Fjölnir og Víkingur í Pepsi-deildina

Fjölnir og Víkingur Reykjavík leika í Pepsi-deildinni að ári eftir sigra í ótrúlegri lokaumferð 1. deildar karla í fótbolta sem fram fór í dag. Bæði lið komu til baka eftir að vera marki undir í hálfleik.

Fjölnir og Víkingur voru efst í deildinni fyrir lokaumferðina en þau lentu undir í sínum leikjum. Kristján Páll Jónsson skoraði fyrir Leikni gegn Fjölni og Andri Björn Sigurðarson skoraði fyrir Þrótt gegn Víkingum og bæði lið undir í hálfleik.

Það blés ekki byrlega fyrir Fjölni í seinni hálfleik því Þórir Guðjónsson fékk rautt spjald og Grafarvogsstrákarnir því manni færri. En þeir sýndu ótrúlegan karakter, komu til baka og skoruðu þrjú mörk. 

Ragnar Leósson jafnaði metin áður en Matt Ratajczak kom Fjölni yfir og Guðmundur Karl Guðmundsson tryggði sigurinn í uppbótartíma. Fjölnir endar efst í deildinni og er meistari í 1. deild 2013.

Í Laugardalnum var Pape Mamadou Faye hetja Víkinga en hann skoraði tvö mörk með þriggja mínútna millibili á 70. og 73. mínútu og skaut Víkingum upp í Pepsi-deildina þar sem liðið spilaði síðast 2011.

Grindavík og Haukar sitja eftir með sárt ennið. Grindavík vann KA, 2:1, þar sem Juraj Grizelj skoraði bæði mörk Grindavíkur en Haukar völtuðu yfir Völsung, 7:0, fyrir norðan. Víkingur nær 2. sætinu á markatölu sem þeir geta þakkað 16:0-sigrinum á Völsungi í síðustu umferð.

BÍ/Bolungarvík gerði það sem það þurfti að gera og vann Tindastól, 2:0, á útivelli með mörkum Loic Ondo og Theo Furness en það dugði ekki til. Selfoss tapaði svo heima, 2:3, fyrir föllnu liði KF.

KV í 1. deild

Knattspyrnufélag Vesturbæjar, KV, er komið upp í 1. deild í fyrsta skipti í stuttri sögu félagsins en það gerði 1:1-jafntefli við Gróttu á heimavelli sínum í hreinum úrslitaleik um hvort liðið færi upp. Ótrúlegur árangur hjá KV á jafnskömmum tíma en félagið var stofnað fyrir sjö árum. HK var komið upp fyrir umferðina og fagnar sigri í 2. deild á betri markatölu.

Lokastaðan í toppbaráttu 1. deildar: Fjölnir 43 (+14), Víkingur R. 42 (+28), Haukar 42 (+20), Grindavík 42 (+19), BÍ/Bolungarvík 40 (+8)

Lokastaðan í toppbaráttu 2. deildar: HK 40 (+20), KV 40 (+15), Afturelding 39 (+17), Grótta 38 (+9)  

1. deild:

Leiknir R. - Fjölnir 1:3 (Leikskýrsla) Leik lokið
Kristján Páll Jónsson 32. - Ragnar Leósson 76., Matt Ratajczak 80., Guðmundur Karl Guðmundsson 90.

Völsungur - Haukar 0:7 (Leikskýrsla) Leik lokið
Brynjar Benediktsson 3., Hilmar Rafn Emilsson 27., 55., Sjálfsmark 30., Hafsteinn Briem 36., Andri Steinn Birgisson 47., Hilmar Geir Eiðsson 83.

Grindavík - KA 2:1 (Leikskýrsla) Leik lokið
Juraj Grizelj 16, 50. - Ægir Þorsteinsson 68. (sjálfsm) 

Tindastóll - BÍ/Bolungarvík 0:2 (Leikskýrsla) Leik lokið
Loic Ondo 12., Theo Furness 71.

Þróttur R. - Víkingur R. 1:2 (Leikskýrsla) Leik lokið
Andri Björn Sigurðsson 14. - Pape Mamadou Faye 70., 73.

Selfoss - KF 2:3 (Leikskýrsla) Leik lokið

2. deild:

KV - Grótta 1:1 (Leikskýrsla) Leik lokið
Einar Bjarni Ómarsson 27. - Andri Gíslason 8. 

Höttur - HK 2:0 (Leikskýrsla) Leik lokið

---

15.59 LEIK LOKIÐ! KV - Grótta 1:1 KV ER KOMIÐ Í 1. deild

15.57 LEIK LOKIÐ! Tindastóll - BÍ/Bolungarvík 0:2

15.57 LEIK LOKIÐ! Þróttur R. - Víkingur R. 1:2

15.55 LEIK LOKIÐ! Selfoss - KF 2:3

15.43 LEIK LOKIÐ! Leiknir R. - Fjölnir 1:3 FJÖLNIR ER KOMINN UPP

15.53 Mark, 1:3 í Breiðholti. Guðmundur Karl Guðmundsson skorar þriðja mark Fjölnis. Þvílík endurkoma og Fjölnir endurkoma.

15.49 LEIK LOKIÐ! Grindavík - KA 2:1

15.48 LEIK LOKIÐ! Völsungur - Haukar 0:7

15.41 Mark, 1:2 í Breiðholti. Tíu Fjölnismenn eru komnir yfir og eru núna á leið í Pepsi-deildina. Matt Ratajczak skorar á 80. mínútu. Ótrúlegt.

15.38 Mark, 0:7 á Húsavík. Haukarnir skora sjöunda markið og eru því komnir yfir Grindavík á markatölu. Hilmar Geir Eiðsson skorar á 83. mínútu.

15.35 Mark, 1:1 í Breiðholti. Fjölnismenn jafna en það gerir Ragnar Leósson 76. mínútu. Þeir þurfa samt annað mark.

15.34 Mark, 1:2 í Laugardal. Víkingar komast yfir og aftur skorar Pape Mamadou Faye nú á 73. mínútu. Víkingar eru allt í einu á leiðinni upp.

15.33 Mark, 0:2 á Sauðárkróki. Theo Furness skorar annað mark Djúpmanna á 71. mínútu.

15.30 Mark, 1:1 í Laugardal. Víkingar jafna metin gegn Þrótti. Pape Mamadou Faye skorar með skalla af stuttu færi en Víkingar þurfa annað mark á meðan staðan í öðrum leikjum er óbreytt.

15.26 Mark, 2:1 í Grindavík. KA minnkar muninn gegn Grindavík. Markvörður heimamanna, Ægir Þorsteinsson, skorar sjálfsmark á 68. mínútu.

15.13 Ratt spjald í Breiðholti. Þórir Guðjónsson, leikmaður Fjölnis, er rekinn af velli. Róðurinn þyngist fyrir Fjölni sem var á toppnum fyrir umferðina.

15.10 Mark, 0:6 á Húsavík. Hilmar Rafn Emilsson skorar sjötta mark Hauka á 55. mínútu.

15.05 Mark, 2:0 í Grindavík. Juraj Grizelj bætir við marki fyrir Grindvíkinga gegn KA á 50. mínútu og þeir eru enn á toppnum eins og staðan er núna.

15.04 Mark, 0:5 á Húsavík. Leikurinn fyrir norðan er aðeins á undan hinum. Andri Steinn Birgisson skorar fimmta mark Hauka á 47. mínútu en svona 2-3 mínútur eru þar til hinir leikirnir í 1. deildinni fara aftur af stað.

14.49 Hálfleikur í 1. deildinni. Grindavík og Haukar eru uppi eins og staðan er núna.

14.47 Mark, 1:0 á Egilsstöðum. Höttur kemst yfir gegn HK sem er nú þegar komið upp í 1. deild en berst fyrir sigri í deildinni. 

14.38 Mark, 0:4 á Húsavík. Enn hrannast inn mörkin á Húsavík. Hafsteinn Briem skorar á 36. mínútu og Haukarnir nálgast markatölu Grindvíkinga.

14.36 Mark, 1:0 í Breiðholti. Leiknir tekur forystuna gegn Fjölni sem er slæmt fyrir Grafarvogsbúa. Kristján Páll Jónsson skorar á 32. mínútu.

14.30 Mark, 0:3 á Húsavík. Völsungur skorar sjálfsmark gegn Haukum á 30. mínútu.

14.29 Mark, 1:1 í Vesturbæ. KV jafnar gegn Gróttu. Einar Bjarni Ómarsson skorar úr víti á 27. mínútu.

14.26 Mark, 0:2 á Húsavík. Hilmar Rafn Emilsson bætir við marki fyrir Hauka á 27. mínútu.

14.18 Mark, 1:0 í Grindavík. Grindvíkingar taka forystuna gegn KA. Juraj Grizel skorar á 16. mínútu og þá er Grindavík uppi eins og staðan er núna.

14.16 Mark, 0:1 í Vesturbæ. Grótta kemst yfir gegn KV í úrslitaleiknum um sæti í 1. deild. Andri Gíslason skorar á 8. mínútu.

14.15 Mark, 0:1 á Sauðárkróki. Djúpmenn komast yfir gegn Tindastóli á 12. mínútu. Loic Ondo skorar.

14.14 Mark, 1:0 í Laugardal. Víkingar eru lentir undir gegn Þrótti. Vörnin opnast upp á gátt og Andri Björn Sigurðsson leikur á Ingvar Kale í markinu og skorar auðveldlega á 13. mínútu.

14.09 Mark, 0:1 á Selfossi. KF kemst yfir gegn Selfossi í leik sem skiptir engu á 7. mínútu. Halldór Logi Hilmarsson skorar markið.

14.03 Mark, 0:1 á Húsavík. Haukarnir strax komnir yfir gegn Völsungi en Haukar þurfa skora fullt af mörkum í dag fari svo að Víkingar og Grindavík vinni sína leiki. Brynjar Benediktsson skorar á 3. mínútu.

14.00 Leikirnir eru að hefjast.

13.10 Byrjunarliðin má sjá í leikskýrslunum hér að ofan sem tengdar eru við hvern leik. Það eru tíðindi frá Valbjarnarvelli en Aron Elís Þrándarson, markahæsti leikmaður 1. deildar, getur ekki leikið með Víkingum vegna meiðsla. Þetta er mikið áfall fyrir liðið í þessari lokaumferð en hann er algjör lykilmaður í liðinu. Ægi Þorsteinsson er í marki Grindavíkur en Benóný Þórhallsson á bekknum og Óskar Pétursson, markvörður sem er meiddur, er á meðal varamanna en ekki sem markvörður. Hinn sjóðheiti Aron Sigurðarson, leikmaður Fjölnis, byrjar á bekknum gegn Leikni R.

Upplýsingar um markaskorara eru að hluta fengnar frá úrslit.net.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert