„Alltaf langað til Andorra“

Ólafur og lærisveinar hans mæta Val í Pepsi-deildinni í kvöld.
Ólafur og lærisveinar hans mæta Val í Pepsi-deildinni í kvöld. mbl.is/Ómar

„Ég veit ekkert um þetta lið sko,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is aðspurður út í dráttinn í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en Blikar mæta Santa Coloma frá Andorra sem ætti að vera nokkuð þægilegt verkefni.

Breiðablik var í efri styrkleikaflokki í potti fimm og gat mætt Mariehamn frá Finnlandi, Santa Coloma frá Andorra, NK Celje frá Slóveníu, ÍF Fuglafirði frá Færeyjum, Prestatyn Town frá Wales og Drogheda United frá Írlandi.

„Ég sá pottinn sem við vorum í og af liðunum þar leist mér síst á þetta Celje-lið. Allt annað fannst mér eitthvað sem getum klárað. Ég er bara ánægður með þetta, mig hefur alltaf langað til Andorra,“ sagði Ólafur léttur í bragði.

Hann ætlar sér með blikana í aðra umferð. „Ég leyfi mér að hugsa þannig og hefði gert það sama hvaða lið við hefðum fengið. Markmiðið okkar er að komast upp úr þessari fyrstu umferð. Við vitum samt afskaplega lítið um þetta lið en nú fer bara vinna í gang að reyna fá spólur af þessu liði,“ segir Ólafur.

Leikirnir verða spilaðir um miðjan júlí en Blikar eiga leik í Pepsi-deildinni í kvöld gegn Val á Kópavogsvellinum klukkan 20.00.

„Þetta er stórleikur og skemmtilegt verkefni. Valsararnir eru sprækir, þetta eru tvö jöfn lið. Það má búast við baráttuleik. Það lið sem gefur meira í leikinn mun vinna hann. Þetta eru tvö lið sem vilja vera í efri hlutanum,“ sagði Ólafur Kristjánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert