Komnir til að vinna

Heimir Hallgrímsson annar landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu segir önnur úrslit í riðlinum ekki skipta neinu máli svo lengi sem Ísland vinnur sinn leik gegn Kasakstan í undakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu en leikurinn fer fram á laugardag. Viðtalið við Heimi má sjá hér að ofan en viðtalið tók Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi KSÍ.

Landsliðið er nú þegar mætt til Kasakstan eftir langt ferðalag en sex tíma flug er frá Frankfurt til Astana. Leikið verður innanhúss enda má búast við um fimmtán stiga frosti þegar flautað verður til leiks á laugardag og strákarnir fá því nægan tíma til að venjast aðstæðum en þeir munu æfa næstu daga á keppnisvellinum.

„Það var tilgangurinn með þessu. Að geta aðlagast aðstæðum og tímamismuninum og gera okkur klára fyrir þennan leik gegn Kasakstan. Við vitum að þetta verður erfiður leikur og við viljum gera allt sem við getum til þess að vera nógu vel undirbúnir,“ sagði Heimir sem segir leikinn afar mikilvægan.

„Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur. Ef við vinnum hann skipta öll önnur úrslit okkur ekki máli. Öll önnur úrslit verða góð úrslit fyrir okkur. Tékkland - Lettland, Holland - Tyrkland - úrslitim úr þessum leikjum skipta ekki máli ef við vinnum,“ sagði Heimir og hélt áfram.

„Önnur úrslit verða alltaf slæm fyrir okkur ef við fáum ekki þjú stig í Kasakstan,“ sagði Heimir sem segir lið Kasakstan skemmtilegt, vel skipulagt með blöndu af líkamlega sterkum leikmönnum og flinkum.

„Þetta er nokkuð skemtilegt lið. Þeir eru bæði með líkamlega sterka leikmenn, sérstaklega varnarlega, þeir eru þéttir og skipulagðir varnarlega. Svo eru þeir með skemmtilega leikmenn fram á við og marga flinka fljóta stráka sem Íslendingar eiga eftir að sjá spila,“ sagði Heimir.

„Þó þeir séu í neðsta sæti í riðlinum þá eru gæði þeirra ansi mikil og eiginlega synd og skömm fyrir þá að þeir hafi ekki fengið betri úrslit hingað til. En þeir eru klárlega lið í framför,“ sagði Heimir.

„Við erum komnir hingað til að vinna þennan leik. Og fólk á að vænta þess að við vinnum hann en það er enginn að segja að þetta verði auðveldur leikur. Hann verður það aldrei,“ sagði Heimir.

Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerbäck og landsliðsmenn Íslands komu til Astana …
Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerbäck og landsliðsmenn Íslands komu til Astana í morgun eftir langt ferðalag. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert