„Ég fæddist nánast í háum hælum“

Marín Manda Magnúsdóttir.
Marín Manda Magnúsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Marín Manda Magnúsdóttir, flugfreyja hjá WOW, hefur lengi vel verið þekkt fyrir persónulegan og skemmtilegan stíl sinn. Hún fer sínar eigin leiðir þegar kemur að tísku og fatavali og hefur alltaf gert, en viðurkennir að þær hafi ekki alltaf verið þær bestu. Marín opnaði fallega fataskápinn sinn en það er óhætt að segja að þar leynist ófáar gersemarnar. 

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Ég myndi segja að stíllinn minn væri afar kvenlegur. Ég kalla hann „Bóhem chic“. Ég fæddist nánast í háum hælum og finnst mjög gaman að klæða mig upp þegar ég fer út. Kannski má segja að ég sé örlítið pjöttuð því ég fer afar sjaldan út í joggaranum.

Hvaða tískutímabil er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Seventís-tímabilið er í algjöru uppáhaldi en ég hika ekki við að klæðast útvíðu þegar þessir straumar detta inn reglulega. Annars er ég hrifin af mjög mörgu og vil því ekki festa mig við eitthvað sérstakt. Mussur, blúndur, rúskinn, loðfeldir og kjólar í allskonar munstrum heilla til dæmis mikið en ég tel mig sjá fljótt hvort flíkin klæði mig eða ekki. Þess vegna er ég lítið fyrir að máta flíkur áður en ég kaupi þær.

Ertu dugleg að klæðast litum?

Já, ég er aldeilis ekki feimin við að klæðast litum og er fataskápurinn minn eftir því. Rautt, blátt, gult, grænt og appelsínugult eru vinsælir hjá mér, annars er í raun enginn litur sem ég myndi ekki klæðast en ég er samt aðeins farin að dempa alla þessa litadýrð með árunum.

Uppáhaldsflíkin þín?

Það er erfitt að svara því, ég tek ástfóstri við ákveðna hluti tímabundið og fæ svo leiða á þeim. Í augnablikinu er það millisíð brún rúskinnsskyrta sem er bundin að framan og svartur hattur sem ég get gripið í þegar ég er „having a bad hairday“.

Kaupi þú þér notuð föt?

Já, ég geri það hiklaust og finnst mjög gaman að fara á markaði, sérstaklega erlendis. Ég hef oftar en ekki fundið flott föt sem eru nánast merkt mér. Markaðir geta samt verið mjög misjafnir. Mér finnst sniðugt að vera búin að ákveða hvað ég ætla að eyða miklu áður en ég fer og svo er auðvitað um að gera að prútta. Mér var snemma kennt að prútta en það er stór partur af þessari markaðsstemningu. Í flestum tilfellum græðir bæði seljandinn og kaupandinn og flíkin fær nýtt heimili. Eins manns rusl er jú annars fjársjóður.

Hvað gerirðu við flíkur sem þú ert hætt að nota?

Ég gef þær áfram til Rauða krossins eða sel þær á fatamarkaði. Ég hendi engu sem er hægt að endurnýta. Einstöku sinnum hef ég pakkað flíkum niður í kassa og geymt í einhvern tíma og sótt aftur síðar því tískan gengur jú í hringi.

Uppáhaldsverslunin þín hérlendis?

Ég versla mikið erlendis en hérlendis versla ég aðallega í Selected, Vero Moda, Zara og Geysi.

Uppáhaldsverslunin þín erlendis?

Á Norðurlöndunum er verslunin &Other Stories ein af mínum uppáhalds því þar er hægt að kaupa falleg „trendy“ föt, skó, nærföt, snyrtivörur og ilmi. Ég týni sjálfri mér þar inni.

Verslarðu mikið á netinu?

Ég hef alveg gert eitthvað af því. Nú er Amazon í uppáhaldi en annars er það aðallega Asos, Aliexpress, Etsy eða Missguided.

Bestu kaupin sem þú hefur gert?

Ég keypti þrjú pör af skóm á markaði fyrir 60 danskar krónur. Svo keypti ég einnig Malene Birger kjól og hálsmen á 100 danskar. Þá brosti ég hringinn. Ég kaupi mér ekki mikið af merkjavöru í verslunum, heldur einn og einn hlut í einu sem ég blanda svo við eitthvað skemmtilegt sem ég á fyrir.

Hvað kaupirðu þér alltaf þó svo að þú eigir nóg af því?

Kjóla og jakka. Ég á það til að vera með eitthvað ákveðið í huga sem ég þarf að kaupa eða mig vantar en enda svo með því að koma heim með jakka sem mig vantaði alls ekki.

Mesta tískuslysið þitt?

Þau eru eflaust orðin ansi mörg. Ég hef gengið í gegnum allskonar tímabil þar sem mér fannst ég vera svo fín og svo þegar maður lítur til baka þá var þetta algjör hörmung. Ég flutti snemma að heiman svo þegar ég var í menntaskóla þá þurfti maður bara að nýta það sem var til ef lítið var um aurinn. Ég tók eitt sinn „push up“ brjóstahaldara og saumaði utan á hann silfurlitaðan topp og útvíðar buxur í stíl. Klæddist ég þessi svo á balli eins og einhver diskósprengja og fannst ég voðaleg skvísa. Raunin var án efa önnur. Svo hef ég oft keypt mér mjög skrítna skó.

Nýjasta flíkin í skápnum?

Ég nældi mér í mjúka hvíta peysu frá Selected sem er aðsniðin í mittið en ermarnar eru víðar. Hún passar við allskonar pils og buxur og mér líður dásamlega í henni. Einnig keypti ég mér gulllitaðan „náttfata“-jakka í versluninni Forever 21 fyrir skömmu. Hann er fullkominn við allt svart.

Uppáhaldsaukahlutirnir þínir?

Hattar, hattar og aftur hattar. Maður á aldrei nóg af höttum eða húfum. Ég er samt mjög hrifin af glingri og geng með allskonar hálsmen og hringa.

Hvað er á óskalistanum fyrir sumarið?

Hugurinn girnist ýmislegt núna sem hentar ef til vill ekki í sumar. Fyrir sumarið væri þó nýtt bikiní óskandi, þægileg skyrta með einhverju dúllerí, nýir hattar og svo langar mig í flotta strigaskó, það er að segja ef ég get lagt hælana til hliðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál