Tryggvi setti nýtt markamet

Tryggvi Guðmundsson hefur skorað flest af 218 mörkum sínum fyrir …
Tryggvi Guðmundsson hefur skorað flest af 218 mörkum sínum fyrir ÍBV, 75 talsins, sem er markamet Eyjamanna í efstu deild. Hér fagnar hann einu þeirra. mbl.is/Golli

Tryggvi Guðmundsson er orðinn markahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi í deildakeppni, heima og erlendis, eftir að hann skoraði fyrir Njarðvíkinga gegn Leikni frá Fáskrúðsfirði þegar liðin skildu jöfn, 1:1, í 2. deild karla á Njarðtaksvellinum í gær.

Þetta var 218. mark Tryggva, sem jafnaði metin úr vítaspyrnu á 75. mínútu, og hans þriðja mark í fyrstu fjórum leikjum sínum með Njarðvíkingum en hann gekk til liðs við þá í júlí eftir að hafa spilað með KFS frá Vestmannaeyjum í 3. deildinni fyrri hluta tímabilins.

Tryggvi, sem er nýorðinn 41 árs, er markahæstur allra leikmanna efstu deildar karla hér á landi frá upphafi með 131 mark. Hann skoraði 59 mörk í norsku úrvalsdeildinni og þrjú í þeirri sænsku og er því samtals með 193 mörk í efstu deild heima og erlendis, sem er líka Íslandsmet.

Eftir að Tryggvi lék síðast í efstu deild með Fylki, fyrri hluta tímabilsins 2013, hefur hann leikið með HK í 2. deild, KFS í 4. og 3. deild og nú með Njarðvík í 2. deild. Með markinu gegn Leikni hefur hann skorað 25 mörk í neðri deildunum hér á landi undanfarin tvö ár.

Áður var Vilberg Marinó Jónasson markahæstur allra í íslenskra knattspyrnumanna í deildakeppni, heima og erlendis. Hann skoraði 217 mörk, þar af 135 fyrir Leikni á Fáskrúðsfirði, en hin fyrir Fjarðabyggð, Þór á Akureyri, KBS, Hött og KSH en Vilberg lagði skóna á hilluna í lok tímabilsins 2013, þá 41 árs gamall. Hann á áfram metið í deildakeppni á Íslandi og hefur skorað fimm mörkum meira en næsti maður, Valdimar K. Sigurðsson sem skoraði 212 mörk fyrir Skallagrím (í fjórum efstu deildum Íslandsmótsins) og Kára. Á þeim lista er Tryggvi nú í 9. sætinu með 156 mörk.

Ferillinn hjá Tryggva í mörkum:

1992-1993 ÍBV, 12 mörk í 23 leikjum í efstu deild
1994 KR, 3 mörk í 13 leikjum í efstu deild
1995-1997 ÍBV, 41 mark í 52 leikjum í efstu deild
1998-2000 Tromsö, 36 mörk í 76 leikjum í efstu deild í Noregi
2001-2003 Stabæk, 23 mörk í 66 leikjum í efstu deild í Noregi
2004 Örgryte, 3 mörk í 22 leikjum í efstu deild í Svíþjóð
2005-2009 FH, 51 mark í 92 leikjum í efstu deild
2010-2012 ÍBV, 22 mörk í 52 leikjum í efstu deild
2013 Fylkir, 2 mörk í 9 leikjum í efstu deild
2013 HK, 5 mörk í 10 leikjum í 2. deild
2014 KFS, 15 mörk í 17 leikjum í 4. deild
2015 KFS, 2 mörk í 8 leikjum í 3. deild
2015 Njarðvík, 3 mörk í 4 leikjum í 2. deild

Samtals eru þetta 218 mörk í 444 deildaleikjum á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð, en Tryggvi er nú kominn í ellefta sæti yfir leikjahæstu Íslendinga í deildakeppni, heima og erlendis, frá upphafi. Hann fór uppfyrir Atla Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliða, á þeim lista með leiknum í gær.

Tryggvi Guðmundsson skoraði 51 mark fyrir FH og er fjórði …
Tryggvi Guðmundsson skoraði 51 mark fyrir FH og er fjórði markahæstur hjá Hafnarfjarðarliðinu í efstu deild frá upphafi. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert