Var eitt ár að kynna sér innihaldsefni

Dark Force of Pure Nature er rakasprey fyrir andlit hannað af þeim Ásgeiri Hjartarsyni og Bergþóru Þórsdóttur, eigendum förðunarskólans Mask Academy. Rakaspreyið, sem er meðal annars unnið úr þara, gefur húðinni aukinn raka, vörn og ljóma.

„Ástæðan fyrir því að við ákváðum að gera þessa vöru er sú að hún er svo víðtæk og hentar í svo margt,“ útskýrir Ásgeir. „Það er bæði hægt að nota spreyið fyrir farða og eftir farða. Við erum í mjög góðri stöðu til að að prófa svoleiðis hluti í Mask Academy og höfum verið að prófa vöruna á alls konar fólki og það hefur reynst alveg meiri háttar.“

Vantaði eitthvað til að róa hugann á flugi 

Ásgeir segir vöruþróun að húðvöru ekki hafa verið á dagskrá, en hugmyndin kviknaði út frá ferðalögum. „Mér er alltaf heitt og líður almennt illa í flugvélum, þar er margt fólk og þrengsli. Mig langaði að vera með eitthvað sem ég gæti úðað á mig án þess að trufla manninn við hliðina á mér og sótthreinsa andrúmsloftið í metra radíus í kringum mig,“ útskýrir hann og segir jafnframt mikilvægt í þessum aðstæðum að innihaldsefnin séu góð. „Eitthvað sem vekur vellíðan og róar taugarnar í leiðinni og þá kviknaði þessi hugmynd.“

 

 

Vissum hvað við vildum

Ásgeir segir framleiðsluferlið hafa gengið svakalega vel. „Ég tók mér langan tíma í að hugsa um þetta og var vel undirbúinn þegar við komum í verksmiðjuna. Ég var eitt ár að kynna mér innihaldsefni í snyrtivörum, hvaða efni eru skaðleg, hvaða efni eru ofarlega á ofnæmislistum og hvaða efni geta ýtt undir krabbamein o.s.frv. Einnig athugaði ég hvaða efni eru góð og gild úti um allan heim, en það eru mismunandi reglur úti í hinum stóra heimi varðandi innihaldsefni í snyrtivörum.“ Vel gekk að blanda formúluna og þurftu Ásgeir og Bergþóra því ekki að eyða mörgum mánuðum í verksmiðjunni að prófa sig áfram líkt og við mætti kannski búast. „Við vissum nákvæmlega hvað við vildum og fengum síðan aðstoð frá góðri vinkonu, Margréti Alice Birgisdóttur, sem hjálpaði okkur með ilmkjarnaolíurnar.“

 

Innblástur úr náttúrunni

Rakaspreyið inniheldur meðal annars þara úr Breiðafirði sem Ásgeir segir að sé talinn ein besta planta fyrir húðina, hvort sem þarinn er borinn á húðina eða innbyrtur. „Þarinn er gríðarlega ríkur af A-, E-, C- og B-vítamínum, amínósýrum, prólíni og glýsíni sem auka teygjanleika húðarinnar. Þarinn hjálpar einnig til við framleiðslu kollagens ásamt því að vera græðandi, verjandi og rakagefandi,“ útskýrir Ásgeir og bætir við að geraníum-olíurnar sem séu notaðar séu einungis viðurkenndar, hreinar og lífrænar ilmkjarnaolíur. „Margir sálfræðingar nota þessa olíu, t.d. til að slá á kvíða, stress, þunglyndi og reiði. Hún er upplyftandi og hressir, einnig er hún góð fyrir breytingaskeið kvenna.“

Ásgeir segir innblástur rakaspreysins aðallega koma frá náttúrunni. „Ást okkar á fallega Íslandi, skrítna landslagið, svörtu litirnir í náttúrunni, krafturinn í jörðinni, íslenski hrafninn, íslenski hesturinn, hreinleikinn, þjóðsögurnar, galdrarnir, álfarnir, víkingarnir, tröllin og sjórinn.“ Þá segir hann nafnið, Dark Force of Pure Nature, vísun í að hér sé myrkur nánast níu mánuði á ári og efnin sem notuð séu í vöruna komi frá myrkum stöðum.

Aðspurð segjast Ásgeir og Bergþóra þegar byrjuð að vinna að fleiri húðvörum í svipuðum dúr. „Við viljum ekki vera með stóra línu, frekar fáa og góða hluti heldur en eitthvert spaghettí af vörum, þetta er háklassa lína og mun ekki fást alls staðar,“ segir Ásgeir. „Við stefnum á að byggja upp merki hér heima og fara síðan með línuna út fyrir landsteinana.“

 

Mikil vinna fram undan

Dark Force of Pure Nature er væntanlegt í verslun Mask Academy. „Nú erum við að undirbúa vefverslun á síðu merkisins, www.darknature.is, og er spreyið væntanlegt þangað í janúar. Annars erum við núna í viðræðum við Fríhöfnina sem líta vel út og svo eigum við fund við eitt flugfélag eftir áramót. Planið er að fara kannski í nokkrar vel valdar hönnunarverslanir í Reykjavík og nokkra af stærstu stöðunum úti á landi, t.a.m. Akureyri þar sem ég er fæddur og uppalinn. Fram undan er síðan mikil vinna við markaðssetningu og vöruþróun á næstu vörum, ásamt því að koma rakaspreyinu í hillur og ná að sinna því vel. Við erum samhliða þessu að vinna við jólatónleika og taka á móti nýjum nemendum í skólann okkar í janúar, þannig að við erum ekkert uppi í sófa að hafa það notalegt, nema í jólafríinu auðvitað.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál