Mist samdi við Avaldsnes

Mist Edvardsdóttir í leik með Íslandi gegn Danmörku.
Mist Edvardsdóttir í leik með Íslandi gegn Danmörku. mbl.is/Algarvephotopress

Mist Edvardsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu úr Val, er gengin til liðs við norska félagið Avaldsnes og leikur með því í úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar í landi á næsta keppnistímabili.

Mist er 22 ára gömul, leikur sem varnarmaður, og spilaði með Aftureldingu og KR áður en hún gekk til liðs við Val, sem hún hefur spilað með undanfarin tvö ár.

Mist hefur leikið 8 landsleiki fyrir Íslands hönd, þar af fimm á þessu ári, en hún var tvisvar í byrjunarliðinu í Algarve-bikarnum síðasta vetur.

Hólmfríður Magnúsdóttir, Kristín Ýr Bjarnadóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir og Björk Björnsdóttir markvörður leika allar með Avaldsnes, sem vann yfirburðasigur í norsku B-deildinni á nýliðnu tímabili en þar gerði Hólmfríður 25 mörk fyrir liðið og Kristín 24.

Avaldsnes hefur nú þegar bætt við sig sex leikmönnum á síðustu vikum og búast má við að fleiri bætist í hópinn, en félagið ætlar sér stóra hluti í úrvalsdeildinni á komandi leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert