Skotland sterkasti mótherji Íslands

Íslenska landsliðið fagnar marki gegn Hollandi fyrr í þessum mánuði.
Íslenska landsliðið fagnar marki gegn Hollandi fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Dregið var í riðla  fyrir Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu 2017 nú í hádeginu í höfuðstöðvum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, í Nyon í Sviss. Ísland var í fyrsta skipti í sögunni i efsta styrkleikaflokki. 

Ísland gat þar með ekki dregist gegn sjö sterkustu þjóðum Evrópu. Andstæðingarnir verða Skotland, Hvíta-Rússland, Slóvenía og Makedónía. Keppnin hefst 14. september.

Liðum í lokakeppni EM hefur verið fjölgað úr tólf í sextán. Þar með komast  tvö efstu liðin úr sex riðlum af átta beint í lokakeppnina í Hollandi 2017. Tvö lið með lakastan árangur í öðru sæti riðlanna fara í umspil um sextánda og síðasta sætið í keppninni í október 2016.

Riðlarnir eru þannig skipaðir, staða á heimslista innan sviga:

Riðill 1: ÍSLAND (20), Skotland (21), Hvíta-Rússland (49), Slóvenía (64), Makedónía (114).

Riðill 2: Spánn (14), Finnland (24), Írland (31), Portúgal (38), Svartfjallaland (93).

Riðill 3: Frakkland (3), Úkraína (23), Rúmenía (40), Grikkland (68), Albanía (78).

Riðill 4: Svíþjóð (5), Danmörk (15), Pólland (32), Slóvakía (46), Moldóva (138).

Riðill 5: Þýskaland (1), Rússland (22), Ungverjaland (40), Tyrkland (62), Króatía (59).

Riðill 6: Ítalía (13), Sviss (19), Tékkland (29), Norður-Írland (66), Georgía (113).

Riðill 7: England (6), Belgía (27), Serbía (45), Bosnía (71), Eistland (77).

Riðill 8: Noregur (11), Austurríki (26), Wales (35), Ísrael (57), Kasakstan (72).

Bein lýsing frá drættinum í dag:

12.21: Þar kom það. Ísland fær Skotland, Hvíta-Rússland, Slóveníu og Makedóníu.

12.20: Búið að draga úr B-flokki. Verst að fá 6. riðilinn, engin spurning!

12.17: Þá er búið að draga úr C-flokki. Sennilega yrði best að fá 7. riðilinn, miðað við þetta, en erfiðast að fá 6. eða 2. riðilinn.

12.13: Þá er búið að draga úr D-flokki. Greinilegt að það yrðu mestu ferðalögin að lenda í 8. riðlinum! Næst er það C-flokkurinn.

12.10: Þá er búið að draga úr flokki E og við sjáum hér fyrir ofan hvaða lið verða í hverjum riðli. Ísland fær eitt þesssara liða. Næst er dregið úr flokki D.

12.08: Byrjað er að draga liðin í styrkleikaflokki E þannig að Ísland verður síðast á ferðinni. 

12.04: Fjörtíu lið verða dregin í átta riðla, fimm lið í hverjum riðli. Moldóva og Georgía fengu tvö síðustu sætin eftir að hafa unnið sérstaka forkeppni fyrr í þessum mánuði.

12.02: Þá er athöfnin að hefjast í Nyon í Sviss og farið yfir vel heppnaða lokakeppni í Svíþjóð 2013 þar sem ný viðmið hafi verið sett með glæsilegri framkvæmd og meiri áhuga en nokkru sinni fyrr.

11.57: Mótherjar í síðustu undankeppni voru Noregur, Belgía, Norður-Írland, Ungverjaland og Búlgaría, og síðan Úkraína í umspili. Ísland  getur ekki mætt Noregi, sem er líka í efsta styrkleikaflokki, og ekki Búlgaríu, sem komst ekki upp úr forkeppni að þessu sinni.

11.45: Þar sem Ísland er í efsta styrkleikaflokki losnar íslenska landsliðið við að mæta einhverju af sjö bestu landsliðum Evrópu en það eru Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð, Noregur, England, Ítalía og Spánn.

Ísland hefur leikið í lokakeppni EM í tvö síðustu skipti, í Finnlandi 2009 og í Svíþjóð 2013, og komst í átta liða úrslitin í Svíþjóð fyrir  tveimur árum.

Þá léku 12 lið í lokakeppninni en nú hefur þeim verið fjölgað í 16. Það þýðir að tvö efstu liðin úr sex riðlum af átta komast beint á EM í Hollandi 2017 en tvö lökustu liðin í öðru sæti fara í umspil um eitt sæti. Holland fer beint í lokakeppnina sem gestgjafi.

Eitt lið er dregið úr hverjum styrkleikaflokki í hvern riðil og flokkarnir eru þannig skipaðir:

Flokkur A: Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð, Noregur, England, Ítalía, Spánn og Ísland.

Flokkur B: Rússland, Danmörk, Finnland, Sviss, Skotland, Austurríki, Úkraína og Belgía.

Flokkur C: Pólland, Tékkland, Wales, Írland, Rúmenía, Ungverjaland, Serbía og Hvíta-Rússland.

Flokkur D: Portúgal, Norður-Írland, Slóvakía, Bosnía, Tyrkland, Ísrael, Slóvenía og Grikkland.

Flokkur E: Eistland, Króatía, Kasakstan, Albanía, Makedónía, Svartfjallaland, Georgía og Moldóva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert