„Erum betur í stakk búnar í ár“

Gunnar Rafn Borgþórsson er klár í slaginn fyrir bikarúrslitaleik Selfoss …
Gunnar Rafn Borgþórsson er klár í slaginn fyrir bikarúrslitaleik Selfoss og Stjörnunar sem fram fer í dag. Eggert Jóhannesson

Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, segir að mikil stemming sé í bæjarfélaginu fyrir bikarúrslitaleik liðsins gegn Stjörnunni. Bikarúrslitaleikurinn í knattspyrnu kvenna fer fram á Laugardalsvellinum klukkan 16.00 í dag og Ólafur Þór mikinn hug vera í herbúðum Stjörnunnar.

 „Það er gríðarlega mikil stemming bæði í liðinu og í bæjarfélaginu öllu. Það verður blásið til bæjarhátíðar í dag annað árið í röð. Það verður eitthvað svaka húllúmhæ og fríar rútuferðir á Laugardalsvöllinn. Það er stefnan að fjölmenna á leikinn,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss í samtali við mbl.is.

„Leikir Selfoss og Stjörnunnar hafa ávallt verið hörkuleikir. Þetta eru tvö líkamlega sterk lið og hröð. Þetta hafa verið gríðarlega jafnir leikir undanfarin ár. Í ár höfum við unnið þær tvisvar og þær unnið okkur tvisvar. Ég býst við að þetta verið hágæða fótboltaleikur í dag,“ sagði Gunnar Rafn enn fremur.

„Við erum klárlega betur í stakk búnar til þess að vinna bikarúrslitaleikinn í ár en í fyrra. Ég hef fundið það alla vikuna að spennustigið hjá leikmönnum liðsins er betur stillt í ár en í fyrra til að mynda. Við erum yfirvegaðri í allri umræðu og nálgun okkar í leik. Flestir leikmenn liðsins voru að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik í fyrra. Nú erum við reynslunni ríkari og vitum betur hvað við erum að fara út í. Að þessu sinni er meiri tilhlökkun í hópnum frekar en spenna,“ sagði Gunnar Rafn.

„Ég held að leikurinn í dag ráðist á því hvort liðið geri færri einstaklingsmistök. Liðin munu hvorugt gefa mikil færi á sér. Bæði lið eru hröð og geta útfært skyndisóknir sínar vel. Þegar annað liðið gerir mistök mun hitt liðið freista þess að refsa fyrir þau,“ sagði Gunnar Rafn að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert