Sjaldgæfur fugl í tískuheiminum

Iris Apfel.
Iris Apfel. Ljósmynd/Youtube.com

Nýtt tískutákn kom öllum að óvörum fram á sjónarsviðið í Bandaríkjunum árið 2005 og hefur haldið velli allar götur síðan. Iris Apfel kom, sá og sigraði 83ja ára gömul og vekur alls staðar athygli fyrir uglugleraugun sín, íburðarmikið skart og frumlegan klæðaburð.

Heimildarmyndin Iris, sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í New York haustið 2014 og fór í almenna dreifingu í sumar, hverfist um tískutáknið Iris Apfel, sem fagnar 94 ára afmæli sínu á laugardaginn. Á sama tíma og tískuhúsum heimsins er álasað fyrir að draga 14 ára gamlar stúlkur fram í sviðsljósið og dubba þær upp eins og þroskaðar konur valdi Kate Spade þessa öldnu konu sem andlit vortísku sinnar 2015 ásamt mun yngri Victoria's Secret-fyrirsætu. Skartgripahönnuðurinn Alexis Bittar sá sér líka leik á borði og fékk Apfel og 19 ára gamla þekkta fyrirsætu til liðs við sig í auglýsingaherferð. Áhöld munu vera um hvor taki sig betur út með skartið fína.

Þrátt fyrir að hafa nýlega gengist undir tvær mjaðmaaðgerðir eftir að hafa hnotið um pilsfaldinn á Oscar de la Renta-kjól fyrir tískumyndatöku í París lætur Apfel ekki deigan síga og sinnir kallinu þegar það berst um að sitja fyrir hjá hinum ýmsu tískutímaritum. Andlit Iris Apfel er orðið heimsþekkt og saga hennar líka eftir að heimildarmyndin leit dagsins ljós.

Iris Apfel er með skemmtilegan og skrautlegan stíl.
Iris Apfel er með skemmtilegan og skrautlegan stíl. youtube.com

Sérstakur stíll

Trúlega hefur hún þó fremur átt á dauða sínum von en að verða að tískutákni, 83 ára gömul, eins og raunin varð. Hún var að vísu ekki allsendis óþekkt í borginni sinni, New York, þar sem hún hafði alið allan sinn aldur, enda ábyggilega ógjörningur að veita ekki athygli konunni með stóru uglugleraugun, stórgerðu skartgripina og í litríku múnderingunni. Þannig uppábúin, eins og hefur verið stíll hennar í áratugi, þræðir hún jafnt dýrar merkjaverslanir sem og hræódýra flóamarkaði. Kaupir eitt hér, annað þar og blandar svo öllu saman með sínum frumlega hætti. Og er orðin býsna fræg fyrir árangurinn.

Svo mjög reyndar að Harold Koda, safnstjóri búningadeildar Metropolitan-listasafnsins í New York, fékk hugljómun í líki Iris Apfel þegar sýningu sem stóð fyrir dyrum var fyrirvaralaust aflýst haustið 2005. Nú voru góð ráð dýr. Koda þurfti að setja upp sýningu í miklum flýti og þar sem honum var kunnugt um að Apfel ætti mesta úrval tískuskartgripa í gjörvöllu landinu og þótt víðar væri leitað gerði hann sér lítið fyrir og sló á þráðinn. Úr varð að Apfel setti upp sýningu á gömlum og nýjum skartgripum og flíkum, sem hún valdi af kostgæfni úr gríðarlegu safni sínu.

Yfirskrift sýningarinnar var Rara Avis, eða sjaldgæfur fugl, og þótti hún sérstök fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi var hún eina sýning þessarar gerðar þar sem MET beindi sjónum að samtímakonu sem ekki var hönnuður. Í öðru lagi hafði Apfel frjálsar hendur við að klæða gínurnar með nákvæmlega þeim kæruleysislega og óhefðbundna hætti sem henni sjálfri var tamt. Koda til mikillar undrunar áttu viðtökurnar sér ekki fordæmi. Fólk var yfir sig hrifið af skrýtnum samsetningum flíka og skarts. Ný tískustjarna var fædd.

Innanhússhönnuður

Apfel nam listasögu í New York-háskóla og listfræði í Wisconsin-háskóla og vann á ungra aldri fyrir tímaritið Women's Wear Daily, síðan hjá þekktum innanhússhönnuði og sem aðstoðarmaður tískuteiknarans Roberts Goodman. Árið 1950 stofnaði hún ásamt manni sínum, Carl Apfel, innanhússhönnunarfyrirtækið Old World Weavers, sem þau ráku þar til 1992 þegar hugmyndin var að setjast í helgan stein. Fyrirtækið blómstraði og voru þau hjónin m.a. fengin til að vinna að breytingum í Hvíta húsinu í tíð níu forseta. Haft hefur verið eftir Apfel að verkefnið hefði verið frekar auðvelt því að aðaláherslan hafi verið á að gera sem minnstar breytingar. Eða allt þar til frú Kennedy fékk frægan innanhússhönnuð frá París til að veita því franskan blæ og bandarískir innanhússhönnuðir gengu af göflunum. „Við þurftum að henda öllu út og byrja upp á nýtt,“ rifjaði Apfel m.a. upp í viðtali við breska blaðið The Guardian í tilefni frumsýningar Iris í London. „Mér líkaði vel við frú Nixon, hún var yndisleg,“ bætti hún við.

Þótt Apfel fari ekki dult með skoðanir sínar og þyki á stundum tannhvöss og kaldhæðin viðurkennir hún í einlægni að störfin sem henni hafa boðist á ævikvöldi sínu séu guðsgjöf. Félagslíf hennar hafi vart verið orðið svipur hjá sjón þegar hún skyndilega komst í sviðsljósið, sem henni líkar hreint ekki illa að baða sig í. Hún telur frægðarljómann ekkert hafa með aldur sinn að gera, heldur einfaldlega glamúr og fantasíu. „Líf fólks snýst um að ýta á takka af því að það er svo upptekið af tækninni og notar ekki ímyndunaraflið,“ segir hún og víkur að aldursfordómum í tískuheiminum í fyrrnefndu viðtali.

Eldri konur eiga rétt á ermum

„Fatahönnuðir grafa sína eigin gröf með því að hanna rándýrar flíkur fyrir 16 til 18 ára krakka sem hafa ekki efni á þeim. Afar heimskulegt á sama tíma og í Bandaríkjunum hefur verið sannað að 60 til 80 ára konur eiga mestu peningana.“ [...] Þegar maður borgar 15 þúsund dollara fyrir kjól á maður líka að eiga rétt á ermum. Allir vita að eldri konur, sama hversu vel þær eru á sig komnar, líta út eins og hestsrass í þessum hlýrakjólum – og slíkt er bara engan veginn viðeigandi. Hvernig í ósköpunum eiga svo eldri konur að geta borið sig saman við þessar 15 ára fyrirsætur sem hlaupa um á tískusýningarpöllunum?“ spyr Apfel og botnar ekkert í duttlungum tískuheimsins að þessu leytinu.

Andstæðurnar í lífi Apfel koma glögglega fram í heimildarmyndinni. Annars vegar sést hún á alls lags tískuviðburðum þar sem hún spáir og spekúlerar í tísku með fræga fólkinu og hins vegar á heimili sínu við Park Avenue þar sem hún glímir við ellina ásamt bónda sínum, sem er að verða 101 árs og þjáist af kransæðasjúkdómi. Kringum Iris Apfel er margt sem minnir á forgengileika lífsins, t.d. lést Albert Maysles, góður vinur hennar og jafnframt leikstjóri myndarinnar, úr krabbameini rétt áður en Iris var frumsýnd í Bandaríkjunum. „Tískan heldur ekki fyrir mér vöku á nóttunni,“ segir hún.

Iris Apfel.
Iris Apfel. Mac.com
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál