Jensen ekki með Skagamönnum

Jesper Holdt Jensen, til hægri, í leik með Stjörnunni gegn …
Jesper Holdt Jensen, til hægri, í leik með Stjörnunni gegn Þór. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Danski knattspyrnumaðurinn Jesper Holdt Jensen verður ekki með Skagamönnum á næsta keppnistímabili eftir að hafa slitið krossband í hné í annað sinn á skömmum tíma og væntanlega verður hann leystur undan samningi við ÍA.

Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA, staðfesti þetta við Fótbolta.net í dag og sagði jafnframt að Skagamenn væru farnir að leita sér að öðrum miðjumanni í hans stað.

Jensen kom til Stjörnunnar vorið 2011 og lék mjög vel með Garðabæjarliðinu, allt þar til hann sleit krossband í leik gegn Þór í  byrjun ágúst. Hann fór heim til Danmerkur en sneri aftur til Íslands í sumar, þegar hann hafði jafnað sig af meiðslunum, og gerði samning við Skagamenn til hálfs þriðja árs.

En hann náði aðeins að leika fjóra leiki því í þeim fjórða, gegn FH í 20. umferðinni, meiddist hann á ný og nýlega kom í ljós að krossbandið væri slitið á ný.

Þá kom fram hjá Þórði að finnskur varnarmaður, Jan Mikael  Berg, væri til reynslu hjá Skagamönnum og hefði staðið sig vel en ekki væri búið að ákveða hvort samið yrði við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert