Willum: Varnarmennirnir ólíkir sjálfum sér

Willum Þór Þórsson sagði að þriðja markið hefði ráðið úrslitum.
Willum Þór Þórsson sagði að þriðja markið hefði ráðið úrslitum. mbl.is/Brynjar Gauti

„Það má eflaust finna margar útskýringar á þessum óförum okkar en það sem munaði mestu var að varnarmenn okkar, öftustu fjórir, voru ólíkir sjálfum sér í dag," sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Íslandsmeistara Vals við fréttavef Morgunblaðsins eftir skellinn í Keflavík í dag, 5:3.

„Við vorum illa á verði í tveimur fyrstu mörkunum og 2:0 forgjöf eftir fimm mínútur - það getur ekkert lið leyft sér slíkt í Keflavík. Það sem ég var smeykur við fyrir leikinn var að Keflavík hefur verið spáð 7.-8. sæti, og er samt með hrikalega flottan mannskap. Þeir gátu einbeitt sér að því að koma vel stemmdir í þennan leik, sem þeir og gerðu.

Ég er samt ekki algjörlega óánægður með mitt lið. Þrátt fyrir að við værum 2:0 undir eftir 5 mínútur hörkuðum við á þeim allan fyrri hálfleikinn og fengum tvö góð færi. Þar hefðum við þurft að skora eitt mark til að komast inní leikinn. En það tókst ekki og Keflvíkingar gátu metið stöðuna í hálfleik, 2:0 yfir.

Ég var samt sannfærður um að við myndum koma til baka og jafna leikinn. Við þurftum mark til þess. En vítaspyrnan snemma í seinni hálfleik sló okkur útaf laginu. Að lenda 3:0 undir er of mikið, þá var þetta orðið mjög erfitt.

En ég er stoltur af því að liðið skyldi ekki hætta, 5:1 undir, og ljúka leiknum af einhverri sæmd. Ég verð að finna jákvæðu punktana úr þessum leik og vinna úr þeim í framhaldinu. Það er ekkert annað að gera.

Keflvíkingar komu vel stemmdir til leiks, hlutirnir féllu með þeim strax og þeir verðskulduðu fyllilega þennan sigur. Ég er ekki í vafa um að þeir séu með lið sem getur blandað sér í toppbaráttuna í sumar."

Willum tók undir það að fyrsti dagur Íslandsmótsins væri góður, að öðru leyti en því að það væri að sjálfsögðu sárt fyrir sitt lið að bíða lægri hlut.

"Það var skorað nóg af mörkum, ekki óskabyrjun fyrir okkur, en það verður flottur fótbolti spilaður í sumar og ég á von á miklu fjöri. Byrjunin lofar góðu. Nú förum við Valsmenn að undirbúa okkur fyrir næsta leik, strax í fyrramálið. Við þurfum að koma okkur í gang og safna stigum, það breytir engu hvort liðin í deildinni séu tíu eða tólf, það er ekki eftir neinu að bíða með það," sagði Willum Þór Þórsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert