Enginn skaðast í fitufrystingu

Sandra Lárusdóttir.
Sandra Lárusdóttir. mbl.is

Sandra Lárusdóttir, eigandi Heilsu og útlits, sem býður upp á fitufrystingu, segir að enginn hafi skaðast hjá sér á þessu eina ári sem hún hefur fryst fitu. Í viðtali við dr. Bolla Bjarnason í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins segir hann að fólk hafi komið til sín með aukaverkanir eftir kælifitueyðingu sem framkvæmd hefur verið utan lækningasviðs. Sandra segir það ekki tengjast sér og sinni starfsemi. Bolli gagnrýnir að meðferðin sé framkvæmd á snyrtistofum en Sandra segir að hún gæti fyllsta öryggis og fari vel yfir heilsufarssögu hvers og eins. Hér á landi er leyfilegt fyrir hvern sem er að stunda fitufrystingu.

Hugsað sem líkamsmótun

Sandra Lárusdóttir hefur fulla trú á meðferðinni. Heilsa og útlit var fyrsta stofan sem bauð upp á þessa nýju þjónustu en þau byrjuðu með fitufrystingu fyrir ári. „Það gengur mjög vel,“ segir hún. Sandra lærði í Englandi en þau nota það sem kallast „lipoglaze“. Hún segir að það sé nóg að gera en að meðferðin sé ekki hugsuð fyrir fólk í yfirvigt. „Nei, þetta er alls ekki fyrir þá, þetta er fyrir fólk sem er kannski rétt yfir kjörþyngd. Við köllum þetta líkamsmótun. Þetta er fyrir þrjósku svæðin,“ segir hún en Sandra hefur prófað þetta á sjálfri sér.

„Það er allt að gerast. Ég nota núna líka vörur sem ég sel, vörur sem heita Fitline, og ég nota þær með og þá hreinsar það betur út og passa hvað ég læt ofan í mig og þá sést árangurinn,“ segir hún.

Oft þarf að endurtaka meðferð

Oft er ekki nóg að koma einu sinni og mælir Sandra oft með nokkrum skiptum en hún metur það í hverju tilfelli fyrir sig.

„Það fer eftir hversu þykkur fituveggurinn er hvort það þarf að endurtaka meðferð, stundum þarf ég að fá fólk í eitt, tvö eða þrjú skipti og það er það sem mér finnst fólk ekki alltaf fá réttar upplýsingar um, það heldur að það labbi inn og geti fryst sig og orðið rosa grannt,“ segir hún.

Sandra segist sjá mikinn mun hjá fólki þegar það kemur til hennar aftur. Já, við gerum það, sérstaklega eftir að ég fór að auka kælinguna og hafa hana í styttri tíma,“ segir hún en nú frystir hún niður í -8°C.

Sléttur magi kostar sitt

Meðferðin er frekar dýr og ekki á allra færi. Að frysta á magasvæði, sem er algengur staður á bæði konum og körlum, kostar á bilinu 60-80 þúsund krónur fyrir eitt skipti. Oft er ekki nóg að koma einu sinni og getur því meðferðin farið upp í 240 þúsund. Bæði kynin mæta til Söndru í fitufrystingu en karlar sækjast eftir að frysta magann fyrst og fremst á meðan konur vilja maga, læri og hliðar. Það tekur 45 mínútur að frysta hvert svæði.

„Ég trúi á þetta og ég hef mjög gaman af því að stúdera þetta. Enda er nóg að gera og við erum að gera flotta hluti,“ segir Sandra.

Enginn skaðast frá opnun       

Sandra segir að enginn hafi skaðast í meðferðinni hjá sér.

„Svona fréttist strax og ef ég hefði skaðað einhvern myndi ég ætla að viðkomandi hefði samband og léti mig vita því auðvitað myndi hann hafa áhyggjur. Fólk er frekar að koma aftur og fá frystingu á öðrum stöðum og fólk hefur verið ánægt,“ segir hún. 

Sandra segir að að vel sé hægt að treysta fólki á snyrtistofum til að gera þessa aðgerð. „Þróun tækjanna í dag er öðruvísi og ég hef sótt námskeið. Ég hringdi í landlækni og það var ekkert sem mælti gegn því að ég starfaði við þetta þannig að ég fór út og lærði þetta. Ég hef kynnt mér þetta mjög mikið,“ segir hún en Sandra tekur fólk í viðtækt viðtal um heilsufarið.

„Ef einhver vafi er á einhverju þá bið ég viðkomandi að fá leyfi hjá lækni. Ég fer yfir þrjátíu þætti,“ segir Sandra sem hefur oft þurft að vísa fólki frá. „Svo hef ég valið mér það að nota  tvöfalda vörn, sem er ekki algengt. Ég vil alls ekki lenda í því að valda kali. Eftir heilt ár hefur ekkert slíkt gerst. Ég fer alveg eftir bókinni,“ segir Sandra.

Svona fer fitufrysting fram.
Svona fer fitufrysting fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál