Settum mikla pressu á Víkingana

Freyr Alexandersson, annar þjálfari Leiknismanna.
Freyr Alexandersson, annar þjálfari Leiknismanna. Eva Björk Ægisdóttir

„Enn og aftur byrjum við leikina vel. Við settum mikla pressu á Víkingana og hefðum viljað fá mark á fyrstu fimmtán mínútunum þegar við pressuðum þá alveg í kaf og fengum fullt af hornspyrnum. En markið kom að lokum,“ sagði Freyr Alexandersson þjálfari Leiknismanna eftir 2:0 sigurinn gegn Víkingum í Pepsi-deild karla í kvöld.

„Þetta var ekki fallegsta markið en þetta hlaut að taka einhvern enda,“ sagði Freyr um mark Sindra Björnssonar sem kom að lokum eftir áttundu hornspyrnu Leiknismanna í fyrri hálfleiknum.

Freyr segist hafa, ásamt Davíð Snorra Jónassyni, öðrum þjálfari liðsins, lagt upp með það að gefa ekki miðjumönnum Víkinga neinn tíma á boltann.

„Ég veit ekki hvort þetta hafi komið þeim á óvart eða hvort við höfum gert þetta vel. Þeir eru með frábæra miðjumenn sem eru góðir á boltann og við vildum ekki gefa þeim neinn tíma á boltann en þeir opna okkur á ákveðnum svæðum á móti. Við reyndum að vernda þau og það gekk vel,“ sagði Freyr sem segir markmiðið hafa verið skýrt fyrir leikinn.

„Við ætluðum okkar að vinna, fyrst og fremst, að vera kraftmiklir með þennan Leiknisanda að vopni, með þessa frábæru stuðningsmenn sem gefa okkur það mikla orku að okkur finnst við geta hlaupið endalaust. Það var mottóið í dag,“ sagði Freyr.

Freyr var ánægður með stigin átta sem Leiknismenn hafa en þeir eru í 5. sætinu en segir þó þó á pari við það sem þeir ætluðu að gera.

Liðið setti sér markmið fyrir fyrstu sex umferðirnar en mætir í Kaplakrika í næstu umferð. Þar þarf liðið að vinna upp töpuðu stigin gegn ÍA á heimavelli sínum í 2. umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert