Valur í bikarúrslitin

Valur er kominn í úrslitaleik Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir að hafa lagt KA að velli eftir vítaspyrnukeppni á Akureyri í kvöld, en staðan var 1:1 eftir framlengdan leik liðanna.

Það var mikil spenna fyrir leiknum, en leikið var á Akureyrarvelli, heimavelli KA. Það voru heimamenn sem fóru leikinn betur af stað, en Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, braut á Elfari Árna Aðalsteinssyni, framherja KA og vítaspyrna dæmd.

Elfar Árni steig sjálfur á punktinn og skoraði örugglega. Ingvar Þór Kale, markvörður KA, skutlaði sér í vitlaust horn. Orri Sigurður Ómarsson jafnaði metin fyrir Val eftir hornspyrnu, en heimamenn vildu fá aukaspyrnu dæmda á Kristinn Inga Halldórsson, sem virtist halda Srdan Rajkovic, markverði liðsins.

Davíð Rúnar Bjarnason bjargaði á línu undir lok fyrri hálfleiks, en Valsmenn voru töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleik.

Davíð átti hættulegasta færi KA í síðari hálfleik en hann skallaði boltann þá í stöng. Fleiri mörk fengu ekki að líta dagsins ljós og fór því leikurinn í framlengingu á Akureyri. Ekkert var skorað þar og fór því vítaspyrnukeppni fram.

Kristinn Freyr Sigurðsson, Patrick Pedersen, Einar Karl Ingvarsson, Mathias Schile og Emil Atlason skoruðu allir fyrir Val þar, en Ingvar Þór Kale varði vítaspyrnu frá Josip Serdarusic og Valsmenn því komnir í úrslit Borgunarbikarsins. Liðið mætir þar KR eða ÍBV á Laugardalsvellinum 15. ágúst.

KA 4:6 Valur opna loka
120. mín. Patrick Pedersen (Valur) skorar úr víti Þetta er allt á mitt markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert