Harpa með þrennu - fyrsta tap Selfoss á útivelli

Úr leik Stjörnunnar og ÍBV í kvöld. Marta Carissimi (t.v.) …
Úr leik Stjörnunnar og ÍBV í kvöld. Marta Carissimi (t.v.) lagði upp tvö mörk. mbl.is/Eggert

Fyrstu leikjunum tveimur var að ljúka rétt í þessu í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Í Garðabæ valtaði Stjarnan yfir ÍBV, 4:0 og á Akureyri vann Þór/KA góðan sigur á Selfossi, 2:1 í hörkuleik.

Markavélin Harpa Þorsteinsdóttir var sem fyrr óstöðvandi í leiknum gegn ÍBV. Hún skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins. Fyrri tvö mörkin komu á þriggja mínútna millibili, á 33. og 36. mínútu leiksins eftir undirbúning frá Sigrúnu Ellu Einarsdóttur og Mörtu Carissimi, ítölsku landsliðskonunni í búningi Stjörnunnar.

Síðari hálfleikur var vart byrjaður þegar að Harpa fullkomnaði þrennuna, á 46. mínútu. Þriðja markið var hennar 20. mark í 10 leikjum í Pepsi-deildinni í sumar. Síðasta mark leiksins skoraði varnarmaðurinn frábæri, Glódís Perla Viggósdóttir með skalla eftir hornspyrnu Mörtu á 74. mínútu.

Á Akureyri sigraði Þór/KA Selfoss í hörkuleik Fyrstamark leiksins varð norðankvenna en það skoraði Arna Sif Ásgrímsdóttir á 26. mínútu. Selfyssingar gáfust hins vegar ekki upp og uppskáru jöfnunarmark á 63. mínútu þegar að Celeste Boureille kom boltanum í netið.

Þór/KA lét hins vegar mótlætið ekkert á sig fá og sigurmark liðsins skoraði Freydís Anna Jónsdóttir á 77. mínútu. Lokatölur 2:1 og fyrsta tap Selfyssinga á útivelli staðreynd.

Stjarnan er sem fyrr á toppnum í deildinni með 30 stig, 9 stigum á undan Þór/KA sem skaust upp fyrir Selfoss með sigrinum en Selfyssingar sitja í 5. sæti deildarinnar, stigi á eftir Breiðablik og tveimur á eftir Fylki sem nú eigast við og sitja í 3. og 4. sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert