„Ætlum okkur að sjálfsögðu áfram“

Þórarinn Ingi Valdimarsson og félagar hans í FH eru staðráðnir …
Þórarinn Ingi Valdimarsson og félagar hans í FH eru staðráðnir í að leggja KR að velli í átta liða úrslitum Borgungarbikarsins í kvöld. mbl.is / Eva Björk Ægisdóttir

FH heldur í Vesturbæinn í kvöld og mætir KR í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins á Alvogenvellinum klukkan 20.00. Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður FH, er spenntur fyrir kvöldinu og vonast til þess að FH nái að snúa við slöku gengi FH í bikarkeppninni undanfarin ár.   

„Við bara getum ekki beðið eftir leiknum í kvöld og ætlum okkur að sjálfsögðu áfram. FH hefur ekki gengið sem skyldi í bikarkeppninni undanfarin ár og við ætlum okkur að breyta því í ár. Það er markmiðið hjá FH að fara langt í öllum þeim keppnum sem félagið tekur þátt í og bikarkeppnin er auðvitað engin undantekning í þeim efnum.“

„Við fengum þægilegt ferðalag og erum búnir að hugsa vel um okkur síðan á fimmtudaginn og mætum klárir til leiks í kvöld. Það skemmdi svo ekki fyrir að við náðum að vinna leikinn þannig að við mætum fullir sjálfstrausts í leikinn í kvöld. Við sluppum við meiðsli í leiknum í Finnlandi og það eru allir klárir í bátana í kvöld.“ 

„Það eru bara sömu grunnlögmál sem við þurfum að hafa í heiðri í kvöld eins og alltaf. Við verðum að hjálpa hvor öðrum, vera þéttir til baka og skipulagðir í sóknarleiknum. Það er ekkert eitt sem að við einblínum á að stöðva hjá KR frekar en annað. Ef að við náum okkar besta leik og náum upp þeim þáttum sem ég nefndi hér að framan þá förum við áfram, ég er klár á því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert