KR sótti stig á Selfoss - Berglind með þrennu

Jóhanna Sigurþórsdóttir hjá KR stöðvar markaskorarann Magdalenu Reimus hjá Selfossi. …
Jóhanna Sigurþórsdóttir hjá KR stöðvar markaskorarann Magdalenu Reimus hjá Selfossi. Þær eru báðar uppaldar hjá Hetti á Egilsstöðum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Selfoss missti af tveimur dýrmætum stigum í toppbaráttu Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu þegar liðið mátti sætta sig við jafntefli, 1:1, gegn KR-ingum á Selfossi.

Guðmunda Brynja Óladóttir fyrirliði Selfoss brenndi af vítaspyrnu strax á 2. mínútu. Hulda Ósk Jónsdóttir kom KR yfir á 20. mínútu en eftir talsverðan sóknarþunga jafnaði Magdalena Anna Reimus fyrir Selfyssinga á 77. mínútu, 1:1.

Fylkir vann mjög öruggan sigur á Aftureldingu, 4:0, á Fylkisvellinum. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði fyrstu þrjú mörkin og Sandra Sif Magnúsdóttir innsiglaði sigurinn með marki beint úr hornspyrnu.

Staðan eftir leikina: Breiðablik 22 stig, Selfoss 16, Stjarnan 15, ÍBV 13, Valur 12, Þór/KA 11, Fylkir 7, KR 6, Þróttur R. 2, Afturelding 1. 

Stjarnan og Þróttur mætast í lokaleik áttundu umferðar annað kvöld.

Úrslit í leikjunum:

Selfoss - KR 1:1
Magdalena Anna Reimus 77. -- Hulda Ósk Jónsdóttir 20.
Fylkir - Afturelding 4:0
Berglind Björg Þorvaldsdóttir 42.(víti), 69., 74., Sandra Sif Magnúsdóttir 83.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og stuðst við upplýsingar frá fótbolta.net og urslit.net:

90. Leik lokið á Selfossi og KR nær óvæntu jafntefli, 1:1.

90. Leik lokið í Árbæ, Fylkir vinnur Aftureldingu 4:0 er þá kominn með 7 stig en Afturelding situr eftir með eitt stig á botninum.

90. Kominn uppbótartími í báðum leikjum.

83. MARK - 4:0 í Árbæ. Stórsigur Fylkis er staðreynd og Sandra Sif Magnúsdóttir skorar fjórða markið beint úr hornspyrnu!

77. MARK - 1:1 á Selfossi. Heimakonur jafna loks eftir þunga sókn í seinni hálfleik. Magdalena Anna Reimus, sem kom til Selfoss frá  Hetti, fær boltann frá Donnu Henry og skorar.

77. Enn smellur boltinn í tréverkinu og nú er það Ruth Þórðar úr Fylki sem á sláarskot gegn Aftureldingu.

74. MARK - 3:0 í Árbæ. Í stað þess að Mosfellingar minnki muninn er það Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem fullkomnar þrennuna fyrir Fylki. Skot vel fyrir utan teig, markvörður Aftureldingar er alltof framarlega og Berglind sendir boltann framhjá henni í netið.

72. Afturelding  fær dauðafæri til að minnka muninn gegn Fylki. Helen Lynskey er í dauðafæri en Eva Ýr Helgadóttir í marki Fylkis ver skot hennar vel.

69. MARK - 2:0 í Árbæ. Nær stanslaus sókn Fylkis skilar sér í öðru marki. Aftur skorar Berglind Björg Þorvaldsdóttir, nú eftir stungusendingu í gegnum vörn Aftureldingar.

64. Engu munar að Selfoss jafni metin. Anna María Friðgeirsdóttir með skot beint úr aukaspyrnu og í stöngina á marki KR!

55. Góð færi í báðum leikjum þar sem Fylkir er nærri því að skora sitt annað mark og bæði Selfoss og KR fara illa með góð færi í sinni viðureign.

46. Seinni hálfleikur er kominn af stað.

45. Hálfleikur á Selfossi þar sem KR er með óvænta forystu, 0:1.

45. Hálfleikur á Fylkisvelli þar sem staðan er 1:0, Fylki í hag, gegn Aftureldingu.

42. MARK, 1:0 í Árbæ. Fylkir hefur loksins nýtt sér yfirburðina gegn Aftureldingu og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skorar með góðu skoti.

22. Þverslárnar í Árbæ og á Selfossi nötra á sömu mínútunni. Hulda Hrund Arnarsdóttir úr Fylki á sláarskot gegn Aftureldingu og Anna María Friðgeirsdóttir úr Selfossi á sláarskot gegn KR.

20. MARK - 0:1 á Selfossi. Óvænt tíðindi en gegn gangi leiksins skorar Hulda Ósk Jónsdóttir fyrir KR þegar hún leikur í gegnum vörn Selfyssinga!

15. Selfoss og Fylkir eru sterkari aðilarnir í leikjunum, samkvæmt lýsingum fótbolta.net, en báðir leikir eru enn markalausir. Fylkir hefur sérstaklega verið með yfirburði gegn Aftureldingu til þessa.

2. VÍTI - Strax tíðindi frá Selfossi þar sem heimakonur fengu vítaspyrnu gegn KR. Brotið á Donnu Henry, samkvæmt lýsintu fótbolta.net. Guðmunda Brnja Óladóttir fyrirliði brenndi hinsvegar af!

1. Leikirnir eru hafnir.

0. Stuðst er við upplýsingar frá fótbolta.net og urslit.net.

Selfyssingar eru í þriðja sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Breiðabliks fyrir leiki kvöldsins, en færu með sigri þremur stigum fram úr Stjörnunni í annað sætið.

KR er með 5 stig í sjöunda sætinu, Fylkir 4 stig í áttunda sætinu og Afturelding er í tíunda og neðsta sæti með eitt stig, þannig að fyrir þessi þrjú félög er gríðarlega mikið í húfi í botnbaráttunni.

Lið Selfoss: Chante Sandiford (m), Donna Henry, Hrafnhildur Hauksdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Guðmunda Brynja Óladóttir, Heiðdís Sigurjónsdóttir, Summer Williams, Anna María Friðgeirsdóttir, Magdalena Anna Reimus, Eva Lind Elíasdóttir, Erna Guðjónsdóttir.

Lið KR: Agnes Þór Árnadóttir (m), Chelsea Leiva, Sigrún Birta Kristinsdóttir, Sara Lissy Chontosh, Margrét M. Hólmarsdóttir, Sigríður M. Sigurðardóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Jóhanna K. Sigurþórsdóttir, Íris Ósk Valmundsdóttir, Hugrún Lilja Ólafsdóttir, Kelsey Loupee.

Lið Fylkis: Eva Ýr Helgadóttir (m), Selja Ósk Snorradóttir, Tinna Bergþórsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir, Hulda H. Arnarsdóttir, Ruth Þórðar, Eva Núra Abrahamsdóttir, Lucy Gildein, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sandra Sif Magnúsdóttir, Shu-o Tseng.

Lið Aftureldingar: Mist Elíasdóttir (m), Elín Svavarsdóttir, Elise Kotsakis, Stefanía Valdimarsdóttir, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Hrefna G. Pétursdóttir, Sasha Andrews, Gunnhildur Ómarsdóttir, Katla Rún Arnórsdóttir, Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, Helen Lynskey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert