Farinn í meðferð - tilbúinn í júní

Tryggvi Guðmundsson í leik með ÍBV síðasta sumar.
Tryggvi Guðmundsson í leik með ÍBV síðasta sumar. hag / Haraldur Guðjónsson

Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir í viðtali við Eyjafréttir í dag að Tryggvi Guðmundsson, sóknarmaðurinn reyndi, sé kominn í áfengismeðferð eftir að hafa verið tekinn fyrir ölvun við akstur í Vestmannaeyjum fyrr í vikunni.

„Mál Tryggva er í ákveðnum farvegi.  Hann á góða að sem tóku fast á hans málum og er Tryggvi nú kominn í áfengismeðferð,“ segir Óskar.

Spurður hvort þetta hafi einhver áhrif á stöðu hans hjá ÍBV svarar formaðurinn:

„Við ræddum það á fundi í vikunni og ákveðið var að aðstoða leikmanninn í sínum veikindum í stað þess að snúa við honum baki.  Hann verður hins vegar að þiggja hjálpina, það er á hreinu.  En við búumst við Tryggva í júní, endurnærðum og til í slaginn með okkur,“ sagði Óskar.

Sem kunnugt er fékk Tryggvi blóðtappa í fót í vetur og ljóst var að hann yrði ekki með Eyjamönnum í fyrstu umferðum Íslandsmótsins af þeim sökum. Tryggvi, sem jafnaði markamet Inga Björns Albertssonar í efstu deild síðasta sumar, hafði sett  stefnuna á að vera tilbúinn með liðið ÍBV í 6. umferðinni um næstu mánaðamót.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert