Breiðablik gefst ekki upp – FH í fallsæti

Telma Hjaltalín framherji Breiðabliks fremst í flokki í leiknum við …
Telma Hjaltalín framherji Breiðabliks fremst í flokki í leiknum við Þór/KA í kvöld. mbl.is/Ómar

Þremur leikjum var að ljúka í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, en 15. umferðinni lýkur í kvöld með fjórum leikjum.

Afturelding komst upp úr fallsæti eftir 3:0-sigur á ÍA á Skaganum. Valdís Björk Friðriksdóttir kom Aftureldingu yfir snemma leiks og þær Helen Lynskey og Stefanía Valdimarsdóttir bættu við tveimur mörkum eftir hlé, lokatölur 3:0. Með þessum úrslitum féll ÍA en liðið er aðeins með eitt stig eftir fimmtán umferðir.

FH datt niður í fallsæti eftir 4:1-tap gegn ÍBV á heimavelli. Nadia Lawrence og Shaneka Gordon kom Eyjakonum í 2:0 í fyrri hálfleik og Vesna Elísa Smiljkovic bætti við þriðja markinu eftir hlé, áður en Maria Selma Haseta minnkaði muninn stundarfjórðungi fyrir leikslok. Natasha Anasi innsiglaði hins vegar sigur ÍBV í blálokin.

Breiðablik gefur Stjörnunni gott aðhald um Íslandsmeistaratitilinn, en Blikar unnu 5:1-sigur á Þór/KA í Kópavogi. Rakel Hönnudóttir skoraði tvö marka Blika og þær Fanndís Friðriksdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir skoruðu sitt markið hvor, en eitt markið var sjálfsmark. Anna Rakel Pétursdóttir minnkaði muninn fyrir Þór/KA og skömmu fyrir leikslok fékk Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Blika, rautt spjald.

Breiðablik er nú þremur stigum á eftir Stjörnunni, sem er að gera 1:1-jafntefli við Selfoss þegar þetta er skrifað og getur endurheimt sex stiga forskot sitt með sigri.

Fylgst er með öllu sem ger­ist í ÍSLENSKI BOLT­INN Í BEINNI hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert