Rúnar: Þvílíkur kraftur í þeim

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar segir að liðið þurfi að eiga sinn besta leik gegn skoska úrvalsdeildarliðinu Motherwell sem Stjarnan mætir annað kvöld í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu. Leikurinn úti endaði 2:2 og því er Stjarnan í fínni stöðu fyrir seinni leikinn.

„Við förum bara inn í þennan leik eins og alla aðra leiki. Verjast vel og reyna að beita skyndisóknum. Aldrei meira en núna kannski. Við þurfum að eiga okkar besta leik til að fá góð úrslit,“ sagði Rúnar sem segir Stjörnuna þurfa að vera agaða í sínum leik ætli Garðbæingar sér áfram.

„Þeim dugir að vinna 1:0, við gerum okkur grein fyrir því. Við þurfum að vera gríðarlega agaðir í okkar varnarleik og skipulagi og helst að fá mark á þá. Það yrði mjög gott fyrir okkur en við vitum það alveg að 0:0 og 1:1 staða er góð fyrir okkur en við viljum að sjálfsögðu vinnan þennan leik,“ sagði Rúnar.

Rúnar segir skoska liðið vera gríðarlega öflugt en jafnframt að þeir óttist öflugar skyndisóknar Garðbæinga, eins og Skotarnir fengu að finna fyrir í fyrri leiknum. Þar fékk Stjarnan nóg af færum.

„Þeir vita að við erum góðir í okkar skyndisóknum. Þeir fengu aldeilis að finna fyrir því úti í Skotlandi. Það er spurning hvort að þeir liggi aftarlega og reyna að beita skyndisóknum á okkur. Það getur vel verið að það fari svo. Þetta er gríðarlega öflugt lið sem við erum að mæta og vel spilandi og þvílíkur kraftur í þeim. Við fundum fyrir því fyrstu 20 mínúturnar til hálftímann í leiknum úti,“ sagði Rúnar.

Stjörnumenn mæta vel undirbúnir til leiks og hafa kortlagt þeirra helstu sóknartilburði.

„Við erum reiðubúnir í það að stoppa þeirra skyndisóknir og þeirra styrkleika sem er að komast upp og tvöfalda á kantana og vera svo með eitraða menn inni í. Þeirra styrkur eru hornspyrnur og aukaspyrnur sem við þurfum að forðast að þeir skapi. Við erum undirbúnir fyrir það,“ sagði Rúnar.

Leikurinn fer fram á gervigrasi og það verður að mati Rúnars Stjörnunni í hag en það mun samt sem áður ekki skipta sköpum í leiknum þar sem þetta er jú sama íþróttin hvort sem hún er spiluð á venjulega grasi eða á gervigrasi.

„Að sjálfsögðu verður það okkur í hag. Ég heyrði það þarna úti að þeir ætluðu sér að fá hagstæð úrslit til þess að geta tekið því aðeins rólegra hérna en vegna þess að þeir eru mjög hræddir við þetta gras og kannski ekki vanir að spila á gervigrasi. Sjálfsagt er það hagstætt fyrir okkur en þetta er nú bara fótbolti samt,“

Leikmannahópur Stjörnunnar er í fínu standi fyrir leikinn. Það er einungis Garðar sem er meiddur. Veigar Páll er allur að koma til eftir undarleg bakmeiðsli sem hann fékk á dögunum.

„Veigar eru allur að skríða saman. Hann leit vel út á æfingu áðan og hann er tilbúinn í slaginn. Strákarnir eru allir heilir nema Garðar sem er enn þá meiddur. Við tökum ekki áhættuna að nota hann í þennan leik. Það er mikið eftir í deildinni þannig að við verðum að hugsa aðeins lengra en bara þennan leik,“

Gríðarlega mikil stemning ríkir í Garðabænum fyrir leikinn en þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan tekur þátt í Evrópukeppni. Það seldist upp á Samsung-völlinn í gær.

„Það er gríðarleg stemning sem verður hérna á morgun, sem aldrei fyrr held ég bara. Það er mikil tilhlökkun í bæjarbúum og það var uppselt mjög snemma.  Ég reikna með frábærri stemningu hérna á vellinum og góðum stuðning frá Silfurskeiðinni og Garðbæingum,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert