Þrjú íslensk lið komin áfram í EM

Þorlákur Árnason þjálfari U17 ára landsliðs karla.
Þorlákur Árnason þjálfari U17 ára landsliðs karla. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Öll þrjú yngri landslið Íslands í knattspyrnu sem hafa tekið þátt í undankeppni Evrópumótanna í haust eru komin áfram úr sínum riðlum og í milliriðla.

Strákarnir í U17 ára liðinu bættust í þann hóp í gær þegar þeir unnu frækinn sigur á Rússum, 2:1, á heimavelli þeirra í Volgograd. Rússum nægði jafntefli til að vinna riðilinn en íslensku strákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu þá 2:1 með mörkum Grétars Snæs Gunnarssonar og Alberts Guðmundssonar.

Ísland fékk því 7 stig, Rússland 6, Slóvakía 3 og Aserbaídsjan eitt. Ísland og Rússland leika í milliriðli snemma á næsta ári.

U19 ára landslið stúlkna var komið áfram eftir tvo 5:0 sigra í Búlgaríu fyrr í vikunni. Það tapaði 0:3 fyrir Frökkum í úrslitaleik riðilsins í gær en bæði lið leika í milliriðli seinnipart vetrar.

Fyrr í haust komst U17 ára landslið stúlkna áfram og það spilar í milliriðli sem hefst í Rúmeníu á mánudaginn kemur.

Eina liðið sem á eftir að fara í sína undankeppni er U19 ára lið pilta sem spilar í riðli í Belgíu um miðjan október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert