Fjöldaframleiddu vörurnar stútfullar af drasli

Eva Dögg Rúnarsdóttir og Anna Sóley Viðarsdóttir notast jafnan við …
Eva Dögg Rúnarsdóttir og Anna Sóley Viðarsdóttir notast jafnan við náttúrulegar vörur sem þær gera sjálfar. Ljósmynd / aðsend

Vinkonurnar Eva Dögg Rúnarsdóttir og Anna Sóley Viðarsdóttir eru ókrýndar DIY-drottningar landsins. Stöllurnar eiga ekki í neinum vandræðum með að töfra fram hinar ýmsu vörur sem leysa baneitruð og kemísk efni af hólmi, og segja heimatilbúnar hreinlætisvörur virka allt eins vel og þær sem kaupa má úti í búð.

 „Allar vörurnar sem við vorum að kaupa voru stútfullar af einhverju drasli, og nánast alltaf að minnsta kosti eitt innihaldsefni sem maður veltir fyrir sér hvort sé í raun og veru nauðsynlegt. Við komumst síðan að því að það er hægt að gera heimilisvörur sem virka alveg eins vel, án þess að nota eiturefni. Þú þarft fátt til að þrífa heimilið þitt, og gera það vel,“ segir Anna Sóley og bætir við að kostirnir við að föndra sínar eigin hreinlætis- eða snyrtivörur séu fjölmargir.

 „Þetta er ódýrt, þó að til að byrja með geti verið svolítill stofnkostnaður. Svo getur þú sniðið þetta að þínum þörfum. Fyrir okkur er þetta einnig góð samverustund, og hluti af því að „tríta“ sjálfan sig vel. Umhverfið er einnig stór þáttur í þessu. Um leið og maður hættir að versla pálmaolíu, sem stuðlar að útrýmingu á heimkynnum órangútan-apa, er maður til að mynda að leggja sitt lóð á vogarskálarnar.“

Anna Sóley segist sjálf vera aðdáandi góðra og vandaðra snyrtivara, en flestar vörur megi þó búa til heima við.

„Ég er sannfærð um að hægt sé að finna heimagerðan staðgengil fyrir allar hreinlætisvörur. Erfiðastar eru kannski litaðar snyrtivörur, en við höfum þó verið að prufa okkur áfram þar. Ég nota til dæmis gloss og kinnalit sem ég geri sjálf. Hreinsirútínan okkar er svo algerlega heimagerð. Við erum ekki komnar langt með maskara og augnlínupenna, en höfum prufað nokkra hluti sem virkað hafa vel. Við notum auk þess púður sem við höfum gert sjálfar,“ segir Anna Sóley, og bætir við að uppistaðan í púðrinu sé örvarrót, kakó, kanill, negull og annað slíkt.

„Þetta hljómar eins og þú sért að fara að elda eitthvað, en kakó, kanill og negull eru frábær efni til að kalla fram ljóma og smá glans. Í kinnalitina notum við rauðbeður og læknakólf eða „hibiscus“. Galdurinn er að það eru engar reglur, þú prufar þig bara áfram með allt sem þú getur lagt þér til munns. Það er fegurðin við þetta.“

Vinkonurnar munu á næstunni halda þrjú námskeið á Gló, þar sem þær kenna gestum að galdra fram sínar eigin hreinlætis- og snyrtivörur. Þá halda þær einnig úti Snapchat-reikningnum „werampersand“.

Stöllurnar segja heimatilbúnar vörur virka jafnvel og þær sem keyptar …
Stöllurnar segja heimatilbúnar vörur virka jafnvel og þær sem keyptar eru úti í búð. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál