Guðjón undrast að Bjarni sé ekki í landsliðshópnum

Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Kristinn Ingvarsson

Guðjón Þórðarson þjálfari knattspyrnuliðs ÍA á Akranesi segir í viðtali á heimasíðu félagsins að hann sé undrandi á því að Bjarni Guðjónsson skuli ekki hafa verið valinn í landsliðshóp Íslands fyrir leikina gegn Spánverjum og N-Írum í Evrópukeppninni. Hann gagnrýnir einnig íslenska fjölmiðla í viðtalinu.

„En ég verð að lýsa undrun minni á því að krafta Bjarna Guðjónssonar er ekki óskað í leikinn gegn Spánverjum. Með fullri virðingu fyrir þeim leikmönnum sem valdir hafa verið þá tel ég að Bjarni eigi heima í þeim hópi. En landsliðsþjálfarinn hefur væntanlega sínar ástæður,“ segir Guðjón m.a. í viðtalinu sem má lesa í heild sinni á heimasíðu ÍA.

Þjálfarinn gagnrýnir einnig fjölmiðla og segir að íslenskir fjölmiðlar ger lítið úr stöðu liðsins í deildinni en ÍA er í þriðja sæti Landsbankadeildarinnar.

„Ég get ekki neitað því að mér finnst fjölmiðlaumræðan um stöðu okkar í deildinni vera nokkuð sérstök. Það er mikið um það rætt að við leikum varnarleik og leikirnir okkar séu þess vegna leiðinlegir. En þeir eru ekki leiðinlegri en svo að við höfum skorað 28 mörk og erum þriðja markahæsta liðið í deildinni,“ segir Guðjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert