„Afar svekkjandi eftir alla þessa vinnu“

Jón Kári Ívarsson og Ólafur Örn Eyjólfsson og félagar í …
Jón Kári Ívarsson og Ólafur Örn Eyjólfsson og félagar í KV stefna niður í 2. deild. Staðan þeirra í 1. deildinni er a.m.k. ekki góð um þessar mundir. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Á meðan við eigum miða þá eigum við möguleika en auðvitað lítur þetta orðið illa út fyrir okkur,“ sagði Páll Kristjánsson, annar þjálfara KV, eftir að liðið tapaði 3:1 í fallslagnum við Selfoss í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöld. Eftir tapið er KV sex stigum frá næsta örugga sæti, þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.

„Það er afar svekkjandi eftir alla þessa vinnu og að með 18 stig skulum við vera í þeirri stöðu að vera nánast fallnir niður um deild. Það er alveg ömurlegt,“ sagði Páll, og bendir á að á sínu fyrsta ári í 1. deild hjálpi ekki til að KV megi ekki spila á heimavelli sínum í Vesturbænum, vegna skilyrða KSÍ um aðstöðu áhorfenda.

„Núna hljóma ég náttúrulega eins og mesta grenjuskjóða en við erum eina liðið á Íslandi sem fær ekki að spila heimaleiki. Það er bara til þess að drepa niður stemningu hjá mönnum og hundleiðinlegt. Þegar maður spilar 22 útileiki á tímabilinu þá situr maður ekki við sama borð og aðrir. Við höfum fengið að spila tvo leiki í Vesturbænum og tókum 4 stig úr þeim leikjum,“ sagði Páll.

Víkingur Ó. frestaði hátíðarhöldum Leiknismanna um stund með því að gera markalaust jafntefli við toppliðið. Leiknir þarf nú aðeins eitt stig í viðbót til að komast upp í Pepsi-deildina, og getur náð því gegn Þrótti R. á heimavelli á fimmtudagskvöld. Víkingar hefðu þurft sigur en þeir eru 4 stigum á eftir ÍA sem er í 2. sæti og á leik til góða við BÍ/Bolungarvík í dag.

KA og Haukar gerðu markalaust jafntefli á Akureyri þar sem KA-menn voru sviknir um mark þegar dómurum yfirsást að aukaspyrna Hallgríms Mars Steingrímssonar hefði farið inn fyrir marklínuna. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert