar. Ætli viðskiptavinirnir séu ekki svona á aldrinum 13-50,“ útskýrir Sigrún Erla og bætir við að verslunin bjóði stærðir á mjög breiðu bili. Alveg frá 4-24 í breskum númerum en fötin sem Coral verslun selur eru frá bæði Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Alltaf hægt að fá endurgreitt

Spurð að því hvað útskýri vinsældirnar segist Sigrún reikna með að liðleiki við viðskiptavinina eigi stóran þátt í vinsældunum. 

„Ég legg mikið upp úr því að senda fljótt út til viðskiptavina, aðeins einn eða tveir dagar líða frá því gengið er frá pöntun og þar til hún skilar sér í hús. Svo er alltaf hægt að skila og fá endurgreitt,“ segir Sigrún. 

Í íslenskri verslunarmenningu hefur það sjaldan eða aldrei tíðkast að viðskiptavinir fái vörur endurgreiddar, eða slíkt gerist helst í undantekningartilvikum. 

„Í Bandaríkjunum er þetta hinsvegar mjög algengt og eiginlega bara normið,“ segir Sigrún. „Ég held að það að geta skilað vörum og fengið endurgreitt hafi haft mjög mikið um velgengni verslunarinnar að segja. Fólk er meira til í að taka sénsinn á að panta sér eitthvað af netinu ef það veit að þetta er valkostur.“

Eftir að verslanirnar Kiss og Dúkkuhúsið lokuðu í Kringlunni segist Sigrún hafa fundið greinilega fyrir auknum fjölda viðskiptavina, hún er þó ekki viss um að það leysi sérstaklega vanda kaupmanna að loka búðum og opna vefverslanir. 

„Það er hægara sagt en gert að opna vefverslun og fá hana til að ganga. Það er í mörg horn að líta og þú ert auðvitað alltaf í vinnunni,“ segir hún. 

En hvernig fólk er það sem kaupir föt á netinu og hver er munurinn á að kaupa af innlendri eða erlendri verslun? 

„Það er allskonar fólk. Til dæmis fólk sem býr úti á landi og líka fólk sem vill geta keypt sér eitthvað á hvaða tíma sem er án þess að þurfa að reiða sig á hefðbundinn opnunartíma verslana. Svo getum við auðvitað boðið fín verð af því það er ekki þessi stóra yfirbygging,“ segir Sigrún Erla en áhugasamir geta pantað sér tíma til að koma í mátun ef áhugi er fyrir því.

Að lokum er gaman að geta þess að Sigrún var rétt nýbyrjuð að skrifa mastersritgerð sína í viðskiptafræði þegar hún hóf verslunarreksturinn. 

„Ritgerðin fjallar um fjármál og rekstur fyrirtækja, ég hef bara ekki átt neinn tíma aflögu til að klára hana,“ segir Sigrún og hlær. 

Á Coral Verslun má finna föt frá stærðum 4 upp …
Á Coral Verslun má finna föt frá stærðum 4 upp í 24 eða XXXXL Skáskot af Coral Verslun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál