Bjarni Hólm til liðs við Fram

Bjarni Hólm ásamt Þorvaldi Örlygssyni þjálfara og Brynjari Jóhannessyni formanni …
Bjarni Hólm ásamt Þorvaldi Örlygssyni þjálfara og Brynjari Jóhannessyni formanni knattspyrnudeildar Fram. mbl.is/fram.is

Varnarmaðurinn Bjarni Hólm Aðalsteinsson gekk í dag til liðs við Fram og mun leika með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar.

Bjarni, sem er 28 ára gamall, skrifaði undir tveggja ára samning við Safamýrarliðið. Hann þekkir vel til hjá Fram en hann lék með liðinu í tvö ár en Bjarni er Seyðfirðingur sem einnig hefur spilað með Keflavík og ÍBV. Tvö síðustu árin hefur Bjarni spilað með Levanger í Noregi.

Ég er mjög spenntur fyrir því að leika með Fram á nýjan leik,“ segir Bjarni á vef Framara. „Það er gaman að koma hingað aftur, mikill kraftur og metnaður í félaginu og ég vona að ég geti hjálpað liðinu að ná markmiðum sínum.“

„Bjarni er góð viðbót við leikmannahópinn okkar og við erum ánægðir með að fá hann til liðs við okkur,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram. „Við ætlum okkur stóra hluti í sumar, förum ekkert dult með það, og þessi styrking undirstrikar þann metnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert