Stórar augabrúnir orðnar þreytt fyrirbæri

Harpa Káradóttir förðunarmeistari og höfundur bókarinnar Andlit.
Harpa Káradóttir förðunarmeistari og höfundur bókarinnar Andlit.

Harpa Káradóttir, förðunarmeistari og „beauty director“ hjá tímaritinum Glamour, segist vona að náttúrulegir förðunarstraumar nái hingað til lands á árinu og að umhirða húðarinnar gangi fyrir. 

Hverjar verða áherslurnar í förðun á árinu?

Náttúruleg húð verður mjög áberandi á þessu ári, þunnar hálfgegnsæjar áferðir og litbrigði munu koma sterkt inn bæði fyrir húð, augu, varir og kinnar. Litir verða meira áberandi, bæði bjartir og sterkir. Litir í sama tón á augum og vörum er strax núna í janúar orðið áberandi og það mun vera mjög vinsælt.

Hvaða förðunartrend sem hafa verið áberandi munu hverfa á árinu?

Allt við makeup mun verða ögn léttara í ár, vonandi nær sú þróun hingað til Íslands. Miklar skyggingar í andliti detta út og vonandi sjáum við líka minna af teiknuðum stórum og dökkum augabrúnum. Það er orðið vel þreytt fyrirbæri.

Hvað tekur við?

Að hafa örlítinn lit í húðinni, það er að segja að sjá húðina í gegnum vöruna mun verða eitt stærsta trendið og mér finnst það mjög spennandi. Þetta mun koma mjög skemmtilega út og þá sérstaklega á húðinni og í augnförðuninni. Til þess að fylgja þessu eftir þýðir að við þurfum að hugsa vel um húðina okkar og vanda valið þegar kemur að húðumhirðu.

Hvaða stjörnur leggja helst línurnar í förðunarheiminum um þessar mundir? Súpermódelin eru að koma sterk inn þegar það kemur að því hvaða stjörnur leggja línur í förðunarheiminum, systurnar Gigi og Bella Hadid eru mjög vinsælar akkúrat núna. Einnig hefur förðunarmeistarinn Pat McGrath mjög sterk áhrif á allt.

Hvaða förðunarbloggurum mælirðu með?

Sjálf les ég ekki mikið af förðunarbloggum, nánast ekkert en ég fylgi nokkrum aðilum á instagram þar á meðal Pat McGrath, Patric Ta, Hung Vanngo og Sine Ginsborg, þau eru í miklu uppáhaldi hjá mér.

Hvað skiptir mestu máli þegar kemur að fallegri förðun að þínu mati?

Það sem gerir förðun að góðri förðun en vel unnin húð, þá er ég að tala um að réttir litir séu notaðir, að áferðirnar sem verða fyrir valinu henti viðkomandi og að húðin líti út fyrir að vera vel nærð og lífleg. Mér finnst ekki fallegt þegar ég sé vöruna liggja ofan á húðinni en það gerist oft þegar notast er við of mikið magn í einu.

Eiga konur að farða sig öðruvísi á sumrin en á veturna?

Mér finnst alltaf að konur eigi að mála sig eftir því hvernig þær langar til að vera þannig að ég er aldrei að predika yfir neinum með litaval og annað slíkt en út af miklum veðurfarsbreytingum er mjög líklegt að fólk þurfi að skipta um húðvörur og farða eftir árstíðum því að húðin og húðtónninn breytist hjá flestum.

Hvernig farðar þú þig dagsdaglega?

Ég legg mikið upp úr því hvaða húðvörur ég nota og ég byrja alla morgna á því að bera á mig augnkrem sem dregur úr þrota og bjúg. Þetta geri ég yfirleitt tvisvar sinnum á morgnana áður en ég mála mig. Ef ég sleppi þessu skrefi finnst mér ég varla vakna. Því næst nota ég það rakakrem sem mér finnst passa og varasalva. Ég nota léttan farða og hyljara daglega. Einnig bretti ég alltaf upp á augnhárin og nota maskara. Ég er með frekar gisnar augabrúnir þannig að yfirleitt nota ég ljósan vaxblýant til þess að móta þær örlítið og fylla upp í þar sem þarf. Brúnn kinnalitur og kampavínslitaður highligther eru vörur sem ég nota líka mikið. Svo er ég með endalaust af varalitum og glossi í öllum vösum og töskum þannig að ég hef alltaf eitthvað á mér til þess að setja á varirnar. Ég nota nánast eingöngu ljósbrúna liti þannig að þetta eru alltaf mjög líkir litir og flestir halda að ég sé alltaf með sama litinn en sú er ekki raunin.

En við betri tilefni?

Við betri tilefni nota ég nánast alltaf gerviaugnhár, ég er mjög hrifin af fallegum, náttúrulegum gerviaugnhárum. Ef ég ætla að vera extra fín gef ég mér ágætis tíma til þess raða á mig stökum augnhárum og búa til það form sem ég er í stuði fyrir og finnst passa tilefninu. Ég legg yfirleitt áherslu á augun og finnst mjög gaman að nota allavega augnskugga. Ég held húðinni alltaf léttri því mér finnst það klæða mig betur.

Lumarðu á góðu leynitrixi að lokum?

Besta leynitrixið er að gefa sjálfum sér fimmtán til tuttugu mínútna andlitsnudd til þess að koma blóðflæðinu á stað og draga úr bólgum. Setja augnkremið í ísskáp í smástund og bera það svo á þegar það er orðið vel kalt. Ég veit að það eru ekki allir sem nenna þessu. Hafir þú engan tíma mæli ég með bera vel af eyeliner í efri vatnslínu og við það skerpist augnsvipurinn helling og augnhárin virka þykkari. Góður hyljari er svo nauðsynlegur því að það er auðvelt að taka hann með sér og nota hann til þess að jafna út húðina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál