Fjölnir sigraði ÍA á Skaganum

Ármann Smári Björnsson og félagar í ÍA mæta Fjölni.
Ármann Smári Björnsson og félagar í ÍA mæta Fjölni. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Fjölnir sigraði ÍA, 3:0, á Akranesi í kvöld í 32-liða úrslitum í Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu. Sömu lið áttust við í Grafarvoginum á sunnudag í Pepsi deild karla en þá sigraði Fjölnir 2:0.

Leikurinn byrjaði frekar rólega en Fjölnismenn voru fljótir að ná undirtökum í leiknum og refsuðu Skagamönnum fyrir sofandahátt í vörninni. Fyrst skoraði Mark Magee á 13. mínútu þegar hann fékk boltann eftir að Þórir Guðjónsson skallaði á hann og Magee skoraði af öryggi.

Á 19. mínútu settu Fjölnismenn boltann inn á teig Skagamanna þar sem boltanum var flikkað á Aron Sigurðarson sem urðu ekki á nein mistök þegar hann setti boltann á milli fóta Páls Gísla í marki Skagamanna. Staðan í hálfleik 0:2 fyrir Fjölni og yfirburðir liðsins talsverðir.

Leikurinn var fremur tíðindalítill í síðari hálfleik en Fjölnir bætti einu marki við undir lok leiksins. Aron Sigurðarson fékk þá stungusendingu inn fyrir vörn Skagamenn og kláraði færið af öryggi og kóronaði þar með stórleik sinn.

Öruggur sigur Fjölnis sem eru þar með komnir í 16-liða úrslit bikarkeppninnar en Skagamenn eru úr leik.

ÍA 0:3 Fjölnir opna loka
90. mín. Arsenij Buinickij (ÍA) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert