Bjarni Guðjónsson: Nokkrir hlutir sem klikkuðu

„Það voru nokkrir hlutir sem klikkuðu. Við fáum á okkur þrjú, finnst mér, frekar ódýr mörk af okkar hálfu og það er erfitt að koma til baka úr því,“ sagði Bjarni Guðjónsson eftir 3:1 tap sinna manna gegn Keflavík í átta liða úrslitum Borgunarbikars karla í kvöld, en sigur Keflvíkinga var afar sannfærandi.

Að mati Bjarna sköpuðu hans menn þó nóg af færum.

„Við sköpuðum okkur nóg af færum sem við nýttum ekki, notum aðeins eitt af þeim færum sem við fáum og þá verður þetta bara erfitt.“

Framarar héldu boltanum vel á upphafsmínútunum og voru að sögn Bjarna betri aðilinn fram að markinu.

„Mér fannst við vera sterkari og eftir að þeir skoruðu fannst mér við líka vera sterkari. Ég var þokkalega sáttur. Við fengum tvö fín færi í fyrri hálfleik til að skora, nýtum þau ekki. Fáum svo einnig færi í seinni hálfleik til að skora og nýtum þau heldur ekki. Það skiptir ekki máli hversu stórt þú tapar í bikarkeppninni. Maður þarf að reyna að ná að jafna og komast inn í leikinn aftur. Við vorum að reyna það þegar Keflavík setur annað og þriðja markið og okkar keppni í bikarnum er lokið,“ sagði Bjarni Guðjónsson, en nánar er rætt við hann í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert