Með lögregluna í beinni um borð í flugvél

Eva Dögg hefur komið víða við í tískugeiranum.
Eva Dögg hefur komið víða við í tískugeiranum. Ljósmyndari / Kristinn Magnússon

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir hefur komið víða við í tískugeiranum á síðustu árum. Árið 1999 opnaði hún fyrstu netverslun á Íslandi með fatnað og snyrtivörur en segja má að fyrsta tískubloggið hafi orðið þar til. Hún hefur nú endurvakið síðuna og er auk þess byrjuð að flytja inn snyrtivörurnar AllSins 18k.

„Hugmyndin að baki tiska.is kviknaði rétt fyrir aldamótin og varð að veruleika en þá var þetta fyrsta netverslunin á Íslandi sem seldi fatnað, fylgihluti og snyrtivörur. Það má líka segja að þar hafi byrjaði fyrsta tískubloggið á Íslandi því þar skrifaði ég fréttir beint frá London og birti þær á Tiska.is, en vinkona mín vann í Gucci og sendi mér helling af skemmtilegum fréttum. Á þessum tíma fékk maður ekki tískuna beint í æð á netinu eins og í dag heldur fékk maður send Vogue-blöð frá Bretlandi til að fylgjast með og það má þó segja að tískan hafi verið hægari á þeim tíma ef ég get orðað það þannig og erfiðara að nálgast hluti sem voru á tískupöllunum. Maður notaði það meira til að fá hugmyndir. En í dag eru svipaðar flíkur komnar í ódýrari verslanir um leið. Það má segja að tískubloggið hafi orðið til á tiska.is og þetta var um leið fyrsta netverslunin á Íslandi,“ segir Eva. Hún tók að sér stöðu markaðsstjóra Smáralindar og við það lagðist Tiska.is niður um tíma.

Bloggið hefur breyst mikið

„Árið 2012 opnaði ég Tiska.is aftur og þá meira í bloggformi. Ég ætlaði nú að selja auglýsingar þar og skrifa bara um allt milli himins og jarðar en bloggið í dag er orðið breytt frá því sem áður var og mikið um að verið sé að skrifa um vörur þar sem bloggarar fá greitt fyrir, annaðhvort með vörum, úttekt eða með greiðslu. Ég og sala á auglýsingum eigum ekki neitt sameiginlegt þannig að ekki nennti ég að selja borða eða slíkt á síðunni. Ég var orðin leið á að fá snyrtivörur fyrir skrifin og í raun fannst mér að það fylgdu því skilyrði að skrifa vel um einhverja vöru af því að ég fékk hana senda heim. Í dag hef ég ákveðið að skrifa eingöngu um það sem mér finnst flott og skemmtilegt og á eflaust eftir að móðga einhverja en gleðja aðra. Ég er í raun búin að prófa það mikið af snyrtivörum og kremum að ég ætti kannski bara að vera að vinna í Fríhöfninni,“ segir hún og brosir.

Eva Dögg segist hafa prófað heilan haug af snyrtivörum og …
Eva Dögg segist hafa prófað heilan haug af snyrtivörum og kremum í gegnum tíðina. Ljósmyndari / Kristinn Magnússon

Prófaði heilan haug af vörum

Eva fór síðan að vinna fyrir íslenskt snyrtivörufyrirtæki um tíma en ákvað á síðasta ári að fara sjálf í innflutning á snyrtivörum og þá aðallega fyrir sjálfa sig. „Ég var búin að prófa svo margt og búin að láta mömmu, Eddu Björgvinsdóttur, prófa líka heilan haug af vörum. Loksins fann ég eitthvað sem virkar fyrir mig og okkur mæðgur og þá auðvitað vil ég deila því með sem flestum. Ég setti mig í samband við erlenda aðila sem ég hafði fylgst með lengi og er nú nýbyrjuð að flytja þessar vörur inn. ÉG hef aðallega verið að kynna þessar vörur sem heita AllSins 18K fyrir mínum innsta hring en svo ákvað ég að selja vörurnar á Tiska.is og ætla að vera með fleiri vörur þar til sölu. Í raun ætla ég bara að selja vörur á Tiska.is sem ég sjálf hef hundrað prósent trú á og sem mig langar í ef ég get orðað það þannig. Ég mun því eflaust skipta oft út vörum þarna. Það er svo lítið mál að opna netverslun og flotta síðu í dag og miðað við að ég greiddi hátt í milljón þegar ég opnaði síðuna 2012 þá borgaði ég bara brot af þeirri upphæð fyrir Shopify,“ segir Eva.

Áreiti við heimilið

„Ég hef ferðast mikið í gegnum tíðina og tek því fagnandi að það sé wifi um borð í vélum Icelandair. Um daginn má segja að wifi um borð hafi heldur betur komið sér vel. Dóttir mín sendi mér skilaboð á Facebook þar sem ég var í flugi í vél Icelandair og stödd rétt yfir Færeyjum og sagði mér að það hefði komið ókunnugur maður að húsinu okkar. Maðurinn vildi ekki fara og hékk fyrir utan húsið. Þetta var mjög óhugnanlegt og erfitt að vera svona langt í burtu á flugi og geta ekki komið strax heim. Maðurinn vissi allt um fjölskylduna og hann vildi endilega að ég myndi lesa skilaboðin frá honum á Facebook. Ég fór strax í gegnum skilaboðin á Facebook hjá þeim sem eru ekki vinir mínir. Þessi maður komst inn á bak við og þar fann ég skilaboð og fullt nafn á viðkomandi. Stelpan mín var mjög hrædd heima enda ekki vön því að ókunnugir mæti og neiti að fara. Ég setti mig strax í samband við lögregluna á Facebook og þeir voru búnir að senda bíl um leið.“

„Þeir könnuðust við viðkomandi og sögðu að hann væri þekktur fyrir að áreita fólk. Þegar heim var komið hófst bara hefðbundið ferli sem er komið í nokkuð gott lag í dag sem betur fer. En ég er óendanlega þakklát lögreglunni fyrir að bregðast strax við og þakklát fyrir wifi um borð,“ segir hún.

Með appelsínugulan blæ í hárinu

Eva viðurkennir að það sé stundum svolítið mál að vera kona. „Ég viðurkenni það fúslega að ég er snyrtivörufíkill enda er ég oft með haug af snyrtivörum við höndina og það fer stundum smá tími í að stússast fyrir framan spegilinn og þannig vil ég hafa það. Ég er ekki að þessu fyrir aðra heldur vil ég geta blikkað mig í speglinum eins og sagt er. Alveg eins og Joey í Friends. How You Doin,“ segir hún brosandi og bætir við:

„Maður getur líka lent í alls kyns slysum þegar hraðinn er of mikill. Ég var nýverið að flýta mér í flug til Ítalíu og ákvað að úða prótein-spreyi yfir hárið. Á leiðinni fannst mér ótrúlega furðuleg lykt af hárinu og þegar ég mætti á Leifsstöð fattaði ég að ég hafði úðað brúnkuspreyi yfir allt hárið. Það þarf ekki að taka það fram að hárið var með skemmtilegum appelsínugulum blæ og minnti ég á Línu Langsokk á góðum degi. Ég náði þessu sem betur fer úr hárinu og hét því að henda brúsanum þegar heim væri komið,“ segir hún og hlær.

Eva Dögg segist hafa farið að meta lífið öðruvísi eftir …
Eva Dögg segist hafa farið að meta lífið öðruvísi eftir að hafa eignast börn eftir fertugt. Ljósmyndari / Kristinn Magnússon

Barneignir á efri árum

Eva hefur haft í nógu að snúast því hún eignaðist tvö börn um og eftir fertugt með eiginmanni sínum, Bjarna Ákasyni. Fyrir á Eva tvö börn úr fyrra sambandi.

„Það er ákveðinn tímapunktur hjá mér núna og þegar maður eignast börn eftir fertugt þá fer maður að meta lífið öðruvísi. Mér finnst mikilvægast að eyða sem mestum tíma með börnunum þannig að ég vil ráða tíma mínum sjálf og eru það forréttindi að geta gert það. Ég get ekki lýst hversu þakklát ég er. Ég man þegar ég var markaðsstjóri Smáralindar, nýskilin með tvö börn í grunnskóla, að ég var á gangi um verslunarmiðstöðina með samstarfskonu minni. Við gengum fram hjá konu með tvö pínulítil börn og við vinkonurnar litum hvor á aðra og ég man að ég sagði: Jæja, gott að vera búin með þetta (barneignir). En viti menn. Svo var mín bara mætt í Smáralind með einn í kerru og annan í magapoka skömmu síðar. Klárlega eitt það besta sem komið hefur fyrir mig. Aldrei að segja aldrei.“

Bloggið verður ómarktækt

Eva segir að það verði enginn ríkur á bloggi eða snappi á Íslandi. „Þú gefur ekki börnunum þínum varalit eða krem í morgunmat. Þegar fólk er líka endalaust að skrifa um vörur sem það fær gefins þá verður þetta ómarktækt. Þetta verður svona pínulítið eins og Snapchat er að verða hjá öllum þessum snöppurum sem fá gefins þetta og hitt til að fyrirtækin fái umfjöllun. Þetta er bara að missa marks. Ef þetta á að virka þá þarf bloggarinn eða snapparinn að vera mjög þekktur eða frægur og kunna þetta upp á 10 og við eigum bara ekki þessa aðila eins og við sjáum úti í heimi,“ segir Eva og bætir við aðspurð að hún fylgi nokkrum erlendum áhrifavöldum í tísku bæði á Snapchat og Instagram.

Hver er uppskrift Evu að góðum degi?

„Þegar ég vakna á morgnana þá er það fyrsta sem ég geri að þakka fyrir það sem ég á og þá meina ég börnin mín, heilsuna, að eiga fyrir mat, geta veitt börnunum mínum þak yfir höfuðið og þess háttar. Það er svo margt sem við getum þakkað fyrir í lífinu en stundum dettum við Íslendingar svo niður í það að sjá allt það neikvæða og ég er þar engin undantekning. Ef ég byrja daginn á þakklæti þá verður hann bara svo miklu betri og ég glaðari. Mér finnst ótrúlega mikilvægt að hreyfa mig og ef ég geri það ekki þá verð ég þyngri andlega. Ég er ekki að spá í kílóum heldur er markmið mitt með æfingum að líða vel.“

„Ég væri alveg til í að vera ofurhúsmóðirin og þá meina ég týpan sem hef allt hreint og í röð og reglu. Týpan sem raðar í skápana eftir lit. En lífið er of stutt í að reyna að vera fullkomin á öllum sviðum. Ég er með stórt heimili og stundum er bara allt í drasli og skáparnir í óreiðu og mér er bara nákvæmlega sama. Það vita það nú ekki nema mínir nánustu og vinir mínir að ég er ástríðukokkur og elska að búa til góðan mat. Mikilvægasta stund dagsins er þegar fjölskyldan sest saman við kvöldverðaborðið,“ segir Eva og bætir við að staðhæfing dagsins sé:

„Lífið er núna og munum að brosið er langfallegasti fylgihluturinn, auk þess kostar það ekki krónu.“

Eva Dögg segir að brosið sé fallegasti fylgihluturinn.
Eva Dögg segir að brosið sé fallegasti fylgihluturinn. Ljósmynd / Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál