Mikilvægasti leikur Íslands í langan tíma

Íslenska landsliðið æfði á Laugardalsvelli í dag fyrir stórleikinn við …
Íslenska landsliðið æfði á Laugardalsvelli í dag fyrir stórleikinn við Albani á þriðjudag. mbl.is/Eggert

Heimir Hallgrímsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, undirstrikaði mikilvægi leiksins við Albaníu í undankeppni HM á þriðjudagskvöld þegar hann ræddi við fréttamenn á fundi á Laugardalsvelli í dag.

Staðan í E-riðli þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir er þannig að Sviss er með 15 stig, Noregur 11, Albanía og Ísland 10, Slóvenía 9 og Kýpur 4. Ísland kæmist því þrjú stig upp fyrir Albaníu með sigri, og gæti náð 2. sætinu nema Noregur vinni Sviss á þriðjudagskvöld.

Efsta liðið í riðlinum kemst beint í lokakeppni HM í Brasilíu á næsta ári en liðið í 2. sæti mun líklega leika í umspili um að komast þangað.

„Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur og við viljum fá fólk á völlinn. Við viljum fylla Laugardalsvöllinn. Ég efast um að Ísland hafi spilað mikilvægari leik í langan tíma,“ sagði Heimir við fréttamenn.

Margt þarf að ganga upp til að Ísland fari með sigur af hólmi. Heimir minnti á að albanska liðið væri í 38. sæti heimslistans, 32 sætum fyrir ofan Ísland, liðið væri afar baráttuglatt og gríðarlega erfitt viðureignar þó að í því væru engar stórstjörnur.

Um 6.500 miðar hafa þegar selst á leikinn en Laugardalsvöllur tekur um 10.000 manns í sæti. Miðasala er í fullum gangi á midi.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert