Með hjartað á réttum stað

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Árni Sæberg

Íslandsmeisturum Stjörnunnar var spáð 2. sætinu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á komandi keppnistímabili af fyrirliðum og forráðamönnum deildarinnar.

Það kom Rúnari Páli Sigmundssyni, þjálfara liðsins ekkert á óvart en hann segir Stjörnumenn engan veginn sadda og að þeir stefni á Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.

„Það kom mér ekkert á óvart, okkur var spáð 4. sæti í fyrra, þetta er aðeins betra en það en þetta er náttúrlega bara spá og það er bara gaman að henni,“ sagði Rúnar Páll.

„Ég held að það séu markmiðin hjá flestum liðum að gera sitt besta, að sjálfsögðu viljum við vinna titilinn eins og flest önnur lið en það þarf allt að ganga upp til að það gerist,“ sagði Rúnar Páll sem segir sína menn hafa verið duglega á undirbúningstímabilinu.

„Mér líst mjög vel á þetta og það er góð stemning í okkar hóp. Drengirnir hafa lagt hart að sér í vetur að vera tilbúnir í slaginn, það er mikil tilhlökkun,“ sagði Rúnar.

Hann er ánægður með leikmannahópinn þrátt fyrir að hafa misst sterka leikmenn eins og Ingvar Jónsson besta leikmann Íslandsmótsins á síðasta tímabili, enda lítið við því að gera þegar atvinnumennskan kallar í menn.

„Leikmennirnir sem fóru, fóru í atvinnumennsku mikið til og við höfum fengið sterka leikmenn í okkar hóp. Við höfum ekkert bætt of mikið við okkur en í þær stöður sem við misstum út. Ég er ánægður með leikmannahópinn, mikið af heimamönnum og uppöldum Stjörnumönnum, það er gott að hafa hjartað á réttum stað,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert